131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[23:32]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég harma að hv. þingmaður skuli hafa flúið spurningar mínar alla leið suður í Garðabæ. Hingað til hefur hann ekki skirrst við að gangast við því að vera á Alþingi talsmaður hátekjufólks, eignafólks og fjármagnseigenda og berjast fyrir hagsmunum þeirra fyrst og fremst.

Ég spurði hv. þingmann tveggja spurninga. Annars vegar: Telur hann það vera forgangsverkefni í skattamálum að lækka skatta á hátekjufólk, fjármagnstekjueigendur og stóreignafólk? Hins vegar: Telur hann það vera eðlilega og viðeigandi þróun að yfir 20 þúsund af fátækustu Íslendingunum, þeir sem eru á strípuðum bótunum, hafa á síðustu árum farið að borga skatta sem nú nema á annan milljarð kr. á ári hverju? Vill hv. þingmaður vera svo vænn að svara þeim spurningum sem fyrir hann eru lagðar?