131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[23:50]

Gunnar Örlygsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Umræðan í dag hefur gengið ansi mikið út á hanaslag þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar. Deilt er um aðferðafræði við skattalækkanir og svo má lengi telja. Það sem hefur hins vegar gleymst í umræðunni, herra forseti, er hvernig afla eigi tekna til að mæta þessum skattalækkunum. Umræðan hefur gengið út á það hvernig eyða eigi að peningum. Farið er í sögulegar skýringar langt aftur í tímann og reynt að kasta rýrð á andstæðinginn. Umræðan hefur ekki gengið út á þá lógík, þá skynsemi, herra forseti, um hvernig afla eigi tekna.

Því leyfi ég mér að spyrja, herra forseti, hv. þm. Guðlaug Þór hvort hann hafi ekki áhyggjur af þeirri þróun sem er í efnahagsmálum þjóðarinnar í dag. Við stöndum frammi fyrir stærstu framkvæmdum Íslandssögunnar austur á landi og það er vel, en þær framkvæmdir eru þensluhvetjandi. Á sama tíma og þetta er staðreyndin lofum við skattalækkunum upp á 22 milljarða. Það er mikið lagt á sig en engin umræða fylgir því hvernig auka eigi tekjurnar til að mæta enn frekari þenslu. Menn rífast um hver eigi heiðurinn af þessum skattalækkunum. (Gripið fram í.) Menn rífast um það.

Hafa hv. þm. Guðlaugur Þór og aðrir félagar hans hér inni, til að mynda hv. þingmenn Sigurður Kári og Bjarni Benediktsson ekki áhyggjur af því (Forseti hringir.) að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ekki nýta það vald sem hann hefur?

(Forseti (BÁ): Forseti verður að gera þá athugasemd að hv. þingmönnum ber að ávarpa aðra þingmenn eða nefna þá fullu nafni en ekki bara fornafni eða millinafni.)

Hafa hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekki áhyggjur af því, herra forseti, að ekki sé gripið til aðgerða í forsætisráðuneytinu, hjá samstarfsflokknum í ríkisstjórninni, hvað varðar viðbrögð Seðlabanka Íslands (Forseti hringir.) við þeirri þenslu sem er í landinu? Eigum við ekki að nota bindiskylduna og innstreymi fjármagns (Forseti hringir.) til viðskiptabankanna í landinu? Það er spurning mín, herra forseti, til hv. þingmanns.