131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[23:56]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því miður hefur þessi ríkisstjórn ekki verið í 20 ár en verður vonandi næstu 20 árin.

Hvað varðar seinni spurningu hv. þm. Gunnars Örlygssonar varðandi aðferðafræði Hafrannsóknastofnunar, hvort ekki mætti skoða hana, þá er svar mitt einfalt já. Ég held að það sé eitthvað sem er ekki hafið yfir gagnrýni. Í mínum huga er það mjög einfalt og það eru margir vinklar á því sem ég hefði áhuga á að skoða betur.

Ég bið hv. þingmann afsökunar á því ef ég hef ekki svarað spurningu hans nógu skýrt áðan en þar sem hann vitnar í bindiskyldu bankanna eða annað slíkt þá er það stjórntæki sem er hjá Seðlabankanum. En aðeins varðandi það hvort, ef ég skildi hv. þingmann rétt, … (GÖrl: Hann heyrir undir forsætisráðuneytið.) Hv. þingmaður segir að Seðlabankinn heyri undir forsætisráðuneytið en Seðlabankinn er sjálfstæður og það er ein aðgerðin sem við gripum til og við getum ekki gefið honum bein fyrirmæli eða framkvæmdarvaldið og ég held að það hafi verið góð ákvörðun þó svo að menn geti haft allar skoðanir á aðgerðum Seðlabankans hverju sinni.

En aðeins varðandi það hvort við þurfum að hafa áhyggjur af því að það vanti tekjur í ríkissjóð þá er það sem betur fer svo, virðulegi forseti, að við höfum verið að greiða niður skuldir og ein af ástæðunum fyrir því að við getum farið út í þessa skattalækkun er sú að við erum t.d. búin að spara sem samsvarar 11 þús. millj. á hverju ári í vaxtagreiðslum. Ef við berum okkur saman við nágrannalöndin og það er alveg sama hvaða lönd við berum okkur saman við, OECD-lönd, þá eru skuldir hér með þeim allra lægstu, ég held að við séum númer fjögur eða fimm með hlutfall af vergri landsframleiðslu. Þetta er einn hluti af þeim stórkostlega árangri sem við höfum náð og er ein af ástæðunum fyrir því að stjórnarandstaðan er í öngum sínum, getur ekki tekið þátt í umræðunni og er algjörlega pakkað saman hér í dag og kvöld.