131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[00:19]

Guðjón Hjörleifsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningar hans. Það er alveg rétt að sveitarfélögin þurfa að gera þriggja ára áætlanir og yfirleitt eru þær, miðað við eðlilegan rekstur, framreiknaðar ef ekki eru miklar breytingar, en það er rétt að forsendur breytast oft hjá sveitarfélögum og menn þurfa að gera ráð fyrir því hvort menn ætla að hækka þjónustugjöld til samræmis við það. Þetta er bara eðlilegur rekstur. Það sem kannski breytist mest eru áherslurnar á hvernig byggja á upp velferðarkerfið og þjónustuna. Menn eru með eitt í dag og svo er kannski einhver þarfagreining og annað sem þarf að byggja upp næst.

Þriggja ára áætlanir geta breyst mjög mikið hjá sveitarfélögum. Það er misjafnt en þær geta breyst mjög mikið hvað varðar reksturinn. (JGunn: En hjá ríkinu?) Hjá ríkinu getur það breyst, við vitum það ekki, það er náttúrlega stóra málið eins og ég sagði í ræðu minni áðan að menn þurfa að hafa aðhald í rekstri og gæta þess vel að spara. Við þurfum tekjur og umræðan um tekjurnar í dag var mjög eðlileg, að verðlagsþróun sé á þeim. Ég veit ekki betur en sveitarfélögin hafi verið að hækka þjónustugjöld samkvæmt verðlagsþróun. Það versta sem sveitarfélög gera í dag er að hækka ekki þjónustugjöldin árlega. Þau fresta því um eitt til þrjú ár og svo kemur að því að menn hækka þau innan eðlilegs verðlags og fá þá bágt fyrir. Við erum búin að reka okkur á þetta í mörgum sveitarfélögum. Eðlilegt væri að það væri fastbundið að þetta mundi hækka samkvæmt ákveðinni launa- og neysluvísitölu til helminga. Það finnst mér vera eðlilegur rekstur.