131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[00:21]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var hlálegt að hlusta á hv. þingmann bera saman fjárhæð ríkisins og sveitarfélaga. Ég hélt að jafnreyndur sveitarstjórnarmaður og hv. þm. Guðjón Hjörleifsson vissi manna best að það er ekki saman að jafna þegar horft er á tekjur ríkissjóðs og tekjur sveitarfélaganna í dag. Þeir sem passa ríkiskassann hafa ekki við að taka við peningum sem koma úr breiðu slöngunni sem liggur í kassann. Ég hélt að hv. þingmaður vissi hvernig ástand sveitarsjóða væri. Þar hafa menn ekki val um það hvort þeir ætla að hækka gjöld eða ekki en ríkissjóður hefur fullt val og val stjórnarliða hefur verið að hækka hvert og eitt einasta gjald sem til er. Ég ætla aðeins að lesa fyrir hv. þingmann listann um þær ákvarðanir sem teknar hafa verið og þau frumvörp sem lögð hafa verið fram á þessu ári og hækkanir sem fyrirhugaðar eru á því næsta.

Hv. stjórnarþingmenn ætla að hækka skólagjöld í háskólum um 140 millj. á næstu tveimur árum, gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra um 70 millj., aukatekjur ríkissjóðs um 200 millj., umsýslugjald fasteigna um 280 millj., áfengisgjald um 340 millj., bifreiðagjald um 120 millj., vaxtabætur skerðast um 1.500 millj., olíugjaldið gefur 350 millj., sjúkratryggingar 1.500 millj., komugjöld á heilsugæslustöðvar 150 millj., vörugjald af bensíni 1.200 millj., þungaskattur 800 millj. og barnabætur skertar í fyrra og aftur á þessu ári um 300 millj.

Þetta er listinn, hv. þingmaður, yfir gjaldahækkanir ríkisstjórnarinnar á allra síðustu dögum. Þykir hv. þingmanni eitthvað undarlegt, þegar horft er á listann, að við stjórnarandstæðingar eigum erfitt með að sjá af hverju menn tala um skattalækkanir fyrir árið 2005 þegar þær skattalækkanir eru upp á 5.600 millj. á móti þeim 8.150 sem ég var að lesa upp. Ég hélt að þetta lægi skýrt fyrir og reyndur rekstrarmaður eins og hv. þm. Guðjón Hjörleifsson sæi þetta manna best.