131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[00:23]

Guðjón Hjörleifsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er töluvert meiri sveifla í tekjum sveitarfélaga. Þú spurðir mig um Vestmannaeyjar áðan. Vestmannaeyjar eru með 25% af loðnukvótanum. Ef loðnan minnkar og illa veiðist, ef það verður breyting á afurðaverði er búið að tengja laun sjómanna við afurðaverð erlendis. Þ, það er búið að tengja laun sjómanna á frystitogurum við dollarann í dag og þau eru að lækka mikið og tekjur að minnka. Þetta er langtum meiri sveifla en eðlilegt er. Það er samasemmerki á milli veiða og afurðaverðs og útsvarstekna bæjarsjóðs Vestmannaeyja.

Hvað varðar þau gjöld sem hér var rætt um hefur þorri þeirra gjalda sem hafa verið lögð á hækkað við verðlagsbreytingar. Ef við ætlum að reka ríkissjóð eins og eðlilegt fyrirtæki og veita góða þjónustu og byggja upp velferðarkerfi eigum við að hækka þetta eðlilega en innan skekkjumarka. Ég var innilega sammála því sem hv. þingmaður Ögmundur Jónasson sagði í dag, þetta á allt að fylgjast að en innan þeirra marka að ekki sé verið að leggja á aukaálögur.