131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[00:24]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður flutti ágæta, málefnalega og vel rökstudda ræðu þó ég sé ekki sammála pólitík hans. Eitt tel ég þó vera rangt í málflutningi hans þegar hann segir að skattabreytingarnar, skattalækkanirnar komi hlutfallslega betur út fyrir hina tekjulægri. Þetta tel ég vera rangt því að á kjörtímabilinu lækka tekjuskattar hátekjufólks um 9 prósentustig en skattar lágtekjufólks og millitekjufólks lækka um 4 prósentustig. Þannig er hagræðið af skattabreytingunum fyrir einstakling með 300 þús. kr. á mánuði 177 þús. kr. á ári en hagræði einstaklings með um 1 milljón á mánuði er yfir 1 milljón, 1.100 þús. kr. Það er því ekki aðeins í krónum talið að hátekjumaðurinn hagnast betur, ráðstöfunartekjur milljón kr. mannsins aukast um 12,4% en ráðstöfunartekjur 300 þús. kr. mannsins um 7%.

Eitt vil ég spyrja hv. þingmann um. Hann talaði um göng til Vestmannaeyja. Hvernig vill hann fjármagna þau göng? Með notendagjöldum eða með skattfé? Hann segir að nú séu aðstæður í efnahagslífinu á þann veg að hægt sé að lækka skatta verulega. Hvernig ætlar hann að fjármagna göngin? Eiga Vestmanneyingar að borga notendagjöld eða á að gera þetta með sköttum?

Ég vil taka önnur dæmi. Ég vil taka samninga við launafólk. Við vitum að sveitarfélögin í landinu áttu í erfiðleikum með að greiða kennurum hærri laun vegna þess að fjárhagur þeirra var mjög þröngur. Sama er upp á teningnum hjá ríkinu á ýmsum sviðum, þrengt er að rekstrinum í heilbrigðisþjónustunni og víðar. (Forseti hringir.) Vill hv. þingmaður skýra betur fyrir (Forseti hringir.) okkur í hverju hið góða efnahagsástand er fólgið?