131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[00:59]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er með hálfum huga að ég kem upp í andsvar við hv. þm. Birki Jón Jónsson vegna þess að mér hefur virst það þýða lítið þegar búið er að læra frasana utan að og ekki er hlustað á eitt eða neitt af því sem fram kemur í umræðum, þá hefur það kannski lítinn tilgang að koma í andsvar við hv. þingmann.

Þegar ég gekk hér upp var ég búinn að setja mér að ráðast ekki á hv. þm. eins og hann virtist óttast að þingmenn mundu gera, en þó verð ég að segja að mér þótti ansi hart hvernig þingmaðurinn fór rangt með orð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrr í dag um skatt á fyrirtæki. Ég hlýddi á þá ræðu og gat ekki heyrt að hún hefði á nokkrum stað í ræðu sinni minnst á að hækka þyrfti skatta á fyrirtæki. Þegar ég kallaði fram í hjá hv. þingmanni og leiðrétti hann sagði hann að það væri sín túlkun. Þetta er akkúrat það sem við höfum oft á tíðum orðið vitni að með þennan hv. unga þingmann Birki Jón Jónsson að hann túlkar hlutina oft ansi frjálslega, hvort sem það má þá vera eitthvað sem við köllum Siglufjarðartúlkun eða hvað það er.

Aðeins varðandi eignarskatta vegna þess að hann sagði að við í Samfylkingunni hefðum breytt afstöðu okkar til eignarskatta og hann fór með hugljúfa ræðu um eldri konu í þriggja herbergja íbúð, sem vel getur verið að hann hafi hitt og átt orðastað við. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Kemur það ekki á sama stað niður fyrir þessa eldri konu ef fríeignamarkið yrði hækkað, yrði þrefaldað, t.d. þannig að fríeignamarkið yrði 50 millj. fyrir einstaklinga og 30 millj. fyrir hjón, kæmi þá ekki í sama stað niður fyrir þessa öldruðu konu að hún greiddi engan eignarskatt eftir það? Telur hv. þingmaður það eðlilegt og sjálfsagt að við lækkum eignarskatt á lögaðila um 1.362 millj. á sama tíma og ekki er hægt að ráðast í hækkun barnabóta á næsta ári?