131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[01:01]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er mjög athyglisvert. Stefna Samfylkingarinnar í skattamálum er að skýrast örlítið. Ég vil lesa úr minnihlutaáliti sem hv. þingmenn Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Lúðvík Bergvinsson skrifa undir þann 8. desember árið 2004, og bendi hv. þingmönnum á að nú nýlega er kominn 10. desember. Minnihlutaálitið hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. minni hluti vill setja í forgang að lækka matarskattinn um helming. Slík lækkun kemur öllum vel, sérstaklega fólki með meðaltekjur og lágar tekjur. Auk þess hefur slík aðgerð jákvæð áhrif á neysluvísitöluna sem mun lækka um 0,8%. 1. minni hluti leggur líka megináherslu á að hækka barnabætur strax og að þær verði greiddar til 18 ára aldurs barna. Sömuleiðis telur 1. minni hluti rétt að skoða“ — ég legg áherslu á það við hv. þingmenn — „verulega hækkun fríeignamarka í eignarskatti einstaklinga sem komi strax til framkvæmda.“

Þann 8. desember sl. vildu hv. þingmenn Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd skoða hvort þeir ættu að hækka fríeignamarkið í eignarskatti. Nú er nýkominn 10. desember og þeir hafa tekið ákvörðun um að eyða til þess trúlega yfir 1.000 millj. en peningarnir eru ekki lengi að verða til hjá Samfylkingunni.

Að öðru leyti stend ég við það sem ég sagði áðan að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði fyrr í dag að lækkun tekjuskatts á fyrirtækin í landinu hefðu bitnað á lágtekjufólki. Svo getur hver sem er lesið út úr þeim orðum hvað hv. þingmaður meinti.