131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[01:03]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Enn kemur hinn ungi hv. þm. Birkir J. Jónsson upp og það skín í gegn að hann gefur sér ekki tíma til að lesa þingskjöl í gegn eins og minnihlutaálit áður en hann kemur upp í umræðu.

Í niðurstöðu 1. minni hluta kemur fram að rétt sé að skoða verulega hækkun fríeignamarks eins og hv. þingmaður las upp. Ef hann hefði lesið kaflann í nefndarálitinu um lækkun eignarskattsins hefði hann séð hvað liggur þar á bak við. Það sem liggur á bak við er að 1. minni hluti fékk ekki upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu um hvaða áhrif það hefði ef fríeignamörkunum yrði lyft. Gengið var eftir því á hverjum einasta klukkutíma í gærdag að fá útreikninga á þessu því við getum aðeins snúið okkur til fjármálaráðuneytisins með þetta eftir að Þjóðhagsstofnun var lögð niður. Við fengum ekki útreikningana og því segir í álitinu og ég held að rétt sé að ég fái að lesa það þó tíminn sé stuttur, með leyfi forseta:

„Ekki gafst tími til að kanna það misræmi sem er á áðurnefndum upplýsingum“ — þá er verið að tala um upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu annars vegar og ríkisskattstjóra hins vegar um áhrif eignarskattsbreytingar — „og áskilur 1. minni hluti sér rétt til að óska eftir því að málið verði skoðað sérstaklega af efnahags- og viðskiptanefnd milli 2. og 3. umr. þannig að öllum vafa verði eytt um það hverjir hagnast sérstaklega af afnámi eignarskattsins.“

Þetta liggur á bak við það að ætla sér að skoða hvaða áhrif það hefði að lyfta frítekjumörkunum. Telur hv. þingmaður ekki eðlilegt að þegar ekki fást upplýsingar um hvaða áhrif þetta hefur og hvaða krónutala mundi liggja á bak við þær tillögur sem fram yrðu lagðar að menn vilji skoða það á milli umræðna og fá þá útreikninga til að geta lagt fram tillögur sem byggja á krónutölu?

Að öðru leyti ætla ég ekki að elta ólar við það sem þingmaðurinn sagði. Eins og ég sagði í upphafi fór hann með sömu frasa og maður hefur heyrt hann fara með undanfarna daga um tekjuskattslækkanirnar sem hann kallar svo en við höfum leyft okkur að kalla hækkanir, vegna þess að þær eru virkilegar hækkanir.