131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[01:07]

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Við höfum rætt hér tekju- og eignarskattsfrumvarp síðan í gær. Það var mikill gleðidagur fyrir okkur mörg í þinginu en nú er kominn nýr gleðidagur og við klárum væntanlega frumvarpið á þessum sólarhring. (Gripið fram í.) Margar ræður hafa verið haldnar og margt hefur komið fram í þessari löngu umræðu. Það sem gerði það að verkum að ég vildi koma upp og lengja örlítið umræðuna var ræða hv. þm. Kristjáns L. Möllers.

Hv. þingmaður ræddi um tekju- og eignarskattsfrumvarpið og tengdi það landsbyggðinni. Hann kallaði upp þingmenn af landsbyggðinni og vildi heyra sjónarmið þeirra varðandi frumvarpið. Mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að verða við því að ræða svolítið við hv. þm. Kristján L. Möller um landsbyggðartenginguna.

Fram kom í ræðu hans að eignarskattarnir kæmu landsbyggðinni lítið við, þeir væru fyrst og fremst í Reykjavík. Reyndar bætti hann við: Þar sem afætur þjóðfélagsins eru. En hvað er að gerast í þjóðfélaginu? Hvað er að gerast í dag á þessum gleðidögum þegar við höfum efni á því að fara í umfangsmestu skattalækkanir sögunnar. Við greiðum mikinn arð til fólksins í landinu, vegna þess að atvinnuvegirnir standa vel, ríkissjóður stendur vel og svo ekki síst það sem ég vil koma sérstaklega inn á varðandi landsbyggðina að við stöndum fyrir umfangsmestu, stærstu og mestu framkvæmdum á Austurlandi sem nokkru sinni hefur verið farið í. Austurland er á landsbyggðinni og hvaða áhrif skyldi þetta hafa á aðra fjárfestingu á Austurlandi? (Gripið fram í: Í hvaða kjördæmi?) Það er í kjördæmi hv. þm. Kristjáns L. Möllers, Norðausturkjördæmi. Nú þegar eru hafnar gríðarlegar framkvæmdir aðrar en bygging virkjunarinnar og aðrar framkvæmdir en álverið eru að fara í gang. Hvað þýðir þetta fyrir Austurland? Hvað þýðir þetta fyrir landsbyggðina? Það þýðir að íbúðaverð hækkar á þessum svæðum. Það er að fara feiknarlegt fjármagn á svæðin, það er að verða gríðarleg gróska og mikil atvinnuuppbygging. Efnahagurinn á svæðinu stórvex og að koma svo upp og segja að ekkert sé að gerast á landsbyggðinni, skattabreytingarnar skipti engu máli. Allar eignir fólksins sem býr m.a. á Austurlandi verða eignarskattsfríar. Það verður enginn eignarskattur. Eftir morgundaginn verða lögin um eignarskatt sett á Þjóðminjasafnið. Þau virka ekki lengur.

Hv. þingmanni var tíðrætt um flutningskostnað og það er vissulega mál sem við þurfum að huga að. En einmitt á Austurlandi kann svo að fara, í tengslum við þær miklu framkvæmdir sem þar standa yfir og munu standa yfir á næsta ári, að aðföng og aðdrættir af þeim landshluta verði ódýrari en jafnvel til höfuðborgarsvæðisins, sem er alæta landsbyggðarinnar að mati hv. þingmanns. Verið er að flytja feiknamikið inn af vörum, vélum og þjónustu beint á hafnirnar á Austurlandi. Það er mun ódýrara ef það kemur frá Evrópu en að flytja það á Reykjavíkursvæðið. Þetta stóreflir því atvinnuuppbyggingu á Austurlandi og mun skila því svæði og allri landsbyggðinni miklum hagvexti.

Ég get nefnt Suðurkjördæmi, kjördæmið sem ég kem úr. Það eru vissulega ekki stóriðjuframkvæmdir á því svæði en samt sem áður eru miklar framkvæmdir á tilteknum svæðum. Það hafa til að mynda aldrei verið jafnmiklar framkvæmdir í Árnes- og Rangárvallasýslu en einmitt á yfirstandandi ári, aldrei nokkurn tíma í sögunni. Það er mikil gróska. Menn tala um það í ræðum að fólk sé að flytja af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Þetta er bara alrangt. Fólk er að flytja af stórhöfuðborgarsvæðinu á Suðurlandið í stórum stíl, er að byggja sig þar upp, byggja atvinnuvegi og byggja húsnæði og hyggst búa á því svæði. Akstur á milli Stór-Reykjavíkursvæðisins og Stór-Árborgarsvæðisins er gríðarlegur, það eru á milli 6–7 þús. bílar daglega. Það slagar upp í Reykjanesbrautina. Það eru orðnir svo miklir fólksflutningar á milli dags daglega á þessu svæði.

Herra forseti. Ég kem fyrst og fremst upp til að ræða þetta mál og benda á að við, þingmenn landsbyggðarinnar, megum vara okkur á því að tala ekki landsbyggðina niður í kuldann og út af borðinu. Við eigum að tala kjark í fólk sem býr á landsbyggðinni og við eigum að trúa á landsbyggðina og tala þannig að þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu skilji það og viti að það er að mörgu leyti ódýrara og betra að búa á landsbyggðinni.

Hv. þingmaður ræddi um atvinnuháttabreytingu sem hann nefndi svo í landbúnaði og sjávarútvegi og kenndi stjórnvöldum um hvernig farið hefði í þeim höfuðatvinnugreinum landsmanna, að þær væru að hrynja niður. Ég verð að spyrja: Þekkja menn landsbyggðina ekki það vel til að vita að orðið hafa gríðarlegar tækniframfarir og vélvæðing í þessum höfuðatvinnugreinum? Framfarir í fiskveiðum gera það að verkum að það þarf færri menn, minna vinnuafl, fiskurinn kemur meira unninn að landi. Í landi er vinnslan miklu tæknivæddari og vélvæddari en nokkru sinni fyrr. Það er fyrst og fremst þetta sem hefur haft gríðarleg áhrif á vinnustrúktúrinn og uppbygginguna á landsbyggðinni. Landbúnaðurinn hefur verið í þróun í mörg ár. Talað hefur verið um að á Suðurlandi fækki mjólkurframleiðendum um 40–50 á ári allt frá 1960. Þetta er stöðug þróun sem sér ekki endilega fyrir endann á. Auðvitað eru þetta miklar breytingar en það er ekki stjórnvöldum að kenna að menn hætta að handmjólka og fara að nota róbóta og það er ekki stjórnvöldum að kenna að menn salta ekki í tunnur eins og gert var á Siglufirði forðum. Þetta er bara ný tækni og meiri arður sem við fáum út úr auðlindinni og m.a. þess vegna getum við nú farið út í þær umfangsmiklu skattalagabreytingar sem kynntar hafa verið á síðasta sólarhring.

Í umræðunni hefur jafnframt komið fram að tekjuskattur á fyrirtæki hafi lækkað undangengin ár, úr 50% í 30% og síðast í 18%. Við höfum breytt skattalöggjöf okkar þannig að þegar samningar um stóriðju voru síðast gerðir á Íslandi þá þurfti ekki að gera sérlög eins og gert var þegar álverið í Straumsvík var byggt. Þá þurfti að búa til sérlög, skattalög, fyrir þá framkvæmd og fyrir fyrirtækið sem rak þá stóriðju. Nú þarf þess ekki lengur með. Í landinu gilda almenn lög varðandi skatta þessara fyrirtækja og það er vel. Það er vegna þess að við höfum aðlagað skattkerfi okkar því besta sem gerist enda hefur það komið fram í umræðunni að við erum meðal tíu ríkustu þjóða heims. Það m.a. fleytir okkur áfram, herra forseti.

Eins og ég sagði áðan hefur margt komið fram við þessa umræðu en fyrst og fremst meiningarmunur stjórnar og stjórnarandstöðu. Samfylkingin þrástagast á hækkunum á gjöldum, frumvörpum um hækkun gjalda sem lögð hafa verið fram undangengna daga, gjöldum sem eru hækkuð og færð til samræmis við verðlag. Þetta skilja allir. Við erum hins vegar að lækka skatta til langs tíma og fella niður eignarskatt. Það mun fólk einnig skilja. Við skilum til hinna vinnandi stétta arði sem safnast hefur upp vegna mikils hagvaxtar í þjóðfélaginu og vel rekins ríkissjóðs. Fólkið í landinu, sem hefur staðið undir þeirri miklu vinnu, á svo sannarlega skilið að fá arðinn til baka. Við ættum að tala þannig til þessa fólks að það eigi að njóta hins mikla hagvaxtar.

Fólkið úti á landi á ekki síst skilið hrós frá okkur stjórnmálamönnum. Við eigum að tala kjark í landsbyggðina. Þar er gott að búa, eins og í Kópavoginum, og ekki síðra.