131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Lánasjóður sveitarfélaga.

269. mál
[01:26]

Guðjón Hjörleifsson (S):

Virðulegi forseti. Lánasjóður sveitarfélaga er samkvæmt lögum sameignarsjóður sveitarfélaga á Íslandi og hefur starfað undir yfirumsjón ríkisstjórnarinnar. Með þessu frumvarpi eru lagðar til eðlilegar breytingar til að aðlaga sjóðinn að almennum starfsskilyrðum fjármálafyrirtækja á fjármálamarkaði. Eftirleiðis mun sjóðurinn, eins og önnur fjármálafyrirtæki, falla undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins og fellur undir lög og reglur sem eftirlitið setur hverju sinni á grundvelli þeirra laga.

Megintilgangur sjóðsins er að útvega sveitarfélögum eins hagstæð lán og kostur er á á hverjum tíma. Þar með hafa sveitarfélög valkosti við lánsumsóknir. Þegar vaxtaumhverfi var annað og vextir hærri þá hafði Lánasjóður sveitarfélaga mjög hagstæð vaxtakjör. Stærri sveitarfélög gátu samt sem áður náð í hagstæðari lán annars staðar með stóru útboði en minni sveitarfélög sóttu mikið til lánasjóðsins og var töluverður munur á vaxtakjörum sjóðsins og vaxtakjörum bankanna á þeim tíma.

Virðulegi forseti. Lánasjóður sveitarfélaga hefur, miðað við árslok 2003, lánað sveitarfélögunum 9% af skuldum sveitarfélaga og fyrirtækja þeirra.

Helstu kostir við þessar breytingar eru að jöfnunarsjóðurinn hættir að greiða árlegt framlag og möguleikar skapast á frekari framlögum sjóðsins til sveitarfélaganna. Málefni hans eru alfarið á hendi sveitarfélaganna sem kappkosta að ná sem bestum vaxtakjörum hverju sinni með útboði og fleiru og hafa samanburðarvalkost í lánasjóðnum.

Lánasjóður sveitarfélaga hefur ekki orðið fyrir útlánatöpum og er eiginfjárstaða hans mjög sterk. Samtök banka og verðbréfafyrirtækja telja eðlilegt og í takt við tímann að leggja niður starfsemi Lánasjóðs sveitarfélaga. Í nefndaráliti félagsmálanefndar er lagt til að fundið sé út hver eignarhlutur hvers sveitarfélags sé í sjóðnum og þarf sú niðurstaða að liggja fyrir innan árs.

Virðulegi forseti. Við höfum mikið rætt um fjármál sveitarfélaga. Það verður mjög jákvætt þegar fyrir liggur hver eignarhlutur sveitarfélaganna er. Þá verður það sjálfstæð ákvörðun sveitarfélags hvort það vilji selja hlut sinn í sjóðnum. Tíminn verður að leiða í ljós hvort breytingar verða á rekstrarumhverfi sjóðsins og verður það undir eigendum hans komið. Sum sveitarfélög eru mjög skuldsett og kunna að sjá tækifæri á að lækka skuldir með því að selja hlut sinn í sjóðnum. Tíminn verður að leiða það í ljós en frumvarp þetta, hæstv. forseti, færir Lánasjóð sveitarfélaga í eðlilegt fjármálaumhverfi eins og aðrar fjármálastofnanir.