131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

321. mál
[01:40]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég fagna því sérstaklega að þetta þingmál komi fram, þetta frumvarp, og ég fagna því að Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins skuli hafa náð samkomulagi sem gengur í þá átt að verja réttindi og kjör verkafólks. Menn voru sammála um það að hætta væri á því að grafið yrði undan réttindakerfi launafólks í landinu og að þeir sem sérstaklega yrðu fyrir barðinu á ósvífnum atvinnurekendum væru aðfluttir farandverkamenn. Þetta þingmál miðar að því að verja réttindi og kjör þess fólks. Það er sérstakt fagnaðarefni að þetta mál skuli komið hingað fram og verði að lögum.