131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

321. mál
[01:49]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Vegna orða hv. þm. Ögmundar Jónassonar rétt áðan verð ég að taka það fram að ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að víða kann að vera pottur brotinn í meðferð erlendra og innlendra atvinnurekenda á erlendu farandverkafólki. Það getur vel verið. En að setja í lög að samningar aðildarsamtaka vinnumarkaðarins sem hvorki fyrirtækið né verkamaðurinn eiga nokkra aðild að eða hafa nokkur áhrif á skuli hafa almennt gildi, skuli hafa sama almenna gildið og samningar þeirra um laun og önnur starfskjör fyrir allt landið og miðin, fyrir alla aðra borgara þessa lands og fyrirtæki og lögpersónur. Við því er ég að vara.

Hv. framsögumaður nefndarinnar sagði að þessir aðilar með alla sína lögfræðinga geri vonandi ekki ólögmæta samninga. Mér sýnist að samningurinn sem gerður hefur verið — ég las hann yfir; ég er reyndar ekki lögfræðingur — en þar stendur að hann eigi við um útlendinga sem vinna hjá fyrirtækjum hér á landi. Hann á við um útlendinga sérstaklega. Það er tekið fram. Hann á ekki við um alla. Hann á við um útlendinga og að heimilt sé að fá upplýsingar um þessa téðu útlendinga. Ég sé ekki betur en að sá samningur — ja, hann truflar mig alla vega, þ.e. að hægt sé að fá upplýsingar um laun manns sem ekki vill gefa upplýsingar eða láta geta upplýsingar um sín laun, að hægt sé að fá upplýsingar um þau laun af einhverju fólki úti í bæ bara af því að viðkomandi er útlendingur. Ég veit ekki betur en það trufli mig alla vega. Það getur vel verið að það trufli ekki aðra. Það getur verið að aðrir séu svo uppteknir af því að ná fram sínum markmiðum fyrir verkalýðsfélag eða samtök verkalýðsfélaga eða Bandalag starfsmanna ríkis og bæja eða eitthvað slíkt, að þeir séu svo uppteknir af verkefninu að þeir séu löngu búnir að gleyma því að til sé eitthvað sem heitir mannréttindi og önnur lög, jafnræðisregla stjórnarskrárinnar o.s.frv. Þetta truflar mig alla vega, herra forseti.

Ég geri mér fullkomlega grein fyrir þeim vanda sem menn eru að leysa. En menn mega ekki leysa þann vanda hvað sem það kostar. Þess vegna hef ég efasemdir um þetta frumvarp. Það getur vel verið að ég hafi rangt fyrir mér. Ég vona það í lengstu lög og ég vona að þessir aðilar vinnumarkaðarins séu nægilega djúphugsandi að þeir geri ekki mistök. Ég ætla að vona það. En það er eins gott að þeir séu það því að þeir hafa mjög mikil völd.