131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Bifreiðagjald.

377. mál
[02:07]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér fer á köflum fram afar sérstæð umræða. Það er afar sérstakt hvernig það vill verkast í þessari umræðu en öllu því sem miður fer hjá ríkisstjórninni og meiri hlutanum virðist fylgja lína, eða einhvers konar orðræða, sem hv. þingmenn fá kannski í Valhöll og innvígðir væntanlega læra, að benda skuli á einhvern annan.

Hv. þingmaður er bara fórnarlamb aðstæðna. Hann hafði ekkert með það að gera að semja þurfti við opinbera starfsmenn. Hæstv. ríkisstjórn hafði ekkert með það að gera. Þar voru bara vondir menn sem æptu: Réttlæti, sanngirni og samninga. Við erum bara fórnarlömb og höfum ekkert um þetta að segja.

Virðulegi forseti. Það er með hreinum ólíkindum hvernig þetta hefur verið sett fram. Í flóttaleiðum þeirra, m.a. í þessari umræðu, hefur jafnvel komið upp að ef einhverjir aðrir væru í ríkisstjórn og kosningarnar hefðu farið öðruvísi þá væri hér allt önnur lína í gangi. Þetta er alveg með ólíkindum.

Hvernig væri að menn bæru ábyrgð á eigin gerðum? (Gripið fram í.) Þetta litla mál, af því að hv. þingmaður gjammar enn og aftur fram í, er þannig vaxið að bifreiðagjald hefur hækkað um 43% umfram neysluvísitölu frá því að það var sett á. Beinar og óbeinar tekjur af ökutækjum hafa hækkað um 62% frá árinu 1996 (Gripið fram í.) en á sama tíma hefur neysluvísitalan hækkað um 32%.

Ég kalla eftir því að þessir riddarar, hv. þingmenn sem hlupu inn á þing hver um annan þveran og kynntu sig til leiks í íslenskum stjórnmálum (Forseti hringir.) og sögðust standa fyrir allt aðrar hugmyndir láti til sín taka. Svo (Forseti hringir.) koma þeir og tala fyrir verðtryggðum skattstofnum og verðtryggðum gjöldum.