131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[03:11]

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Við erum ræða frumvarp til breytinga á raforkulögum. Frumvarpið var samþykkt á Alþingi vorið 2003 en hafði þá verið í undirbúningi í rúmt ár, jafnvel tvö ár. Sú ákvörðun hefur verið tekin hér á Alþingi að fara þá leið samhliða breytingunni, að koma á samkeppni hvað varðar skiptingu framleiðslu orkunnar, flutning með meginflutningskerfi og söluna. Þetta liggur ljóst fyrir.

Ég tel óráðlegt annað en við höldum okkur við þá breytingu sem meiri hluti nefndarinnar hefur lagt fram, þ.e. að lögin taki gildi um nk. áramót, við eigum ekkert að hika þar.

Í minni stuttu ræðu vil ég koma því að að þetta er svo viðamikil breyting að ég held að í rauninni ætti að gera ráð fyrir að frekari breytingar gætu orðið á þessum lagaramma en nú er gert ráð fyrir. Það er í rauninni ekkert óeðlilegt. Það þekkist frá nágrannalöndum okkar að upp komi mörg vandamál sem þurfi að leysa með lagabreytingum og við þurfum að vera undir það búin.

Ég legg áherslu á, herra forseti, að iðnaðarnefnd Alþingis verði virk í þeirri framkvæmd sem mun hefjast eftir nk. áramót og fylgist nákvæmlega með því sem er að gerast á markaðnum og að þeim alþingismönnum sem eru í iðnaðarnefnd Alþingis gefist kostur á að fylgjast með því sem gerist í framkvæmd laganna. Við eigum að taka höndum saman um að bera þá ábyrgð sameiginlega.

Í ræðum hér á undan hafa komið fram ákveðnar athugasemdir, t.d. um jöfnunarkostnað og niðurgreiðslu. Ég held að ég muni rétt að rösklega 1.100 millj. á fjárlögum næsta árs séu ætlaðar annars vegar til niðurgreiðslu á köldu svæðunum til hitaveitu og hins vegar jöfnunar á flutningi, þar er því um nokkuð að ræða. Ég tel mjög mikilvægt að við ásamt Orkustofnun, sem er sú stofnun sem á að fylgjast með framkvæmd þessara laga, fylgjumst með því sem kallað hefur verið afhendingaröryggi. En fyrir alla notendur orkunnar er gríðarlega mikilvægt að afhendingin sé eins og hingað til hefur verið og að fylgst sé með því og tryggt að svo verði áfram.

Hér hefur verið rætt aðeins um litlar virkjanir og ég tel mjög ánægjulegt hvernig nefndin kom þeirri breytingu að inni í lagafrumvarpinu sem nú er kynnt. En þegar talað er um að litlar virkjanir muni ekki menga eða skapa nein mengunarslys þá kemur stundum inn í umræðuna frá þeim sem tala hvað mest um mengun að þegar menn vildu nota rafmagn til að lýsa Gullfoss gamla upp þá mátti það ekki fyrir umhverfisverndarsinnum vegna þess að það gæti verið skaðlegt fyrir umhverfið. En nákvæmlega eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi þá væri slík framkvæmd að öllu meinalaus, það væri hægt að taka hana frá ef mönnum hugnaðist ekki að hafa lýsinguna áfram. En um þetta urðu heitar umræður hér á sínum tíma.