131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[03:16]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins varðandi umhverfisáhrif af virkjunum sem leiddi út í umræður um lýsingu náttúrufyrirbæra sem er svolítið annað mál þó notuð sé raforka. Það má enginn skilja orð mín svo að ég ætli að alhæfa um umhverfisáhrif smávirkjana, það er fjarri mér. Það er enginn minnsti vafi á því að það er alveg jafnmikil þörf á því að fara þar með gát og skoða aðstæður í hverju einstöku tilviki eins og annars staðar. Það eru auðvitað til minni vatnsföll og vatnasvæði sem ekki á að hrófla við frekar en þeim stærri, það er ekki nokkur minnsti vafi. Sums staðar eru t.d. vatnsföll mjög dýrmætur hluti og næra votlendi sem á alls ekki að hrófla við og á ekki að leyfa virkjanir í o.s.frv. Ég vil því slá þann varnagla þó að ég standi áfram við hitt að almennt séð er mjög víða hægt að ráðast í slíkar framkvæmdir og byggingu slíkra virkjana án þess að því fylgi umtalsverð neikvæð umhverfisáhrif. Mjög oft eru þau því marki brennd í öllu falli að þau eru afturhverf, það er hægt að taka mannvirkið niður.

Ljósamengun er það fyrirbæri sem Íslendingar hafa lítið velt fyrir sér fyrr en fram á síðustu ár og auðvitað eins og venjulega Hjörleifur Guttormsson, fyrrv. hv. þingmaður, manna framsýnastur og hefur komið því máli lítillega á dagskrá, sem er hins vegar algengt að rætt sé í útlöndum, t.d. oflýsingu sem er mjög algeng á Íslandi, að menn sólunda orku í gegndarlausa upplýsingu sem engin þörf er fyrir. Það mætti jafnvel taka þetta hús hér sem dæmi. Ég sé enga sérstaka ástæðu til þess að hafa rosalega ljóskastara á því að framanverðu allar nætur, það mætti vera eitthvað minna.

Varðandi Gullfoss og spurninguna um lýsingu hans er það mikið tilfinningamál fyrir ýmsum og um það voru einfaldlega mjög skiptar skoðanir. Það var alls ekkert þannig að allir sem töldu sig náttúruverndarsinna væru því andvígir sjálfkrafa og heldur ekki öfugt.