131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:14]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við teljum að prósentulækkun í tekjuskatti til viðbótar við helmingslækkun hátekjuskatts á næsta ári og niðurfelling hátekjuskattsins með öllu á árinu 2006 sé afar röng skattalækkunaráhersla. Hækkun persónuafsláttar hefði orðið til meiri jöfnunar og hækkað rauntekjur og þar með skattleysismörk sem fært hefði tekjulágu fólki, ellilífeyrisþegum og örorkuþegum mun meiri kjarabætur en að er stefnt með þeirri aðferð sem ríkisstjórnin vill fara sem sérstaklega kemur hátekjufólkinu vel.

Við styðjum tillögur um að barnabætur komi til framkvæmda þegar á næsta ári sem yrði leiðrétting fyrir barnafólk sem full þörf er á nú þegar.