131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:27]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. stjórnarliðsins þurfa ekki að taka upp símann. Það verður örugglega hringt í þá af auðmönnum þessa lands til að þakka fyrir sig því að þeir fá auðvitað stærsta skerfinn með þessari breytingu á eignarskattinum. Stjórnarliðar virðast ekki trúa meira en svo á það sem þeir eru að gera því að þeir treystu ekki ríkissjóði fyrir því að láta neitt af tekjum ríkissjóðs, hvorki á þessu ári né því næsta. Það á allt að koma síðari hluta kjörtímabilsins og þá á líka að vera búið að endurskoða virðisaukaskattinn. Þá eru menn farnir að tala um 26, 27 eða 28 milljarða sem ríkissjóður á allt í einu að vera fær um að missa af og það er allt á spádómum byggt. Það er ekki hægt að gefa þá einkunn að menn séu ábyrgir í stjórnarháttum ef þeir haga sér svona. Ég greiði ekki atkvæði.