131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:34]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Sú leið sem Samfylkingin vill fara í skattamálum er betri. Hún er sanngjarnari og hún er réttlátari en þær tillögur sem ríkisstjórnin boðar og afgreiðir í dag. Leið Samfylkingarinnar kemur öllum fjölskyldum í landinu til góða og þess vegna skipti ég mér ekki af þeirri afgreiðslu sem hér fer fram.

Þetta er leið ríkisstjórnarinnar. Þetta er sú leið sem gerir Pétur Blöndal glaðastan allra hér í dag, (Gripið fram í.) enda er Pétur Blöndal sá stjórnmálamaður sem einn hefur viðurkennt hægri stefnu Sjálfstæðisflokksins, þá að hafa skatta lága eða enga og að fólk borgi fyrir þjónustu sína. Það er ekki leið Samfylkingarinnar. Leið Samfylkingarinnar í skattamálum er réttlát og þess vegna styðjum við ekki ríkisstjórnina hér í dag.