131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Skráning og mat fasteigna.

335. mál
[11:13]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hér er á ferðinni einn af þeim 16 laumusköttum sem ríkisstjórnin er að koma í gegnum þingið til þess að fjármagna skattalækkanir sínar. Hér er partur af þeim sjónhverfingaleik sem ríkisstjórnin stendur í. Hún er að lækka skatta með því að hækka þá áður.

Hér er þó um alveg einstaklega subbulega lagasetningu að ræða. Ríkisstjórnin lofaði því árið 2000 að þessum skatti yrði ekki fram haldið. Hér brýtur hún í dag það loforð. Hún er að fara í verkefni sem er ákaflega óskilgreint og átti að kosta á sínum tíma 615 millj. Verkefnið fór meira en 50% fram úr áætlun og nú á enn að eyða í það a.m.k. um hálfum milljarði og engar skýringar hafa fengist hjá ríkisstjórninni í hvað á að eyða. Því segi ég, herra forseti, Samfylkingin er algerlega á móti lagasetningu af þessu tagi. Hún er á móti þessari laumuskattastefnu ríkisstjórnarinnar og hún greiðir atkvæði gegn frumvarpinu.