131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Fjármálafyrirtæki og vátryggingastarfsemi.

211. mál
[11:27]

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þetta frumvarp tekur til eftirlits með lánastofnunum, vátryggingarfélögum og fjárfestingarfélögum þegar um er að ræða endurskipulagningu eða slit lánastofnana. Það er í sjálfu sér hið besta mál að samræma þær reglur og þá staðla sem eiga að gilda um þessi efni. Við viljum hins vegar að þær reglur og þau lög séu smíðuð og samþykkt heima fyrir.

Innan Evrópusambandsins er það vinnulag að ryðja sér til rúms að svokölluð upprunalandsregla ríki. Þannig eiga reglur um fyrrnefnd efni sem eru við lýði í því landi sem fyrirtæki á uppruna sinn í einnig að gilda um útibú fyrirtækisins. Í þýskum og pólskum fjármálafyrirtækjum sem hefðu útibú hér á landi ættu þannig pólsk eða þýsk lög og reglur að gilda þegar kæmi að endurskipulagningu eða slitum á þessu fyrirtæki.

Það er þetta vinnulag, þessi upprunalandsregla sem við erum að mótmæla og vekja athygli á. Þess vegna sitjum við hjá við afgreiðslu þessa frumvarps.