131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Veðurþjónusta.

183. mál
[11:43]

Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá umhverfisnefnd um frumvarp til laga um veðurþjónustu. Í stuttu máli eru með frumvarpinu lögð til ný heildarlög um veðurþjónustu. Tilgangur frumvarpsins er að skilgreina betur en gert er í gildandi lögum hlutverk ríkisins í rekstri veðurþjónustu og draga skýrari línur milli þeirrar grunnþjónustu sem Veðurstofu Íslands er skylt að sinna og greiða skal úr ríkissjóði og síðan sérþjónustu sem veitt er samkvæmt ósk kaupanda og rekin er á markaðslegum forsendum.

Það er engin ástæða til að vera með langa ræðu um þetta ágæta frumvarp. Af margvíslegum ástæðum og frekar augljósum var skynsamlegt og eðlilegt að skilgreina betur hlutverk ríkisins um veðurþjónustu og skilja á milli þeirrar þjónustu sem er á markaði, ef þannig má að orði komast, og þeirrar sem alla jafna er kölluð grunnþjónusta og skal greiðast úr ríkissjóði.

Umsagnir bárust frá hinum ýmsu aðilum, svo sem Siglingastofnun Íslands, Landsvirkjun, Vegagerðinni, Bændasamtökum Íslands, Veðurstofu Íslands, Landhelgisgæslu Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, ríkislögreglustjóra og Ríkisendurskoðun.

Nefndin fór yfir málið og góð sátt var um það í nefndinni. Þær breytingartillögur sem hér er að finna eru til komnar vegna athugasemda sem komu fram í umsögnum sem bárust nefndinni. Ég ætla ekki að lesa þær upp enda er fyrst og fremst um að ræða orðalagsbreytingar og lagfæringar á ýmsu sem betur mátti fara en var í sjálfu sér ekki mikil breyting á efnisatriðum frumvarpsins.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrnefndum breytingum sem tíndar voru upp í nefndarálitinu og gerð er um tillaga á sérstöku þingskjali. Undir álitið skrifa Guðlaugur Þór Þórðarson, Hjálmar Árnason, Arnbjörg Sveinsdóttir, Gunnar Birgisson, Kjartan Ólafsson, Kolbrún Halldórsdóttir, Mörður Árnason og Valdimar L. Friðriksson. Þórunn Sveinbjarnardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en Steinunn K. Pétursdóttir sat fund nefndarinnar og er hún samþykk áliti þessu.