131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Úrvinnslugjald.

394. mál
[11:46]

Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, með síðari breytingum.

Meginefni frumvarpsins varðar breytingar á einstökum fjárhæðum úrvinnslugjalds, tímabundna frestun á upptöku úrvinnslugjalds af pappa-, pappírs- og plastumbúðum og hækkun skilagjalds af ökutækjum. Þá er einnig gert ráð fyrir breytingum sem leiða það af sér að kerfið nái betur til eldri ökutækja sem örva mun skil á þeim til úrvinnslu. Loks gerir frumvarpið ráð fyrir því að aðilum verði heimilt að semja sín í milli um ráðstafanir sem tryggja úrvinnslu úrgangs vegna veiðarfæra úr gerviefnum á sama hátt og nú gildir um svartolíu.

Skemmst er frá því að segja að þetta frumvarp er um margt ánægjulegt. Hér er lagt til að úrvinnslugjald verði lækkað umtalsvert, sem er mikið fagnaðarefni. Á sama hátt er skilagjald á bílum hækkað úr 10 þús. kr. upp í 15 þús. kr. Einnig er um að ræða, eins og áður kom fram, lækkun á gjaldi á bifreiðar. En á sama hátt eru fleiri bifreiðar og eldri, sem ekki voru áður inni í þessum lögum, teknar í lögin með frumvarpinu.

Ekki komu fram margar tillögur um breytingar hjá nefndinni. Ýmislegt var rætt og menn fóru yfir málið eins og vera ber en hins vegar er vert að geta þess að málið kom nokkuð seint inn og var það samdóma álit umhverfisnefndar að verið hefði betra að hafa lengri tíma til að fara yfir málið. Það eru margir fletir á þessum mikilvæga sjóði og þeim málaflokki sem tengist úrvinnslugjaldinu.

Þær breytingar sem gert er ráð fyrir eru fyrst og fremst tæknilegar en einnig var tekið tillit til athugasemda frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þar töldu menn að þeir þyrftu lengri tíma til undirbúnings og þess vegna var ákveðið að fresta bæði upphafstíma greiðslu vegna móttöku á öðrum umbúðum en plastfilmu og bylgjupappa frá upphaflegum hugmyndum, sem voru 1. desember 2005, til 1. mars 2006. Jafnframt var ákveðið að leggja til að lengja starfstíma nefndar þeirrar sem ræðir þau mál frá 15. mars 2005 til 1. júní 2005.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrgreindum breytingum sem lagðar eru fram á sérstöku þingskjali en þar er um að ræða fjóra liði.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, Mörður Árnason og Valdimar L. Friðriksson skrifa undir nefndarálit þetta með fyrirvara og áskilja sér rétt til að flytja breytingartillögur og sitja hjá við atkvæðagreiðslu. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Steinunn K. Pétursdóttir sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Þeir sem skrifa undir álitið eru auk mín hv. þm. Hjálmar Árnason, Arnbjörg Sveinsdóttir, Gunnar Birgisson, Kjartan Ólafsson, Kolbrún Halldórsdóttir, með fyrirvara, Mörður Árnason, með fyrirvara og Valdimar L. Friðriksson, með fyrirvara.

Virðulegi forseti. Þetta mál er gott og hefur í för með sér umtalsverða lækkun á gjöldum sem er fagnaðarefni. Um málið var ágætissátt í nefndinni og ég á ekki von á öðru en að hið sama verði uppi á teningnum á hinu háa Alþingi.