131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Úrvinnslugjald.

394. mál
[11:51]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um úrvinnslugjald. Það verður að segjast að mál af þessu tagi er ekki einfalt viðureignar. Um er að ræða yfirgripsmikla löggjöf sem varðar möguleika okkar á að draga á endanum úr urðun sorps.

Við meðferð þessa máls á Alþingi á síðustu árum, frá því það leit fyrst dagsins ljós, hefur verið gagnrýnt að stjórn Úrvinnslusjóðs sé ekki nægilega breið til að gætt sé hagsmuna allra þeirra sem eðlilegt er að komi að þeim málum. Á 128. löggjafarþingi, þegar þetta mál var upphaflega samþykkt, flutti ég breytingartillögu við frumvarpið sem gerði ráð fyrir því að stjórn Úrvinnslusjóðs yrði öðruvísi skipuð.

Samkvæmt lögunum er hún m.a. skipuð aðilum frá Samtökum atvinnulífsins og Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Samkvæmt lögunum er yfir sjóðnum fimm manna stjórn sem skipuð er til fjögurra ára. Umhverfisráðherra skipar formann stjórnar án tilnefningar en fjórir meðstjórnendur skulu skipaðir að fenginni tilnefningu frá eftirtöldum aðilum, eins og segir í 16. gr. laganna, virðulegi forseti: einn sé tilnefndur eftir sameiginlegri tilnefningu Samtaka fiskvinnslustöðva og Landssambands íslenskra útvegsmanna, einn frá Samtökum iðnaðarins og einn frá Samtökum verslunar og þjónustu og einn frá Sambandi ísl. sveitarfélaga.

Það er ljóst í mínum huga og kom afar skýrt í ljós í þeirri litlu umfjöllun sem málið fékk í umhverfisnefnd að tilfinnanlega vantar fleiri fulltrúa í þessa stjórn. Ég tel að það hefði verið eðlilegt að Neytendasamtökin ættu frá upphafi fulltrúa í henni. Ég hefði talið að frjáls félagasamtök á sviði náttúru- og umhverfisverndar ættu líka að eiga þar fulltrúa. Það er kannski ekki tímabært við þessa umræðu, virðulegi forseti, að flytja breytingartillögu varðandi þetta atriði laganna en ég vil ítreka þetta vegna þess að þegar fjallað er um þessi mál kemur í ljós að Neytendasamtökin og frjáls félagasamtök eiga fullt erindi í stjórn sjóðsins. Hið mikla vægi sem atvinnulífið hefur í stjórninni verður óeðlilegra eftir því sem tímar líða, sýnist mér. Ég legg á það áherslu að menn hugleiði vandlega að víkka út og breikka þessa stjórn. Þar með tel ég að minni líkur væru á því að ágreiningsmál komi upp varðandi þessa löggjöf.

Því miður, virðulegi forseti, gafst nefndinni að mínu mati ekki tími til að rýna nægilega vel í orðalag þeirra lagagreina sem hér um ræðir. Þar á ég sérstaklega við 1. gr.

Ég gagnrýndi við 1. umr. um frumvarp þetta að í það vantaði, að mínu mati, ákveðið gagnsæi í skilgreiningu á umbúðum. Innleiða á ný ákvæði sem varða umbúðir og þarf því að skilgreina þær og flokka í ólíkar tegundir. Þar er fjallað sérstaklega um, í skilgreiningarliðum, söluumbúðir eða grunnumbúðir, safnumbúðir og flutningsumbúðir. Hér eru að sjálfsögðu þýddar greinar úr tilskipunum Evrópusambandsins og ég verð að viðurkenna að mér hefur ekki fundist takast nægilega vel til við það. Ég tel ámælisvert þegar nefndin skilar lagafrumvarpi af þessu tagi svo seint, frumvarpi sem vitað er að verður að fá afgreiðslu fyrir áramót. Þá tel ég að nefndinni séu gerð störfin mjög erfið og í þessu tilfelli kom í ljós að við höfðum engan tíma til að rýna í orðalagið eða fara á nokkurn hátt yfir það hvernig mætti gera betrumbætur á því.

Í umfjöllun nefndarinnar kom fram hjá fulltrúum sveitarfélaganna og framkvæmdastjóra Sorpu, sem heimsóttu nefndina, að það orkaði mjög tvímælis að setja í lög reglur sem lúta að frekari flokkun, söfnun og úrvinnslu á sorpúrgangi án þess að sveitarfélögin hefðu meira um málið að segja. Það liggur ekki fyrir samkvæmt frumvarpinu hversu mikil áhrifin af breytingunum á fjárhag sveitarfélaganna verða en hins vegar er ljóst að lögin um úrvinnslugjald hafa í för með sér aukin kostnað fyrir sveitarfélög. Það kemur til af því, virðulegi forseti, að meðhöndlun umbúðanna sem hér eru sett inn í flokkunarkerfið kostar fjármuni sem ekki koma til sveitarfélaganna í gegnum Úrvinnslusjóð. Sjóðurinn á fyrst og fremst að innheimta úrvinnslugjald og greiða skilagjald fyrir viðkomandi umbúðir. Því mun sjóðurinn ekki greiða úrvinnslu- eða umsýslukostnað sem þessu fylgir heldur þurfa sveitarfélögin að leggja meira í umsýslu vegna flokkunarinnar.

Umfang þess málaflokks hefur verið að aukast gífurlega hjá sveitarfélögunum. Ég hef í höndum, virðulegi forseti, skýrslu sem til umhverfisráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem fjallar um framkvæmd laga um meðhöndlun úrgangs. Það er sannarlega umhugsunarvert hve mikið umfang sorpflokkunarmála hefur aukist síðan leidd voru í lög þessi ákvæði laga um meðhöndlun úrgangs og laga um úrvinnslugjald.

Í skýrslunni kemur fram kostnaður sveitarfélaganna vegna söfnunar og förgunar úrgangs á Íslandi árið 2002, ég vek athygli á því að hér er bæði talað um söfnun og förgun. Inni í söfnuninni er auðvitað söfnun á flokkuðum úrgangi sem ber úrvinnslu- og skilagjald. Sá kostnaður nam tæpum 2 milljörðum kr. fyrir sveitarfélögin árið 2002. Heildartekjur voru hins vegar rúmlega 1 milljarður kr. Sveitarfélögin niðurgreiða því meðhöndlun úrgangs með skattfé svo nemur tæpum 1 milljarði kr. Söfnunarkostnaður er talsvert stærra hlutfall en förgunarkostnaður, þ.e. um 60% á móti 40% vegna förgunar.

Ég tel nauðsynlegt að taka málið til alvarlegrar skoðunar í umhverfisráðuneytinu. Hér erum við að ræða anga af máli sem kom inn á borð okkar í fjárlagaumræðunni varðandi tekju- og kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Þetta er einn af þeim málaflokkum sem vaxið hafa mun meira en allar áætlanir gerðu ráð fyrir. Greinilegt er að sveitarfélögin taka að því leyti á sig auknar skyldur og byrðar þótt engir tekjustofnar fylgi með til þeirra. Þetta er gagnrýnisvert, virðulegi forseti. Það verður að ná viðunandi jafnvægi í málaflokkinn því að hér er um nýjar aðferðir að ræða, nýjar leiðir sem mikil sátt þarf að ríkja um svo þær nái að virka sem best. Það verður ekki hægt í óþökk sveitarfélaganna eða á þann hátt að þau hafi á tilfinningunni að hér sé verið að binda á þau klafa sem ekki fylgja neinir fjármunir. Ríkisvaldið og löggjafarsamkundan eru jú að innleiða þessi lög. Það, virðulegi forseti, verðum við að gera í góðri sátt.

Ég vil fara nokkrum orðum, hæstv. forseti, um nýtt ákvæði í 5. gr. þessa frumvarps sem varðar veiðarfæri úr gerviefnum. Samkvæmt 11. tölulið 5. gr. er gert ráð fyrir að við tökum veiðarfæri úr gerviefnum inn undir úrvinnslugjald og er það vel. Það hefur verið stefna umhverfisnefndar, frá því að þessi lög komu til umfjöllunar hennar, að fá veiðarfærin þar inn.

Auðvitað fellur talsvert mikið til af veiðarfærum. Þau eru úr plasti sem gott er að endurnýta og þess vegna er sjálfsagt að þeim sé forðað frá urðun. Hins vegar hefur Landssamband íslenskra útvegsmanna ekki verið sátt við þann meginvilja umhverfisnefndarinnar. Ég sé ekki betur en að Landssamband íslenskra útvegsmanna hafi getað dregið stjórnina á því að sú ákvörðun komist til framkvæmda.

Í frumvarpinu er mikið svigrúm fyrir útvegsmenn. Þeir eiga að fá tækifæri samkvæmt frumvarpinu að semja sín á milli um ráðstafanir til að tryggja úrvinnslu þessa úrgangs á sama hátt og olíufélögum hefur verið tryggður slíkur réttur varðandi svartolíu.

Hæstv. forseti. Ég hef ákveðnar efasemdir um þessa grein og þá heimild sem útvegsmenn fá með frumvarpinu. Ég hef reyndar ekki haft tíma til að skoða það nægilega vel ofan í kjölinn í umfjöllun nefndarinnar en ég sé ekki að það tryggi að öll veiðarfæri sem falla til skili sér undir úrvinnslugjaldið, þ.e. inn í það kerfi sem komið verður upp. Ekki eru allir útvegsmenn aðilar að Landssambandi íslenskra útvegsmanna þannig að þar gæti verið um ákveðna glufu að ræða sem gerir það að verkum að hluti veiðarfæranna skili sér ekki. Það er miður að nefndin skyldi ekki hafa nægileg tækifæri til að skoða málið ofan í kjölinn. Ég tel vafa á ferðinni og á erfitt með að styðja þær breytingar sem hér eru lagðar fram, með frjálsa samninga þessara aðila, meðan ég er ekki sannfærð um að það tryggi skil á öllum veiðarfærum til endurvinnslu.

Að lokum vil ég, hæstv. forseti, gera að umtalsefni nefnd þá sem sett er á samkvæmt b-lið 6. gr., ákvæði til bráðabirgða II. Þar segir:

„Frá gildistöku laga þessara … skal starfa nefnd umhverfisráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Úrvinnslusjóðs og Umhverfisstofnunar. … Nefndin skal undirbúa framkvæmd móttöku á pappa- og plastumbúðum sem berast með söfnunarkerfi sveitarfélaga í samræmi við ákvæði laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs.“

Virðulegi forseti. Samkvæmt frumvarpi hefur kostnaðurinn á þennan vöruflokk verið ákveðinn, þ.e. það segir í 4. gr. að úrvinnslugjald skuli leggja á umbúðir gerðar úr pappa og pappír og það skuli vera 10 kr. á kg og sömuleiðis 10 kr. á umbúðir gerðar úr plasti. Ég spyr og geri ráð fyrir að hæstv. umhverfisráðherra sem er viðstaddur umræðuna geti svarað okkur því: Hvaða rök eru fyrir þessari 10 kr. álagningu? Hvers vegna er hún ákveðin áður en nefndin fær tækifæri til að setjast niður og taka til starfa? Mér virðist sem nefndin sem á að undirbúa framkvæmdina komi til með að meta raunverulegan kostnað af framkvæmdinni. Þess vegna skil ég ekki hvernig hægt er að ákveða fyrir fram að gjaldið verði 10 kr. á kg. Spurningin er: Ætlast umhverfisráðuneytið og hæstv. umhverfisráðherra til þess að nefndin komist kannski að allt annarri niðurstöðu og skili þá inn nýju frumvarpi þegar hún hefur lokið störfum samkvæmt þessum tillögum, eða hvað?

Það er alveg greinilegt að rökstuðningurinn fyrir 10 kr. gjaldinu er enginn. Hann getur ekki orðið til fyrr en nefndin sem um er rætt hefur lokið störfum. Einnig mætti geta þess að nefndinni er gert að starfa á þann veg að fulltrúarnir sjálfir, sem sitja í henni, beri kostnaðinn af henni. Það er enn eitt dæmi um að sveitarfélögin þurfa nauðug að taka að sér kostnað vegna lagasetningar af þessu tagi, sem ríkisvaldið og ráðherrar neita að taka þátt í. Þannig er beinlínis lögbundið að nefndin skuli starfa á kostnað þeirra sem í henni sitja. Enn eina ferðina skín í gegn að ríkisvaldið hefur ekki skilning á því að sveitarfélögin þurfa að fá tekjustofna með þeim verkefnum sem á þau eru sett og er það miður.

Varðandi meginprinsippið í þessum lögum, hæstv. forseti, þá er ég fylgjandi því. Ég tel markmiðssetningu laganna um úrvinnslugjald virkilega góða og metnaðarfulla. Ég veit að fjöldi fólks vinnur mjög metnaðarfullt starf til að þau markmið megi nást. Það fólk á allan stuðning minn og annarra þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. En ég bið hæstv. umhverfisráðherra um að gera því fólki kleift að standa af reisn að þeim verkefnum sem þeim er gert að sinna, sérstaklega að tryggja að kostnaður sveitarfélaganna vaxi þeim ekki yfir höfuð án þess að til komi auknir tekjustofnar.