131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Úrvinnslugjald.

394. mál
[12:06]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þetta var ágæt ræða hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur. Ég hygg að flestir nefndarmenn geti tekið undir flest af því sem þar var sagt. Hún veldur því a.m.k. að ég get stytt mál mitt.

Tíminn til að vinna þetta mál var skammur. Það þurfti að gerast fyrir áramót og það sést að tíminn var skammur á því að málið tekur þær vendingar að við erum að ræða það við 3. umr. sem að öllu jöfnu ætti að vera óþarft á síðasta degi þingsins fyrir jól. Það verður hins vegar svo að vera núna.

Varðandi einstök atriði frumvarpsins þá sagði ég, að ég hygg við 1. umr., frá afstöðu samfylkingarmanna þegar þetta var samþykkt á sínum tíma, árið 2002. Um málið var tiltölulega góð sátt enda er málið sjálft, úrvinnslugjaldið og það kerfi allt, í góðu samræmi við stefnu Samfylkingarinnar og sem betur fer flestra flokka hér ef ekki allra að einhverju leyti. Það er mikill árangur.

En við gerðum á sínum tíma athugasemdir við stjórn Úrvinnslusjóðs. Það var athyglisvert í umfjöllun nefndarinnar að þeir sem á fund hennar komu gerðu margir athugasemdir við stjórn sjóðsins. Ég hygg að einn sá lærdómur sem við getum dregið af umfjöllun okkar um þetta frumvarp um úrvinnslugjald sé að við þurfum að leggjast aftur yfir skipun þeirrar stjórnar, bæði hvaða fulltrúar atvinnurekenda, eða atvinnulífsins eins og það er stundum kallað, eru í henni og síðan hvort ekki sé rétt að kalla til hennar fulltrúa almannasamtaka, Alþýðusambandsins, Neytendasamtakanna eða annarra, einn eða fleiri eftir atvikum.

Sveitarfélögin eiga mann í stjórn sjóðsins. Það virðist hafa orðið eitthvert skammhlaup í tengslum milli þess manns og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Mikil óánægja hefur a.m.k. komið fram hjá sveitarfélögunum eins og síðasti hv. ræðumaður tók fram. Hún varðaði auðvitað einkum ákvæðin um umbúðir, um pappír, pappa og plast. Það mál á sér þá forsögu í stuttu máli — þetta er árlegt, frumvarpið um úrvinnslugjaldið vegna þess að það þarf að hækka og hækka upphæðirnar — að þegar við fengum það til umfjöllunar í fyrra var ekki gert ráð fyrir því að sú breyting yrði tímasett. En umhverfisnefnd ákvað að leggja það til að hún yrði tímasett með eins árs fresti og gerði það. Ég tel að það hafi verið rétt ákvörðun og ágæt hjá umhverfisnefnd. Síðan hefur ráðuneytið, framkvæmdarvaldið í þessu efni, ekki náð að vinna sína hluti nógu vel. Það er leitt að ráðuneytinu hafi ekki tekist að vinna að því í samvinnu við stjórn Úrvinnslusjóðs og sveitarfélögin vegna þess að það voru kvartanir þeirra sem leiddu til þess að enn þarf að fresta gildistöku ákvæðis um gjald fyrir umbúðapappa og plast. Því þarf enn að fresta henni frá því sem lagt var til í frumvarpinu. Ég fellst á að það sé gert en mér þykir leitt að þurfa að standa að því.

Ég veit að þetta er ekki núverandi hæstv. umhverfisráðherra að kenna og vil ekki skamma hana fyrir það, enda tel ég að hún sé enn að njóta hveitibrauðsdaga sinna í ráðuneytinu. Við byrjum að skamma hana eftir jól ef hún stendur sig ekki nógu vel. En ég vil beina því til hennar að láta þetta ekki endurtaka sig í ráðuneytinu og undirstofnunum þess.

Ég vil nefna nokkur önnur atriði. Ég ræddi um það í fyrri umræðu um þetta mál að það kom fram hjá sveitarfélögunum að þau leggja mikla áherslu á að dagblaðapappírinn fari inn í þetta kerfi og verði ekki undanskilinn. Hann er mjög stór hluti af sorpi sem sveitarfélögin hirða, dagblöð gærdagsins. Ég tel að umhverfisráðherra ætti að setja í gang rannsókn á því hvernig því mætti koma fyrir, að setja dagblöðin inn í kerfið.

Um rafhlöður, sem ég ræddi nokkuð í fyrra skiptið, vil ég segja að úrvinnslusjóðsmenn telja að það væri kannski ekki efni til að setja á þær skilagjald, a.m.k. ekki strax, eins og lagt var til í umræðunni. Hins vegar var hvatt til þess að aukin yrði kynning á því að það mætti og ætti að skila rafhlöðum. Það gera engir nema þeir sem nota þær, sem eru aðallega heimilin í landinu. En til þess þarf auðvitað að koma upp einhverjum móttökustöðvum eða a.m.k. merkingum á stöðum þar sem menn eru reiðubúnir að taka við rafhlöðum.

Það sem hvetur mig aðallega til að koma upp að þessu sinni er þó ákvæðið um bílana. Ég hef ekki enn skilið það, og það opnaðist ekki fyrir mér heldur í umfjöllun nefndarinnar, af hverju þarf að leggja úrvinnslugjald á ökutæki, sem sleppt var árið 2002 og eru á milli 15 og 25 ára gömul, þ.e. sem eru framleidd frá árinu 1978–1988. Ég hef áður lýst því að ég styð að bifreiðar sem eru eldri en 25 ára, fornbílar, séu undanþegnar þessu enda er ekki ætlunin að þær fari á haugana. En ég fæ enn ekki skilið þetta og lít á þetta sem álögur á þau 14–15 þúsund manns sem eiga umrædda bíla. Mér þykir ekki gott að beita hinum hagrænu aðgerðum, sem hér er vissulega reynt að beita, þegar þær bitna á hópi sem ekkert hefur til saka unnið.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það en fyrirvari minn á nefndarálitinu varðar einkum þetta. Ég og félagar mínir ætlum að sitja hjá við þann lið í frumvarpinu sem um það fjallar, þ.e. fyrri hluta c-liðar 2. gr.