131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Úrvinnslugjald.

394. mál
[12:31]

Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir ágæta umræðu. Hún er í samræmi við þá góðu vinnu sem var í nefndinni. Það kom fram hjá öllum sem hér hafa rætt málið sem og ráðherra að þetta var allt of skammur tími og það var mjög ánægjulegt að heyra að hæstv. umhverfisráðherra, Sigríður A. Þórðardóttir, mun beita sér fyrir því að við fáum þetta fyrr á næsta ári þannig að við höfum betri tíma þá til að fara yfir málið.

Það kom fram bæði hjá ræðumönnum og í nefndinni að það er mikill vilji og mikill áhugi hjá hinum ýmsu aðilum á að vera í stjórn Úrvinnslusjóðs. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi Neytendasamtökin og frjálsu félagasamtökin á vettvangi umhverfismála. Síðan komu einnig aðilar frá Félagi íslenskra stórkaupmanna og sömuleiðis Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Annars vegar vildi Samband íslenskra sveitarfélaga fá aukið vægi í stjórn sjóðsins og Félag íslenskra stórkaupmanna nefndi að það væri réttlætismál að þeir væru þar inni og einnig Félag íslenskra bifreiðaeigenda, ef ég man rétt. Þetta er því vinsæl stjórn að vera í og það er í sjálfu sér ágætt. Manni virtist vera gott samstarf á milli aðila þarna og það kom nokkuð á óvart. Hv. þm. Mörður Árnason nefndi að það væri kominn svolítið öðruvísi tónn hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga en við heyrðum þegar málið var kynnt en eins og hv. þingmaður nefndi þá er fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga í stjórninni þannig að það þyrfti kannski aðeins að vera með meiri samskipti þar á milli. Hins vegar held ég að það hafi verið rétt niðurstaða hjá nefndinni að koma til móts við þær óskir sem komu fram hjá sveitarfélögunum og á sama hátt kom hæstv. umhverfisráðherra einnig til móts við óskir þeirra með því að fjölga fulltrúum þeirra í samráðsnefndinni. Maður vonast því til að sem breiðust samstaða náist um þetta og málin í heild sinni milli sveitarfélaganna og ríkisvaldsins og annarra hagsmunaaðila. Slíkt er mjög mikilvægt.

Hér var rætt mikið um veiðarfærin og hv. þm. Össur Skarphéðinsson fór ásamt fleirum ágætlega yfir það mál. Ég kom að því í andsvari mínu að ég held að það skipti máli að við séum sveigjanleg í þessu. Í þessu máli eins og svo mörgum öðrum er forskriftin, og stundum er um að ræða beinar þýðingar, frá löndum sem eru kannski ekki eins og við, enda ekki mörg lönd samanburðarhæf við Ísland. Fulltrúar útgerðarmanna í nefndinni sögðu frá því að einhvern tíma hefðu verið uppi hugmyndir eða tilskipanir um að þeir skiluðu í land því sem áhöfnin skilar frá sér almennt án þess að ég lýsi því neitt nákvæmar í þessum sal. Hugmyndin var sú að þeir sigldu með það í land og færðu það yfir í dælustöðvar og dældu því síðan aftur út í sjó. Ég held að hver maður sjái af dæmi eins og þessu að það má oft fara vel yfir málin áður en menn taki þau alveg bókstaflega og er sjálfsagt að sýna sveigjanleika. Það sér hver maður í dæmi eins og þessu hversu fáránlegir hlutirnir geta orðið.

Hv. þm. Mörður Árnason fór aðeins yfir mál sem hann nefndi og fór yfir að mér skilst í fyrri umræðu varðandi ökutækin. Ég fagna því mjög að bílar eldri en 15 ára séu komnir inn í þetta, bæði sem þurfa að greiða þetta gjald og fá einnig skilagjald. Mér er alveg fyrirmunað að skilja af hverju menn höfðu ekki á sínum tíma, þegar lögin voru sett, bíla upp í 25 ára með úrvinnslugjaldi því það liggur alveg hreint og klárt fyrir að það eru þeir bílar sem eru líklegastir til þess að fara í endurvinnslu. Það er alveg furðulegt að það hafi ekki verið gert á sínum tíma en nú er það komið í lag og sömuleiðis er búið að hækka skilagjaldið. Það verður vonandi til þess að innheimtan á þessum bílum verði betri en ella en maður heyrði af því að þeir sem áttu eldri bíla áður og komu með þá í endurvinnslustöðvarnar hefðu verið mjög ósáttir við að fá ekki skilagjald og auk þess hefur maður líka heyrt af því að nokkuð sé um týnda bíla í kerfinu, og ég ætla ekki að fara nákvæmlega út í það, og þetta reki nokkuð á eftir mönnum að koma þeim til skila og koma þeim rétt fyrir í skráningu. Þeir eru stundum ekki til eins og gengur ef greiða þarf eitthvert gjald af þeim.

Eins og kom fram hjá mér í byrjun er um að ræða umtalsverðar lækkanir. Úrvinnslugjald á bíla lækkar úr 1.040 kr. í 700 kr. á ári og er lækkun upp á 63,2 millj. á ári. Úrvinnslugjald af hjólbörðum lækkar um 17% og er lækkun um 33 millj. á ári, úrvinnslugjald á rafhlöðum lækkar um 50% sem skilar sér í lækkun upp á 8,5 millj. og úrvinnslugjald af samsettum drykkjarumbúðum lækkar um 55% sem skilar sér í 19,5 millj. Samanlagt eru þetta 125 millj. Að auki hækkar skilagjald af ökutækjum um 50%. Hins vegar er lagt, eins og hér hefur komið fram, 10 kr. gjald á kílóið af umbúðum en það á ekki að hafa áhrif á viðkomandi fyrirtæki. Við fórum yfir það þar sem nú þegar er kostnaður hjá þessum fyrirtækjum við að koma þessum vörum fyrir þannig að þetta ætti að koma út nokkurn veginn á jöfnu, við fórum gaumgæfilega yfir að þetta á ekki að skila sér í hækkunum á vöruverði.

Virðulegi forseti. Þetta er búin að vera fín umræða og ég vil nota tækifærið enn og aftur og þakka nefndarfólki í hv. umhverfisnefnd fyrir gott samstarf hvað þetta mál varðar og vonast til að við megum eiga jafngott samstarf í framtíðinni í þeim skemmtilegu og spennandi verkefnum sem fram undan eru.