131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[12:39]

Frsm. minni hluta menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Við fórum nokkuð vel í gegnum þetta mál við 1. og 2. umr. Hér er um að ræða eina af 16 skattahækkunum ríkisstjórnarinnar og í þessu tilfelli er verið að hirða hana upp úr vösum námsmanna með því að hækka svokölluð innritunargjöld við ríkisháskólana þrjá. Þau eru hækkuð um rétt tæp 40% þannig að eftir stendur eftir nokkuð ítarlega, a.m.k. á köflum, yfirferð í nefndinni hvað varðaði þá gesti sem komu fyrir hana, að hér er um að ræða hreina gjaldtöku, hreina skattahækkun, almenna tekjuöflun til reksturs háskólanna þó að það dugi skammt í þeim rekstrarvanda sem þeir eru í eftir harkalegt fjársvelti undanfarinna ára. Ríkisháskólarnir hafa verið fjársveltir með þeim hætti að Kennaraháskólinn vísar frá þúsund nemendum á ári til að ná að starfa innan síns ramma og Háskóli Íslands sem fram til þessa hefur haft það hlutverk holt og bolt og skilgreint að vera þjóðskóli Íslendinga ásamt að sjálfsögðu Kennaraháskólanum, þjóðskólinn sem býður upp á kennslu í fræðum og rannsóknum í öllum greinum, er sveltur með þeim hætti að hann er þvingaður til að taka upp fjöldatakmarkanir til að starfa innan rammans. Á síðasta hausti ákvað háskólinn að nýta sér ekki heimildir sem hann hefur til að taka inn umsækjendur sem eru ekki með hefðbundið stúdentspróf á bóknámsbrautum, fólk með svokallað starfsnámsstúdentspróf eða fólk með víðtæka reynslu úr skóla lífsins sem að sjálfsögðu jafngildir og meira en það oft hefðbundnu stúdentsprófi á bóknámsbraut, sem er að mínu mati löngu úreltur mælikvarði á það hvort fólk á að fá inngöngu í háskóla. Við eigum að hvetja fólk almennt til að sækjast eftir háskólanámi. Þær þjóðir sem skara fram úr í dag og við viljum gjarnan bera okkur saman við, eins og Finnar og aðrar þjóðir sem eru nú langfremstar í flokki bæði í menntamálum og efnahagsmálum, hafa um árabil lagt verulegt fjármagn til mennta, sérstaklega tækni- og verkfræðimennta, og lagt mikla áherslu á verknám, listnám og iðnnám hvers konar. Það eru allt greinar sem við vanrækjum mjög áberandi.

Það mál sem við ræðum hér er mjög táknrænt fyrir viðhorf stjórnvalda til menntamála hvers konar. Í fyrsta lagi er allt of lítið lagt til þeirra. Við leggjum miklu minna til þeirra af þjóðarframleiðslunni en nágrannaþjóðirnar og það kom ágætlega fram í ræðu hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar við 1. umr. þar sem hann rakti hve langt við stöndum þeim að baki í framlögum til háskólastigsins. Við verjum um 0,9% af þjóðarframleiðslunni til háskólastigsins á meðan þær þjóðir Norðurlanda sem fremstar eru verja upp undir 2%. Þarna er æpandi bil, verulegt bil.

Verið er að þvinga háskólana til að hækka svokölluð innritunar- og skráningargjöld og við ræddum það við 1. og 2. umr. málsins með hve undarlegum hætti forsendurnar eru teknar saman eftir að fyrst var ákveðið hver upphæðin ætti að vera. Ég ætla ekki að fara út í þá umræðu núna, hún er til lykta leidd. Það sem eftir stendur er að hér er verið að stíga töluvert stórt skref í þá átt að innheimta skólagjöld í verulegum mæli fyrir grunnnám í ríkisháskólunum. Þetta mál tengist með beinum hætti að því leyti til öðru máli sem við höfum lokið 1. umr. um og verður tekið til við að vinna betur í menntamálanefnd eftir áramót. Það er aflagning Tækniháskóla Íslands, sameining hans við Háskólann í Reykjavík sem vissulega getur verið góður kostur eins og margir aðrir kostir eru við að sameina ákveðna skóla á háskólastigi, efla háskólastigið, efla skólana, byggja undir í þessu tilfelli, ef vel tækist til, verkfræðina og tæknifræðina, standa vörð um frumgreinadeildina í Tækniháskólanum sem er hennar aðal, að þangað komi inn fólk með iðnmenntun og fólk sem á eftir að ljúka formlegu stúdentsprófi og gangi svo áfram veginn í gegnum Tækniháskólann. En í því máli, eins og kom fram við 1. umr., er mjög illa og undarlega að málum staðið og fjarri því t.d. að tryggt sé að frumgreinadeildin haldi velli, en þá umræðu tökum við síðar. Það sem ég vildi segja og tengja við þessa umræðu er að verið er að leggja af námsgrein, grunnnám á háskólastigi, leggja það af í núverandi mynd og bjóða einungis upp á það í einkareknum skóla gegn verulegum skólagjöldum. Því eru þau skref sem nú eru stigin í þá átt að innheimta há skólagjöld af grunnnámi á háskólastigi mjög áberandi og athyglisverð og sú umræða hvort nemendur eigi almennt að taka aukinn þátt í rekstri háskólanna, kosta nám sitt í auknum mæli, á eftir að fara fram. Það getur vel verið að Alþingi og einhverjir stjórnmálaflokkanna komist að þeirri niðurstöðu að svo eigi að vera og þá ætti að lána á móti, breyta lánasjóðskerfinu þannig að hluti af lánunum breyttist í styrk, tengja afborganir af námslánum eftir á þannig að menn borgi í takt við það sem þeir afla að námi loknu eins og Bretar gerðu í dramatískri og frægri atkvæðagreiðslu í breska þinginu í fyrra. Þessi umræða hefur einfaldlega ekki farið fram. Þetta er eitt af dekurmálum ríkisstjórnarflokkanna og Sjálfstæðisflokksins sérstaklega þó að hann hafi aldrei þorað að gangast við því eða viðurkenna það.

Eitt af meginstefnumiðum Sjálfstæðisflokksins er að innleiða skólagjöld í ríkisháskólana. Hér er verið að stíga stór skref í þá átt án þess að taka heildstæða umræðu um það hvernig eigi að bregðast við því eða hvort eigi að gera það. Hvert er þá hlutverk lánasjóðsins? Ég kom inn á það í ræðu í fyrrakvöld um breytingar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna og mun halda áfram með þá umræðu á eftir ef og þegar það mál kemur á dagskrá. Þetta þarf allt að ræða í einni samfellu, þ.e. hlutverk lánasjóðsins, þátttöku nemenda í kostnaði háskólastigsins. Það á ekki að lauma skólagjöldum inn bakdyramegin eins og verið er að gera hér án þess að taka um það nokkra einustu umræðu eða gangast við stefnumiðinu og dekurmálinu.

Hérna er um að ræða almenna tekjuöflun í ríkisháskólunum eftir verulegt fjársvelti þeirra. Þetta eru skattar á röngum forsendum. Hér eru skattar á röngum forsendum. Þetta er almenn tekjuöflun til reksturs skólanna en ekki sérhæfð gjaldtaka eins og hér er lagt upp með og var hugmyndin á bak við innritunargjöldin á sínum tíma, þó að sú framkvæmd hafi á þeim tíma ekki reynst gæfuspor að mínu mati. Samanborið við nemendafjölgun og aðsókn að skólunum er ríkið bara að draga lappirnar. Það er verið að draga úr framlögum til skólanna á kostnað nemendanna. Það er verið að velta auknum kostnaði af rekstri ríkisháskólanna yfir á nemendur auk þess sem verið er að beita þar fjöldatakmörkunum sem var voðaspor í sögu Háskóla Íslands á liðnu hausti, þ.e. að skólinn skyldi til þess þvingaður af stjórnvöldum að vísa frá nemendum sem þangað sóttu um inngöngu og stóðu í mjög góðri trú af því að hefðin hefur verið sú í mörg ár uppi í háskóla að taka á móti námsmönnum sem sækja um aðild að skólanum og eru með stúdentspróf af verknámsbrautum eða aðra sambærilega reynslu. Um árabil hefur háskólinn metið þetta þannig. Það var komið í bakið á þessu fólki út af fjársvelti stjórnvalda. Háskólinn var þvingaður til þeirra óheillaaðgerða að vísa þessu fólki frá. Það var mjög vont skref. Mjög margt staðfestir þann fjárhagsvanda sem háskólinn og háskólarnir allir þrír búa við. Ég hef ríka og mikla samúð með þeim. Það er mjög vont að þau skólagjöld sem verið er að innleiða í ríkisháskólana þrjá skuli bitna á þeim og framgöngu forustumanna þeirra.

Til að strika aðeins undir fjárhagsvanda skólanna þá ætla ég að vitna í minnisblað til háskólaráðs frá Ingjaldi Hannibalssyni, formanni fjármálanefndar háskólaráðs, um nemendagjöld. Þar vitnar hann beint í samþykkt af deildarfundi lagadeildar. Ég ætla að lesa þessa stuttu tilvitnun bara til að undirstrika fjárhagsvanda einstakra deilda. Menn eru tilbúnir að grípa til örþrifaráða til að standa undir kostnaði við námið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Með skírskotun til viðvarandi fjárhagsvanda lagadeildar og samkeppnisstöðu hennar skorar deildin hér með á háskólaráð að beita sér fyrir því að fjárveitingar ríkisins til lagadeildar og annarra deilda verði auknar þannig að ráðstöfunarfé þeirra til kennslu verði sambærilegt við deildir háskóla í formi sjálfseignarstofnana. Að öðrum kosti fer lagadeild þess á leit við háskólaráð að það óski eftir því að deildin fái heimild til að innheimta gjöld.“

Það er sem sagt verið að þvinga einstakar deildir og einkum í framhaldsnámi eins og segir síðan. Það er verið að þvinga einstakar deildir til að leita örþrifaráða til að fjármagna sig. Síðan er farin þessi millileið að hækka innritunargjöldin verulega, breyta innritunargjöldunum í skólagjöld, breyta einhvers konar þjónustugjöldum í hrein skólagjöld í grunnnámi á háskólastigi. Þetta er ákaflega mikil öfugþróun og harma ég það að við stöndum frammi fyrir því nú í dag, á síðasta starfsdegi þingsins að mér skilst á þessu ári, að eitt síðasta verkið verði að innleiða skólagjöld í ríkisháskólana þrjá án þess að um það hafi verið tekin umræða, án þess að fyrir liggi að það sé framtíðarhlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna að standa undir auknum kostnaði við rekstur ríkisháskólanna í formi lána til nemenda skólans af því, eins og fram hefur komið, þá má flokka helminginn af námslánum sem styrk, þ.e. af því að þau eru niðurgreidd af ríkinu með þeim hætti. Það er því verið að velta vandanum yfir á sjóðinn, taka úr öðrum vasa en ætlað er að greiða úr.

Ýmsar fróðlegar upplýsingar komu fram í nefndastarfinu sem við höfum farið ágætlega yfir í fyrri umræðu. Það eru til að mynda þær leiðir sem háskólarektor benti á við slíka gjaldtöku. Hann hnýtti svo við þá upptalningu sína að skólagjöld væru aldrei lausn á fjárhagsvanda háskólans og tel ég að hann hafi átt við þar, og undirstrika þá skoðun mína, að ef við mundum innleiða veruleg skólagjöld í grunnnámi á háskólastigi þá værum við einfaldlega að stöðva þá sókn sem er á meðal Íslendinga, sérstaklega þeirra sem eru komnir yfir hefðbundinn háskólaaldur, þ.e. þá sem útskrifast úr framhaldsskólum, í skólana á ný. Ég held að verið sé að þvæla málum þannig að verið sé að stöðva þá sókn. Við þurfum á því að halda til að byggja undir atvinnulífið, til að byggja undir efnahagslífið, til að byggja upp nýtt og glæsilegt atvinnulíf til framtíðar, að mennta fólkið. Það á að vera menntastefna Íslendinga í stað þeirrar blindu stóriðjustefnu sem hér hefur verið rekin um árabil án þess að nokkur vitræn umræða hafi samhliða átt sér stað um að byggja upp atvinnulíf byggt á menntun, þekkingu og færni fólksins. Það er umræða sem við tökum vonandi betur síðar.

Rektor háskólans benti á að t.d. væri hægt að innheimta einhvers konar innritunargjöld sem stæðu undir mjög ákveðinni þjónustu, í öðru lagi hrein skólagjöld sem stæðu þá undir almennum rekstri skólans líkt og er gert í sjálfseignarstofnunarskólunum, einkaskólunum svokölluðu. Svo skilur maður svo sem ágætlega líka að þeir sem standa að ríkisháskólunum finnist ákveðins ójafnræðis gætt þar sem sjálfseignarskólarnir eins og Bifröst og HR fá sambærilegar upphæðir á hvern nemanda en fá að hafa heimild til að innheimta töluverð og veruleg skólagjöld einnig. Auðvitað þykir þeim sem reka ríkisháskóla þetta ójafnræði. Þessi umræða er öll eftir og ég sakna þess að ríkisstjórnarflokkarnir skuli ekki taka þessa umræðu fyrst áður en þeir innleiða skólagjöldin með þeim hætti sem fram kemur hér og í tækninámi.

Í þriðja lagi benti rektor á að ekki væri óeðlilegt að taka upp einhvers konar staðfestingargjald til að stemma stigu við einhverju sem mætti kalla óábyrgum skráningum þannig að ekki væru hundruð eða þúsundir að skrá sig til náms án þess að ætla að stunda námið. Undir það má taka og er sjálfsagt að nota hóflega gjaldtöku til góðra verka. En ef menn ætla að nota gjaldtöku til að standa undir almennum rekstri skólanna, til almennrar tekjuöflunar, þá eiga menn að þora að segja það. Þá á Sjálfstæðisflokkurinn að þora að segja það og opinbera það hér en ekki fara fjallabaksleiðir að því máli, ekki lauma því inn með röngum hætti á röngum forsendum undir röngum formerkjum. Um það snýst þetta mál.

Af því að ríkisstjórnin ber þessa skólagjaldainnheimtu fram í búningi skráningargjalda þá er rétt að nefna að ef þessu væri einungis ætlað að standa undir skráningu þá hefur kostnaður við skráningu, innritun og utanumhald nemenda minnkað verulega. Þetta er orðin rafræn skráning. Pappírsflóðið er allt úr sögunni og forsendur eru gjörbreyttar þannig að skrípaleikurinn var afhjúpaður með mjög margvíslegum og dramatískum hætti í umræðunni og segja má að stúdentar við Háskóla Íslands að hafi brytjað forsendurnar í spað í sinni úttekt á þeim forsendunum sem liggja að baki þessum skólagjöldum. Ef menn segjast vera að innheimta skólagjöld eins og þeir gera þá værum við að taka allt aðra umræðu. Þá værum við að ræða um kosti og galla skólagjalda, réttlætið eða óréttlætið í því að nemendur tækju aukinn þátt í kostnaði við nám sitt. Eiga nemendur t.d. að hafa aðgang að nokkurn veginn gjaldfríu námi, þ.e. grunnnámi sem mætti segja að hafi sama hlutverk í dag og stúdentsprófið hafði einu sinni? Er það bara orðinn partur af almennu námi sem ríkisvaldið á að bjóða upp á aðgang að? En eigum við í staðinn að innheimta skólagjöld í ríkari mæli af framhaldsnámi við ríkisháskólana? Þetta eru allt stórar og góðar spurningar sem ættu að vera hluti af þeirri pólitísku umræðu sem við erum að taka í dag. Við ættum ekki að vera að ræða um það í sjálfu sér að ríkisvaldið og Sjálfstæðisflokkurinn séu að lauma skólagjöldum inn í ríkisháskólana í gegnum bakdyrnar. Það er ákaflega raunaleg umræða og á ákaflega lágu plani af hálfu stjórnvalda. Menn eiga að taka þessa umræðu eins og hún er í sinni réttu mynd.

Ég rakti það við 2. umr. að flestir umsagnaraðilar um frumvarpið leggja til að það verði fellt, t.d. Alþýðusamband Íslands sem telur að með þessum frumvörpum sé stigið enn eitt skref í átt til þess að tekin verði upp skólagjöld við ríkisháskóla hér á landi og Alþýðusambandið lýsir sig alfarið ósammála þessari þróun og varar við afleiðingunum. Það er akkúrat það sem ég var að segja áðan. Við höfum ekki rætt um kosti og galla gjaldtöku á nemendur og við höfum ekki rætt um afleiðingarnar. Eru afleiðingarnar þær, eins og Bretarnir telja, að meiri fjármunir komi inn á háskólastigið og það eflist í heild sinni. Þá beri að fara aðrar leiðir til að tryggja jafnrétti til náms og til að varast að gjaldtakan bitni of harkalega á þeim nemendum sem eru efnalitlir eða koma frá efnalitlum fjölskyldum. Þar er mjög flókin tenging. Um er að ræða styrki, tekjutengingar við efnahag jafnvel foreldra, eftirátekjutengingar við tekjuöflun námsmanna að loknu námi. Þeir fara ýmsar leiðir til að tryggja jafnrétti, tryggja að um sé að ræða réttláta gjaldtöku en ekki óréttláta.

Íslenska ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir fara enga slíka leið af því að þeir hafa ekki komið fram með þetta mál með þeim hætti. Ég spurði ítrekað formann menntamálanefndar, hv. þm. Gunnar Birgisson sem þekkir mjög vel til þessara mála eftir að hafa starfað lengi sem formaður lánasjóðsins t.d., hvort það hafi verið tekið upp við hann sérstaklega að nú væri það hlutverk lánasjóðsins að standa að stórum hluta undir tækninámi á Íslandi en ekki ríkisvaldsins ef af sameiningu skólanna tveggja verður. Hann svaraði þessu ekki við 2. umr. um lánasjóðsmálið en gerir það kannski við 3. umr. nú á eftir.

Það er stórpólitísk ákvörðun ef það á að velta því kannski að hálfu leyti yfir á lánasjóðinn að hann eigi að standa undir þessu og hinu náminu. Og af hverju á hann að standa undir tækninámi en ekki guðfræðinámi eða stjórnmálfræði eða heimspeki? Hér rekur sig hvað á annars horn og ekkert samræmi er í þessari skólagjaldapólitík Sjálfstæðisflokksins. Þessi skólagjaldavæðing sem í hafa verið tekin mjög dramatísk og stór skref í bara núna á þessu eina hausti hefur aldrei komið með þeim hætti til umræðu á Alþingi. Það er verið að skólagjaldavæða sumar námsgreinar en aðrar ekki. Það er verið að hækka skólagjöldin og innleiða þau, má segja, í ríkisháskólana. En um það hefur engin umræða farið fram af hálfu stjórnarflokkanna þó að stjórnarandstöðuflokkarnir allir þrír hafi tekið um það mjög málefnalega og ágæta umræðu hér á síðustu dögum.

Ég ætla ekki að lengja þetta mjög nú við 3. umr. Fleiri eiga ábyggilega eftir að taka til máls. Þó vil ég vitna til þess að á fundi menntamálanefndar spurði ég forustumenn stúdentaráðs að því hvort þeir teldu að hér væri um að ræða gjaldtöku á röngum forsendum, hvort hér væri um að ræða almenna tekjuöflun til að mæta rekstrarvanda og fjárþörf skólanna. Svarið við því var afdráttarlaust: Já. Það er mín skoðun og það er skoðun okkar sem höfum verið að vinna í þessu máli í menntamálanefndinni af hálfu stjórnarandstöðuflokkanna, Samfylkingar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúa Frjálslyndra sem stendur með okkur að áliti okkar sem hér liggur fyrir og hv. þm. Mörður Árnason flutti og útskýrði við 2. umr. Það er nokkuð yfirgripsmikið að því leyti að það tekur ágætlega á öllum þeim þáttum sem að baki þessu máli eiga að liggja.

Frú forseti. Að lokum harma ég það eindregið að verið sé að innleiða skólagjöld í verulegum mæli í ríkisháskólunum á Íslandi og sérstaklega í ljósi þess að um það hefur engin umræða farið fram. Málið hefur aldrei verið kynnt með þeim hætti. Ekkert stendur um það í stefnuskrám stjórnarflokkanna. Framsóknarflokkurinn hafnar því afdráttarlaust og það kemur hvergi skýrt fram í stefnumiðum Sjálfstæðisflokksins að hann vilji og ætli og hafi ætlað á þessu kjörtímabili að taka upp skólagjöld við ríkisháskólana á Íslandi. Það vita allir að það er stefna Heimdallar og sjálfsagt Sambands ungra sjálfstæðismanna. En það kemur ekkert fram um þetta. Þessir flokkar voru ekki kosnir til að vinna þessi óhæfuverk á íslenska skólakerfinu. Það er þeim ekki til sóma. Það er þeim til vansa. Ef þeir ætla að berjast fyrir því að tekin verði upp aukin skólagjöld við íslensku háskólana þá skulu þeir segja það, þá skulu þeir taka um það umræðu, þá skulu þeir standa frammi fyrir þeirri umræðu hér með þeim rökum sem því fylgja og ræða það hreinskilnislega við þingheim allan og benda á leiðir til að tryggja jafnrétti til náms í staðinn. Þannig mætti lengi telja. Þetta er versta leiðin. Þetta er ákaflega dapurleg leið. Þetta er huglaus leið og hana harma ég eindregið, virðulegi forseti, og hafna því með öllu að þetta mál nái fram að ganga og vona að Farmsóknarflokkurinn ranki við sér, rifji upp stefnuskrána, standi við stefnumiðin og taki þátt í því að fella þetta mál hér síðar í dag.