131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[13:01]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við erum komin að 3. umr. um þau mál sem lúta að hækkun skólagjalda opinberu háskólanna. Eins og fram kom í máli mínu við 1. og 2. umr. málsins er ég afar mótfallin því sem hér er gert, þ.e. innleiðingu skólagjalda og hækkun skólagjalda í hina opinberu háskóla. Ég hef farið í fyrri umræðum mjög ítarlega ofan í sjónarmið mín og hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og mun ekki endurtaka þau hér.

Eitt var þó það álitamál sem ég gerði talsvert úr við 2. umr. málsins en það var spurningin um það hversu stór hluti þeirrar upphæðar sem innheimt er í skráningargjöld eigi að renna óskipt til háskólanna. Um það hafa verið deilur og borist hafa misvísandi skilaboð til hv. menntamálanefndar í þeim efnum. Í ljós kom í máli rektora háskólanna að skilningur þeirra í þessum efnum var sá hinn sami og alveg skýr að öll upphæðin, allt skráningargjaldið, 45 þús. kr. á nemanda ætti að koma óskipt til skólanna. Annað væri marklaust en það orð notaði einmitt rektor Háskóla Íslands yfir það að ef skráningargjaldið kæmi ekki að fullu til skólanna óskipt væri marklaust að leggja það á. Hins vegar hefur komið fram í þeim umsögnum sem fylgja frumvörpunum þremur frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að ljóst er að upphæðin sem þar virðist eiga að innheimta, þ.e. hækkunin, 12.500 kr. á nemanda sé eingöngu það sem kemur óskipt til háskólanna þriggja. Sá skilningur fjármálaráðuneytisins var staðfestur af starfsmanni menntamálaráðuneytisins á fundi menntamálanefndar í morgun. Eins og þingheimi er kunnugt var ákveðið að kalla málið aftur til nefndarinnar vegna álitamáls þess sem ég geri nú grein fyrir. Það var gert í morgun og Gísli Þór Magnússon, starfsmaður menntamálaráðuneytisins, kom á fund nefndarinnar og staðfesti þann skilning fjármálaráðuneytisins að einungis 12.500 kr. á nemanda er áætlað að renni óskipt til háskólanna þriggja, ekki gjaldið í heild sinni, 45 þús. kr. Þar með stendur yfirlýsing rektors Háskóla Íslands, Páls Skúlasonar, að það að innheimta gjaldið sé marklaust og ég tek undir þau orð.

Það er til háborinnar skammar hvernig núverandi ríkisstjórn hefur markvisst skrúfað fyrir fjárstreymið til opinberu háskólanna. Það er staðreynd að nemendafjölgun hefur orðið gífurleg vegna hvatningar ríkisstjórnarinnar og þeirrar menntastefnu sem ríkisstjórnin vill keyra eftir í orði. Það er meðvituð pólitísk ákvörðun að hækka menntunarstig þjóðarinnar. Það gerist ekki á annan hátt en þann að við fjölgum háskólastúdentum. Það hefur verið að gerast. Stúdentar hafa svarað kalli ríkisstjórnarinnar á þann hátt að þeir koma til háskólanna fullir vilja og hugmynda um áframhaldandi nám og ætlast auðvitað til þess eins og stjórnendur skólanna að ríkisvaldið standi við sín stóru orð og auki fjárheimildir til skólanna sem nemendafjölguninni nemur. Það hefur ekki orðið raunin, heldur þvert á móti lækka framlögin hlutfallslega til skólanna ef nemendafjölgun er skoðuð. Fjármunirnir fylgja því ekki nemendafjölguninni. Þetta er eitt af hinum stóru deilumálum sem tekist er á um í þessum sal og þar skilja sjónarmið stjórnarandstöðunnar og ríkisstjórnarflokkanna. Auðvitað er það miður eins og vikið hefur verið að, að Framsóknarflokkurinn skuli fylgja íhaldinu í blindni í þessu máli og t.d. í skattamálinu og má leiða að því líkur að viðurnefni það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon leyfði sér að gefa Framsóknarflokknum í ræðum í morgun komi til með að festast við Framsóknarflokkinn því að í þessu máli er framganga Framsóknar ekki heldur til fyrirmyndar.

Hæstv. forseti. Í upphafi árs var talsverð umræða í fjölmiðlum og á opinberum vettvangi um fjárframlög til Háskóla Íslands og annarra skóla á háskólastigi, einkum þó einkaskólanna sem kostaðir eru að langmestu leyti af ríkinu. Í þeirri umræðu birtist grein í Morgunblaðinu eftir Þórð Kristinsson, framkvæmdastjóra akademískrar stjórnsýslu Háskóla Íslands. Í greininni beinir Þórður orðum sínum til þeirra sem taka ákvarðanir um heildarhagsmuni samfélagsins, með öðrum orðum þá hagsmuni sem ganga verður út frá þegar höndlað er með opinbert fé.

Þórður Kristinsson minnir okkur á það í greininni að samfélag okkar sé lítið. Hann minnir okkur á að þjóðin sé fámenn og Háskóli Íslands sé lítill skóli á mælikvarða hins alþjóðlega samfélagsháskóla. Samt hafi háskólinn, sem býður upp á fjölbreytt nám til fyrsta háskólaprófs í 11 háskóladeildum og yfir 50 mismunandi námsleiðir, verið ein meginforsenda og stoð sjálfstæðs íslensk samfélags, hvorki meira né minna. Ég tek undir orð Þórðar Kristinssonar og geri að mínum. Þessum máttarstólpa í samfélaginu hefur ekki verið sýndur meiri sómi en svo að honum er gert að berjast blóðugri baráttu fyrir lífi sínu, fjárframlög til skólans ná langt í frá að halda í við nemendaþróun og nú er svo komið að á næsta ári skortir Háskóla Íslands 300–400 millj. kr. til að endar nái saman.

Til hvers konar ráða grípa stjórnendur skóla þegar svo er komið, virðulegi forseti? Þeir gera auðvitað nánast hvað sem er bara ef þeir telja að það geti bjargað starfsemi skólans. Eftir fjöldann allan af árangurslausum heimsóknum til bæði fjárlaganefndar Alþingis og menntamálanefndar ár eftir ár létu stjórnendur Háskóla Íslands á það reyna hvort mögulegt væri að hækka skráningargjöld skólans og gerðu um það samþykkt í háskólaráði. Sú samþykkt var byggð á samþykkt lagadeildar Háskóla Íslands frá 19. febrúar 2004 sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson las áðan. Ég tel rétt að hún sé lesin aftur því að hún lýsir afar vel þeirri úlfakreppu sem háskólinn og deildir hans allar hans allar eru meira eða minna í. Samþykkt lagadeildarinnar frá 19. febrúar 2004 er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Með skírskotun til viðvarandi fjárhagsvanda lagadeildar og samkeppnisstöðu hennar skorar deildin hér með á háskólaráð að það beiti sér fyrir því að fjárveitingar ríkisins til lagadeildar og annarra deilda Háskóla Íslands verði auknar, þannig að ráðstöfunarfé þeirra til kennslu verði sambærilegt við það sem deildir háskóla í formi sjálfseignarstofnana hafa yfir að ráða. Að öðrum kosti fer lagadeildin þess á leit við háskólaráð að það óski eftir því að deildin fái heimild til þess að innheimta gjöld af nemendum hennar, einkum í framhaldsnámi, til þess að standa að hluta straum af kostnaði við kennslu þeirra.“

Það er afar dapurlegt, virðulegi forseti, að lesa þessa samþykkt því í henni er fólgin í hnotskurn sú aðstaða sem opinberu lagadeildinni okkar er búin í samkeppni við þær deildir sem reknar eru af sjálfseignarstofnununum þar sem menntamálaráðuneytið, ríkisstjórnin öll hefur heimilað þeim skólum að bæta við tekjur sínar, bæta við þá fjármuni sem koma til skólans með því að leggja á skólagjöld. Slíkt er óheimilt samkvæmt lögum varðandi opinberu háskólana. Það er því alveg ljóst að opinberu háskólarnir njóta ekki sömu möguleika á að fá til sín tekjur meðan svo er og auðvitað er eðlilegt þegar svona er ástatt að deildir háskólans fari á endanum á kné og biðji um að fá að leggja á skólagjöld. En, virðulegi forseti, það stríðir gegn samþykktum Alþingis Íslendinga. Það stríðir gegn vilja okkar sem höfum setið löggjafarsamkunduna í gegnum árin. Við viljum ekki ógna möguleikum nemenda á jafnrétti til náms. Við viljum að ríkið reki öfluga menntastofnun sem geti borið ægishjálm, höfuð og herðar yfir annað nám í samfélaginu því þetta er þjóðskólinn okkar. Þetta er stoltið okkar. Þó að ég segi hér enn einu sinni að ég fagni öllum auknum menntatækifærum og ég fagni fjölbreyttri flóru menntatækifæra á Íslandi má það aldrei verða á kostnað þjóðarskólans okkar, Háskóla Íslands. Það má heldur ekki verða á kostnað Kennaraháskóla Íslands eða Háskólans á Akureyri sem eru að hluta til þátttakendur í því forustuhlutverki sem Háskóli Íslands hefur með höndum. Ásökun mín er fólgin í því að þessum skólum hafi verið haldið í úlfakreppu fjársveltis sem hafi neytt þá á hnén og neytt þá til þess að biðja um að fá að leggja skólagjöld á nemendur sína. Þegar það er ekki hægt samkvæmt lögum er óskað eftir því að fá hækkuð skrásetningargjöld til þess að hægt sé að fá inn aukið fjármagn til að standa straum af þeim kostnaði sem ekki er hægt að segja með réttu að falli undir kennslukostnað. Þá er tíndur til allur hugsanlegur og óhugsanlegur kostnaður sem varðar almennan rekstur háskólanna og reynt að fella hann undir það sem kallað er skrásetningargjald. Hér er því teygt og togað og sett inn með skóhorni alls kyns liðir sem alls ekki er hægt að rökstyðja að heyri til skráningar háskólastúdenta.

Ein af þeim breytingum sem gerð hefur verið í gegnum tíðina er sú að nú er skrásetningargjaldið innheimt árlega en upphaflega var það eingöngu innheimt þegar nemendur hófu nám vegna þess að upphaflega var því ætlað að vera það sem nafnið gefur til kynna, skrásetningargjald. Búið er að skrumskæla það allt saman, teygja og toga og gera marklaust eins og svo margt annað í framkvæmd menntastefnunnar því að í grunninum er menntastefnan fín en henni er ekki framfylgt á þeim nótum sem orðanna hljóðan mundi kalla á.

Virðulegi forseti. Ég tel það liggja alveg ljóst fyrir að forsvarsmenn lagadeildar sem samþykktu þann 19. febrúar 2004 þá yfirlýsingu sem ég las áðan gerðu það ekki nema vegna þess hve aðþrengdir þeir voru fjárhagslega. Þegar samþykktin lá fyrir og ljóst var hvernig ástandið í háskólanum var voru haldnir fundir í háskólaráði. Á tveimur fundum, eftir því sem við vitum best, fjallaði háskólaráð um samþykkt lagadeildar og á endanum samþykkti háskólaráð að fela rektor Háskóla Íslands að taka málið upp við menntamálaráðherra og fara þess eindregið á leit að hægt verði að draga skrásetningargjaldið frá fjárveitingu til háskólans á fjárlögum. Háskólarektor er sem sagt sendur til hæstv. menntamálaráðherra á hnjánum og látinn biðja um að skrásetningargjaldið verði a.m.k. látið renna óskipt til háskólans. Er orðið við þeirri bón? Ónei, það er ekki orðið við henni en látið í veðri vaka í texta frumvarpanna. Strax í byrjun þeirra má lesa eftirfarandi setningu, virðulegi forseti:

„Í forsendum frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2005 eru kynnt áform um að hækka skrásetningargjöld í ríkisháskólum úr 32.500 kr. í 45.000 kr. Er það í samræmi við óskir ríkisháskólanna“ — og hefur verið staðfest í vinnu nefndarinnar með málið — „og við það miðað að fjárhæð skrásetningargjaldanna renni óskipt til þeirra.“ Þetta kemur fram í greinargerð hæstv. menntamálaráðherra með frumvörpunum. Með öllum frumvörpunum þremur.

Hvað þýða þessi orð? Þýða þau að einungis hækkunin 12.500 kr. muni renna óskipt til skólanna? Nei, auðvitað ekki. Það stendur skýrum stöfum að fjárhæð skrásetningargjaldanna renni óskipt til þeirra. Ég ásaka hæstv. menntamálaráðherra um að fara vísvitandi með fleipur í greinargerðinni. Við eigum það inni hjá hæstv. menntamálaráðherra, ekki bara við sem erum í þessum sal heldur og allir háskólastúdentar í opinberu háskólunum, að hún skýri hvers vegna orðalagið í þessari grein er með þeim hætti sem ég hef lesið. Hvers vegna er vísvitandi reynt að blekkja fólk með því að skrifa það sem er ekki rétt? Ég tel óhjákvæmilegt, virðulegi forseti, að hæstv. menntamálaráðherra komi og skýri þetta.

Undanfarna daga hafa hv. þingmenn fengið bréf frá háskólastúdentum, ákall um að hækkunin nái ekki fram að ganga. Þegar ég leit síðast í tölvuna mína um tvöleytið í nótt hafði ég fengið yfir 300 bréf frá einstaklingum sem stunda nám í opinberu háskólunum þar sem þessu er mótmælt. Ég hef ekki komist í tölvuna mína í morgun, hæstv. forseti, en ég á eins von á því að annar eins fjöldi hafi bæst þar við.

Ákall háskólastúdenta er hávært, um að við gerum ekki það sem menntamálaráðherra og ríkisstjórn leggur til í þessum frumvörpum. Ætlum við að hunsa það ákall? Hæstv. forseti, auðvitað virðist stefna í það en ég vil a.m.k. að það ákall heyrist úr þessum ræðustól. Bréfin sem við fáum frá háskólastúdentum eru mörg hver svipuð og samhljóða. Ég vil fá að lesa, með leyfi hæstv. forseta, tölvuskeyti sem mér barst klukkan 17.18 þann 9. desember 2004 sem er sýnishorn af 300 eða 600 öðrum sem liggja í pósthólfinu í tölvunni minni í dag.

Bréfið er eftirfarandi, virðulegi forseti:

„Ágæti viðtakandi.

Ég skora á þig að beita þér fyrir því að fyrirhuguð hækkun skrásetningargjalda nái ekki fram að ganga.

Ég mótmæli harðlega þeirri hækkun á skrásetningargjöldum sem gert er ráð fyrir í ríkisháskólunum. Á sama tíma og auknar álögur eru settar á nemendur, er gerð krafa um 1% hagræðingu í rekstri ríkisháskólanna. Með þessu er augljóslega að verið að velta kostnaðinum frá ríkinu yfir á stúdenta.

Ef þessi hækkun nær fram að ganga þýðir það að skrásetningargjöld hafa hækkað um 80% síðan árið 2000. Sem er langt umfram það sem eðlilegt getur talist. Það er ljóst að með aukinni tækni hefur kostnaður við skráningu stúdenta lækkað umtalsvert. Sú upphæð sem nemendur greiða til skólanna fer að stórum hluta í rekstur þeirra og í þjónustu sem aðeins takmarkaður hópur innan hvers skóla notfærir sér. Því er enn og aftur á fáum árum seilst í vasa námsmanna til þess að mæta framlagi ríkisins.“

Undir þetta bréf ritar, virðulegi forseti, Þórður Ásmundsson en það var tilviljun hvaða bréf ég prentaði út. En eins og ég segi streyma hundruð bréfa til þingmanna samhljóða þessu.

Hvernig ætlum við að svara ákalli stúdentanna? Ætlum við yfir höfuð að svara því? Eða ætlum við að sitja og þegja þunnu hljóði og láta þá éta það sem úti frýs með því að samþykkja þær breytingar sem hér eru lagðar til? Hæstv. forseti, satt að segja óttast ég að svo fari en ég mótmæli því. Ég mótmæli skerðingu á möguleikum stúdenta til náms í opinberum háskólum og ég mótmæli slíkri atlögu að jafnrétti til náms.

Hæstv. forseti. Ég hef gert grein fyrir því hvernig er í pottinn búið og bætt við þau sjónarmið sem ég hef áður fjallað um í ræðum mínum um þetta mál. Ég las áðan upp samþykkt frá lagadeild sem lýsir að mínu mati afar vel í hvers konar úlfakreppu starfsmenn háskólans eru. Ég gæti líka vitnað til greinar sem birtist í Morgunblaðinu 24. mars á síðasta ári eftir Önnu Agnarsdóttur, sem þá starfaði sem forseti heimspekideildar. Þar lýsir hún á afar átakanlegan hátt hvernig komið er fyrir hennar deild,.

Mig langar að vitna í greinina, með leyfi hæstv. forseta, en ástandið í heimspekideildinni er trúlega ekki mikið breytt frá því að þessi orð voru skrifuð:

„Til dæmis má nefna að þrír prófessorar í íslenskum bókmenntum hafa látið af störfum síðastliðin ár en einungis einn lektor var ráðinn í þeirra stað. Eftir nokkra mánuði mun prófessor í íslensku máli láta af störfum. Enginn verður ráðinn í hans stað. Heimspekideild hefur neyðst til að fara þessa leið vegna fjárskorts. Í sagnfræði er ástandið svipað. Þegar prófessorar munu hætta vegna aldurs verða embætti þeirra að öllum líkindum lögð niður. Yngstu kennararnir í sagnfræði eru nú á fimmtugsaldri, þannig að nýliðun er lítil sem engin í íslenskum fræðum og margir hámenntaðir ungir fræðimenn bíða vonlitlir eftir að fá störf við háskólann.“

Hæstv. forseti. Fyrrverandi forseti heimspekideildar, Anna Agnarsdóttir, segir í þessari grein sinni að heimspekideild Háskóla Íslands sé í slíkum fjárhagskröggum að íslensk menning sé í hættu. Hún rökstyður mál sitt afar vel og fagmannalega. Ég fullyrði það, virðulegi forseti, þegar ég geri orð Önnu Agnarsdóttur að mínum, að íslensk menning er í hættu vegna þess hvernig opinberu háskólarnir eru fjársveltir af ríkisstjórninni.

Málið sem við ræðum hér er til marks um að það eigi ekki að slaka neitt á klónni eða sýna neinn skilning. Hér á að halda áfram að bolast á þeim nótum sem verið hefur. Það á að halda áfram að hafa opinbera háskóla í úlfakreppu. Ég mótmæli því og ég mótmæli skólagjöldum í ríkisháskólana.