131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[13:21]

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Ég tel að dagurinn í dag sé dapurlegur fyrir stúdenta og held að stúdentar geri sér fulla grein fyrir því hvað hér er á ferðinni. Eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur bent á eru stúdentar afskaplega meðvitaðir um það sem er að gerast í dag. Álögur á stúdenta eru auknar, skólagjöld hækkuð um 40% ofan á 40% hækkun fyrir þremur árum.

Í upphafi máls míns er rétt að leiðrétta smá misskilning eða rangfærslur sumra hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Þeir virðast hafa verið haldnir þeirri meinloku að kalla þetta þjónustugjöld. Löglærðir þingmenn eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hafa að mínu mati farið með rangt mál með því að kalla þetta þjónustugjöld. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson veit betur. Við lærðum í lagadeildinni hvað þjónustugjald er og hvað skattur er og hér er augljóslega ekki um þjónustugjald að ræða. Það vita allir og þetta lærir maður á fyrsta ári í lagadeildinni. Skilgreining þjónustugjalds er sú að í eðli sínu sé það ekki hærra en sem nemur kostnaði af að veita umrædda þjónustu.

Við skulum líta á hvernig hæstv. menntamálaráðherra kemst að því hvert skráningargjaldið skuli vera. Inn í það er tekið t.d. námsráðgjöf, Alþjóðaskrifstofan, prófgæsla, aðgangur að bókasafni, aðgangur að lesaðstöðu, aðgangur að prenturum og svo mætti lengi telja. Þetta er að mati þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hluti af skráningu. Það sjá allir hvað hér er á ferðinni. Að sjálfsögðu eru prófgæsla, Alþjóðaskrifstofa og fleiri hlutir sem ég taldi upp ekki hluti af skráningu. Það er augljóst að hér er verið að beita blekkingarleik sem er mjög lélegur. Það sjá allir í gegnum þetta. Það kemur fram í frumvarpinu sjálfu að þar er ekki á ferðinni kostnaður við skráningu.

Sé skráningargjaldið skráningargjald þá má það ekki vera hærra en sem nemur kostnaði af því að veita umrædda þjónustu. Í þessu tilviki á það að vera skráning en prófgæsla er ekki hluti af skráningu. Alþjóðaskrifstofan er ekki hluti af skráningu. Í drögum frá háskólanum átti íþróttahúsið að vera þarna undir. Menn sjá því hversu langt menn eru tilbúnir að ganga þegar kemur að því að reyna að ná ákveðinni upphæð af stúdentum. Slíkt dæmir sig auðvitað sjálft og það sjá allir í gegnum þetta. Mýmörg álit eru til frá umboðsmanni Alþingis þar sem hann snuprar opinberar stofnanir fyrir að taka of hátt þjónustugjald vegna þess að umræddar stofnanir hafi fellt þar undir þjónustu sem ekki heyrði til umræddri þjónustugjald eða umræddri þjónustu.

Ég held að til séu nokkur álit umboðsmanns Alþingis sem lúta að vatnsveitum. Umræddar vatnsveitur voru þar að rukka þjónustugjald en höfðu fært alls kyns aðra hluta af rekstri sínum undir það gjald. Umboðsmaður Alþingis komst að því að það væri lögbrot. Ef þetta væri þjónustugjald væri það að mínu viti lögbrot og umboðsmaður Alþingis væri fljótur snúa því við og gera athugasemd. En þetta er ekki þjónustugjald enda er upphæðin sjálf í lögunum. Þess vegna erum við að ræða þetta, því að upphæðin er í lögunum. Ef þetta væri þjónustugjald þyrfti upphæðin ekki að vera í lögunum. En þetta er mikilvægt í umræðunni, sérstaklega í ljósi þeirra rangfærslna sem margir þingmenn virðast beita í henni.

Háttvirtir stjórnarþingmenn hafa bent á að þetta sé jákvætt vegna þess að hér sé viðbótarhækkun við fjárframlög til háskólans, reyndar á kostnað stúdenta en mjög jákvætt og skemmtilegt í alla staði. En síðan var upplýst að við málsmeðferð menntamálanefndar hafi komið fram hjá starfsmanni menntamálaráðherra að þessi hækkun gjalds væri ein af forsendum fjárveitingatillagna í fjárlagafrumvarpinu. Ég held að hér sé einnig á ferðinni ákveðinn blekkingarleikur hvað þetta varðar. Menn reyna að réttlæta vonda ákvörðun með mjög hæpnum röksemdum.

Mér finnst þetta mál afskaplega skýrt. Hér er á ferðinni mál sem eykur álögur á stúdenta. Um það snýst málið. Skólagjöld á stúdenta hækka um 40%, eftir að hafa hækkað um 40% fyrir þremur árum. Það er ekki langt síðan ég var sjálfur stúdent í Háskóla Íslands og allir vita að margs konar kostnaður er af því að vera í námi fyrir utan skólagjöldin. Nám á Íslandi er langt frá því að vera ókeypis þótt ekki væri nema litið á fórnarkostnaðinn. Á meðan menn eru í námi eru þeir t.d. ekki að vinna. Skólabækur eru ekki ódýrar hér á landi og reyndar var Samfylkingin með kosningaloforð í síðustu kosningum um að helminga virðisaukaskatt á bókum, sem hefði komið námsmönnum mjög vel og væri í raun ekki mjög dýrt. Þar er hugmynd sem við ættum að halda lifandi og vonandi verður hún að veruleika þegar Samfylkingin kemst í ríkisstjórn.

Þótt þar sé lítið mál þá sýnir það ákveðið viðhorf til menntunar. Samfylkingin hefur ítrekað sagt að setja eigi menntamál í forgang, setja peninga í menntamálin. Við þurfum að forgangsraða í þágu menntamála. Ríkissjóður hefur rúmlega 300 milljarða á milli handanna á hverju einasta ári og það er sannarlega svigrúm til að forgangsraða í þágu menntunar og mikil þörf á því. Stúdentar mótmæltu árið 2001 þegar síðasta 40% hækkun á skólagjöldunum átti sér stað. Þeir mótmæltu þeim á þeim forsendum að álögur á stúdenta væru auknar með því eins og núna. Að halda öðru fram er einfaldlega hártogun.

Ég kemst ekki hjá því að minnast aðeins á þátt hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur, sem er varaformaður menntamálanefndar. Nú gæti einhver sagt að ég sé að sparka í liggjandi mann. En ég lét hana ekki leggjast niður, hún gerði það sjálf. Hún þarf að svara fyrir það þegar hún kemur í háskólann og svarar spurningum sem stúdentar hafa að leggja fyrir hana. Mér finnst þetta mál vera það mikilvægt og alvarlegt að ekki sé hægt að líta fram hjá hennar hlut.

Umræddur hv. þm. Dagný Jónsdóttir var framkvæmdastjóri stúdentaráðs einu ári áður en hún settist á þing. Hún bauð sig m.a. fram sem málsvara stúdenta. Þetta var eitt af hennar helstu málum og hið glæstasta sem hún gat bent á, þátttakan í stúdentapólitíkinni. Að sjálfsögðu héldu stúdentar og halda kannski enn að þeir ættu eitthvert skjól í hv. þingmanni, að þeir gætu treyst henni þegar kæmi að svona ákvörðunum. En svo er ekki, því miður.

Auðvitað þarf að gera þetta að umtalsefni í ljósi þeirrar stöðu sem hv. þingmaður er í. Það er ekki að ástæðulausu að hv. þingmaður varð varaformaður menntamálanefndar. Það var vegna fortíðar hennar í stúdentapólitíkinni. En síðan þegar kemur að því að nota það vald sem hún hefur þá notar hún það illa, að mínu viti.

Það er fróðlegt að rifja upp fortíð hennar og ummæli í stúdentapólitík á árum áður. Í grein hv. þingmanns í Morgunblaðinu 27. júní árið 2000 mótmælir hún harðlega, eins og flestir stúdentar, gjaldtöku í MBA-náminu sem var tekið upp í Háskóla Íslands. Þar hafði hv. þingmaður mjög skýra sýn. Þar var um að ræða skólagjöld sem voru m.a.s. lánshæf hjá lánasjóðnum. Hér eru ekki á ferðinni lánshæf skólagjöld.

En hv. þm. Dagný Jónsdóttir segir, með leyfi forseta:

„Ég hafna slíkum málflutningi enda eiga að ríkja skýrar línur við Háskóla Íslands, skólinn á að vera þjóðskóli þar sem engin skólagjöld eru innheimt.“

Svo segir hv. þingmaður áfram í sömu grein:

„Háskóla Íslands sárvantar peninga á flestum sviðum. Auka þarf ríkisframlög til skólans svo hann geti staðið undir væntingum í framtíðinni … Það er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að auka ríkisframlög til Háskóla Íslands og að standa vörð um það grundvallarmarkmið skólans að vera þjóðskóli sem stendur öllum opinn.“

Ég tek undir hvert einasta orð sem hv. þingmaður segir í þessari grein, korteri áður en hún datt inn á þing, korteri áður en hún var kosin inn á þing. Þess vegna er ég að taka þetta upp, við erum að tala um þingmann sem hefur sagt svo mikið, hefur tekið virkan þátt í stúdentapólitíkinni og á að vera skjól stúdenta hér á þingi, en hún er það augljóslega ekki, því miður. Á það hefur verið bent að hún hefði getað komið í veg fyrir að málið yrði afgreitt út úr nefndinni, m.a. með þeim rökum að skoða þyrfti forsendur gjaldsins. Því eins og fólk sér þegar það les frumvarpið er alveg út í hött að setja t.d. prófgæsluna, Alþjóðaskrifstofuna eða námsráðgjöfina sem hluta af skráningu. Hv. þingmaður hefði getað réttlætt það fyrir meiri hlutanum að slíkt þyrfti að skoða betur og þar með geymt málið í nefndinni. Hv. þingmaður hefði líka getað sleppt því að afgreiða málið eins og iðulega gerist með önnur þingmannamál, en það er að sjálfsögðu síðri kostur, en hún stóð frammi fyrir því og tekur þá ákvörðun á hverjum degi þegar kemur að þingmálum annarra þingmanna.

Svo þegar kemur að atkvæðagreiðslunni sjálfri ákveður hv. þingmaður að sitja hjá. Af hverju segir hv. þingmaður ekki nei? Ég hef ekki enn þá fengið skýringu á því. Ég las í fjölmiðlum að hv. þingmaður benti á að þetta snerist um hvað þetta væri kallað, hún vildi að þetta yrði kallað réttu nafni, en hv. þingmaður sagði ekki hvert hið rétta nafnið væri.

Það er leiðinlegt hv. þingmaður — sem er reyndar ekki stödd í salnum og það kemur mér á óvart en hv. þingmaður er kannski að fylgjast með í sjónvarpinu og ef ég má beina máli mínu til hennar: Þetta snýst ekki um hvað þetta heitir, þetta snýst um auknar álögur á stúdenta og þetta snýst um að við sem buðum okkur fram m.a. í nafni þess að við vildum gera meira og betur fyrir Háskóla Íslands, að við stæðum við það, að stúdentar ættu skjól í okkur, þetta var eitt af aðalmálum okkar og þess vegna eigum við að standa undir þeim stóru orðum sem við sögðum, bæði ég og hv. þm. Dagný Jónsdóttir. Það þýðir ekkert að vísa í að hún sé komin í annað lið eða eitthvað slíkt, það sjá allir í gegnum það. Þetta er slíkt mál að mínu viti.

En ég treysti því og vona að stúdentar og fleiri muni muna þetta, að sjálfsögðu er ég ekki að draga hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur eingöngu ábyrga fyrir þessu. Það eru ríkisstjórnarflokkarnir sem leggja fram þetta mál og að sjálfsögðu eiga stúdentar að draga báða þá flokka til ábyrgðar. En ég geri þátt hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur meiri af þeim ástæðum sem ég minntist á, sem fyrrverandi baráttumaður og leiðtogi stúdenta. Þess vegna er ég að draga hana fram. En að sjálfsögðu er ábyrgðin hjá ríkisstjórninni og þeim stjórnarþingmönnum sem veita henni skjól og meiri hluta. En þetta er eitthvað sem ég vona að stúdentar muni, kjósendur þurfa að dæma stjórnmálamenn af verkum þeirra en ekki þeim fagurgala sem heyrist rétt fyrir kosningar.

Það hefur mikið verið rætt um forgangsröðun í skattaumræðunum sem hafa farið fram undanfarna daga. Þetta er eitt af þeim málum sem við sjáum forgangsröðunina á, við sjáum hana afskaplega vel. Ríkisstjórnin telur sig hafa svigrúm til að lækka skatta um samanlagt tæplega 40 milljarða kr. á næstu þremur árum en á sama tíma telur hún sig þurfa að fá 150 milljónir frá stúdentum. Af þessu sjáum við vel hvernig forgangsröðunin er í raun og veru.

Að mínu viti er nauðsynlegt að rifja hér aðeins upp almennt um menntamálin, því ég held að nauðsynlegt sé að skoða í stærra samhengi hvernig við lítum á menntamálin, hvernig við stöndum okkur t.d. í alþjóðlegum samanburði. Ef við skoðum bara nýjustu skýrslu OECD, nýjasta plagg OECD sem sýnir samanburð milli þjóða fyrir árið 2001, þá kemur fram þegar kemur að útgjöldum til háskólastigsins að Ísland ver helmingi lægra hlutfalli til háskólanna en önnur Norðurlönd. (Gripið fram í.) Þetta segir OECD, hv. þm. Gunnar Birgisson, þetta má sjá í þeirri skýrslu, en líka lesa um í grein ágæts prófessors við Háskóla Íslands, Einars Stefánssonar, sem birtist í Morgunblaðinu í dag sem kemur inn á sama hlut, við erum hálfdrættingar á við önnur Norðurlönd þegar kemur að útgjöldum til háskólastigsins. Það er rétt að taka fram að þetta er frá 2001.

Þarna erum við í flokki með löndum eins og Mexíkó, Slóvakíu og Tékklandi og Tyrkland er m.a.s. fyrir ofan okkur. Þá hafa stjórnarþingmenn bent á: Aha, útgjöldin til háskóla hafa aukist svo mikið síðan þessi skýrsla, eða samanburður var gerður.

Þá vitna ég í grein hæstv. menntamálaráðherra Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sem hún skrifaði 7. febrúar sl. Hún fjallar þar um aukningu á fjármagni til háskólastigsins, en hæstv. menntamálaráðherra tekur líka fram að aukningin á nemendum í háskólunum sé meiri en sem nemi aukningunni á fjármunum, þannig að sú aukning sem átti sér stað árið 2001 nær ekki einu sinni að halda í við aukningu í nemenda. Við erum því að fara aftur á bak þegar við lítum til Háskóla Íslands hvað þetta varðar. Hér eru ekki á ferðinni meðvitaðar innspýtingar fjármagns í háskólastigið.

Að sjálfsögðu geri ég mér fulla grein fyrir að aðsóknin að Háskóla Íslands og háskólastiginu hefur aukist mjög mikið og það er gríðarlega jákvæð þróun. En við þurfum að setja fjármagn til að fylgja því eftir, meira fjármagn, því að við erum eftir á fyrir árið 2001.

Það er fróðlegt að skoða þessa nýjustu skýrslu OECD, þar kemur margt annað fram. Þarna kemur fram að ef við lítum á útgjöld á nemanda frá grunnskóla til háskóla þá erum við einungis í 10. sæti. En ef við lítum síðan til opinberra útgjalda til menntamála, þ.e. sveitarfélögin og ríkið, að teknu tilliti til aldursdreifingar þjóðarinnar er Ísland einungis í 14. sæti af 28 þjóðum. 14. sæti, við erum ung þjóð og við ættum að eyða meira fjármagni í menntakerfið en ella vegna þeirrar staðreyndar, það má segja að stærri hluti þjóðarinnar sé á skólaaldri.

Það er alveg rétt sem menn hafa bent á, þetta snýst líka við þegar skoðum heilbrigðismálin. Við ættum að eyða minna fjármagni í heilbrigðismálin ef við notum þennan mælikvarða út af því að við erum yngri þjóð. Við höfum bent á þetta líka. Á þeim mælikvarða erum við því að eyða talsvert miklum fjármunum í heilbrigðiskerfið. En þetta snýst við þegar kemur að menntakerfinu.

Það er líka skynsamlegt að skoða hversu stór hluti klárar framhaldsskólapróf og háskólapróf því að hér held ég að mínu mati erum við að hækka þröskuldinn að menntuninni. Við erum að auka fórnarkostnaðinn með því að hækka skólagjöld um 40% núna og 40% árið 2001, við erum að gera fólki erfiðara fyrir að fara í nám. Höfum við efni á því? spyr ég.

En ef við lítum aftur á nýjustu skýrslu OECD-þjóða, og þetta breytist varla mjög mikið á þremur árum, en þetta er nýjasti samanburður sem við höfum frá árinu 2001, og skoðum aldursbilið 25 ára til 34 ára, sem sagt yngsta hópinn sem lýkur þessum prófum, þá hafa um 29% þjóðarinnar lokið háskólanámi, tæplega 30%. Þetta hlutfall er miklu lægra hjá okkur en hjá flestum öðrum Vestur-Evrópuþjóðum. Í Noregi og Svíþjóð er hlutfallið 39%, í Finnlandi 40%, á Írlandi og Spáni 37%, en við erum með 29%. Við þurfum því að fá fleira fólk í háskólana. Sem betur fer hefur aðsóknin aukist mjög mikið en við þurfum að mæta þeirri aðsókn með fjármunum.

Það er líka fróðlegt að skoða, ef við lítum bara á framhaldsskólann þá hafa samkvæmt nýjustu skýrslu OECD 61% af Íslendingum á aldrinum 25–34 ára lokið framhaldsskólaprófi. En þetta hlutfall hjá hinum Norðurlöndunum er 86–94%. Við erum með 61% þannig að nánast annar hver Íslendingur hefur einungis lokið grunnskólaprófi og við erum í 25. sæti af 30 OECD-þjóðum í þessum samanburði. Við sjáum því að við þurfum að lyfta grettistaki í menntamálum, við þurfum að fjölga fólki með framhaldsskólapróf, við þurfum að fjölga fólki með háskólapróf og við þurfum að láta fjármagn fylgja með.

Við sjáum það með framhaldsskólana — þeir lentu í bullandi vandræðum, þurftu að segja nei við fólk og hafna því í ákveðna skóla sem hafði þá eingöngu sem sitt fyrsta val. Þetta vita menn sem hafa haft fyrir því að heimsækja framhaldsskóla og hlusta á nemendurna. Þeir hafa sagt: Ég fékk ekki mitt fyrsta val í viðkomandi framhaldsskóla.

Þegar kemur að háskólunum þá þurfti Háskóli Íslands beinlínis að hafna fólki sem hann hafnaði ekki áður. Hér er t.d. um að ræða fólk sem hefur ekki lokið formlegu stúdentsprófi en hefur fengið inngöngu í Háskóla Íslands á þeim forsendum að reynsla þess sé samanburðarhæf við stúdentspróf, en þetta er hópur sem fékk nei núna í ár í fyrsta skipti.

Það er því eitthvað að í menntamálum, við erum að gera fólki erfiðara fyrir að klára framhaldsskólaprófið, klára háskólanám og þetta er öfugsnúið, sérstaklega í ljósi þeirra staðreynda sem koma fram í OECD-skýrslunum að við erum ómenntaðri en aðrar þjóðir. Það þýðir ekkert að hunsa þessar skýrslur þó að mönnum líki ekki hvað stendur í þeim, menn geta flett upp í þeim sjálfir ef þeir trúa þessu ekki. (Gripið fram í.) Þetta er samanburðarhæft, það er ekki hægt að benda á, hv. þm. Gunnar Birgisson, að við séum með einhverja sérstöðu, það sé ekki tekinn einhver ákveðinn hluti hjá okkur sem er tekinn hjá öðrum. OECD leggur sig fram um að hafa tölur samanburðarhæfar því að annars eru þær ekki settar fram. Það er tilgangurinn með þessum skýrslum, hv. þm. Gunnar I. Birgisson. Það þýðir ekki að gera lítið úr svona alþjóðlegum skýrslum með þeim rökum að þetta eða hitt sé ekki samanburðarhæft vegna þess að þeir taki ekki þetta inn og við tökum þetta inn, o.s.frv. Þetta er sá samanburður sem liggur fyrir og menn geta rætt hann út frá því og vonandi verið sammála um þá staðreynd að það megi gera betur, ég vona að flestir séu sammála því.

Ein af fyrstu ummælum hæstv. menntamálaráðherra Þorgerðar Katrínar þegar hún tók við embætti um síðustu áramót voru þau að Háskóli Íslands væri ekkert blankur. Þetta sagði hún í fjölmiðlum oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.

Þá langar mig að spyrja hæstv. menntamálaráðherra sömu spurningar og ég spurði við 1. umr. málsins: Af hverju er verið að auka álögur á stúdenta um 40% ef Háskóli Íslands er ekki blankur? Hver er þá tilgangurinn, ef Háskóli Íslands hefur næga fjármuni til að sinna sínum málum, þar á meðal prófgæslu, Alþjóðaskrifstofu og skráningunni? Af hverju er verið að hækka álögur á stúdenta ef Háskóli Íslands er ekkert blankur? Ég fékk ekkert svar við 1. umr. hvað þetta varðar.

Að lokum langar mig að benda á að aðsókn í nám hefur sem betur fer aukist og fjölbreytileikinn hefur aukist. Hér hafa sprottið upp menntastofnanir sem standa sig gríðarlega vel og það er jákvæð þróun. En við sem höfum fjárveitingavaldið þurfum að fylgja þessari ásókn, þessari eftirspurn eftir fjármunum því að annars eru þetta bara orðin tóm, annars er þetta bara einhver fagurgali á hátíðastundum sem við meinum ekkert með. Við þurfum að setja menntamálin í forgang og ef við lítum bara á þróunina undanfarin ár, frá 2001 til 2004, þá nægir sú aukning — ef við lítum til Háskóla Íslands — ekki fyrir þeirri nemendaaukningu sem hefur átt sér stað á sama tíma. Hér vitna ég í grein hæstv. menntamálaráðherra sjálfs, menn þurfa ekki að taka mín orð fyrir því.

Ég tel því vera mikið að í menntamálum, við þurfum að forgangsraða í þágu menntunar, sem fyrst og fremst felst í því að setja þau miklu ofar á forgangslistann í íslenskum stjórnmálum og eyða meira fjármagni í menntakerfið, því að þetta eru fjármunir sem skila sér margfalt til baka. Menntun er fjárfesting, þetta er ekki einhver klisja, það hefur margoft verið sýnt í rannsóknum að hver króna sem fer í menntakerfið skilar sér margfalt til baka.

Þess vegna skil ég ekki þessa tregðu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að því að auka fjármuni til menntamála og sérstaklega háskólastigsins. Þeir ná ekki einu sinni að halda í nemendafjölgunina. Þess vegna skil ég ekki áherslur Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í að auka álögur á stúdenta um 40% þremur árum eftir að þær voru hækkaðar um 40%, þegar fórnarkostnaður nemenda er nægur fyrir og hér á landi eru færri sem ljúka háskólaprófi en í helstu samanburðarlöndum okkar. Þetta er röng pólitík sem ég er alfarið á móti.