131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[13:50]

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Málið snýst ekki um hvað hlutirnir eiga að heita eins og hv. þm. Dagný Jónsdóttir hefur sagt í fjölmiðlum dag eftir dag, að hún sé ósátt við hvað málin heita. Hv. þingmaður kemur ekki með skoðun sína á því hvort hún líti á þetta sem skólagjöld eða þjónustugjöld, hún kemst hjá því.

Málið er kristaltært. Það snýst um auknar álögur á stúdenta og kom m.a. fram í áliti minni hluta menntamálanefndar að er ein af forsendum fjárveitingatillagna í fjárlagafrumvarpinu. Það væri mjög fróðlegt að fá einhvern tíma svar hjá hv. þingmanni um að ef fram kæmi tillaga um að stórauka skólagjöld á stúdenta en sú aukning mundi ekki dragast frá ríkisfjárframlaginu hvort hún mundi samkvæmt sömu röksemdafærslu og hv. þingmaður bauð þingheimi upp á styðja það, því að sú aukning væri raunaukning háskólans, reyndar á kostnað stúdenta en það virðist ekki skipta hv. þingmann neinu máli.

Eitt kom líka fram í andsvari hv. þingmanns að hún er ósátt við forsendur frumvarpsins. Af hverju var þá ekki málið unnið betur? Af hverju var ekki farið betur í forsendurnar? Af hverju láta menn bjóða sér að segja að aðgangur að bókasafni og lesaðstöðu sé hluti af skráningu eða alþjóðaskrifstofan og stofnanir stúdenta séu hluti af skráningu? Af hverju beitti hv. þm. Dagný Jónsdóttir sér ekki fyrir því að málið yrði unnið betur í nefndinni? Hv. þingmaður er oddamaður í nefndinni. Það eru fimm þingmenn ríkisstjórnarinnar og fjórir stjórnarandstöðuþingmenn í nefndinni þannig að hv. þingmaður hafði valdið í höndum sínum þegar kom að því að vinna málið eða jafnvel stoppa það.

En hv. þingmaður kaus að nýta það ekki og til að bíta höfuðið af skömminni treysti hún sér ekki einu sinni til að segja nei við þessu grundvallaratriði sem er núna að særa stúdenta fram þar sem þeir mótmæla hatrammlega þeim auknu álögum sem eru lagðar á þá ár eftir ár.