131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[15:11]

Frsm. minni hluta menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er erfitt að sætta sig við að nú sjái fyrir endann á 3. umr. um upptöku skólagjalda í grunnnámi ríkisháskólanna á Íslandi, 40% skattahækkun á stúdenta og þar með hreina skólagjaldatöku af nemendum án þess að hæstv. menntamálaráðherra hafi svo mikið sem látið sjá sig í þingsölum eftir að 1. umr. sleppti. 1. umr. þar sem frumdrög máls voru reifuð. Síðan þá hefur farið fram ítarleg vinna í menntamálanefnd og mikil umræða í þingsölum bæði við 2. og 3. umr. málsins. Því vil ég beina því til hæstv. forseta að hún beiti sér fyrir því að hæstv. menntamálaráðherra verði beðin um að koma og taka þátt í þeirri umræðu sem eftir lifir. Hér eiga eftir að tala samkvæmt mælendaskrá hv. þm. Gunnar Birgisson, formaður menntamálanefndar, og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingar. Það er því töluvert eftir af umræðunni og hver veit hvaða lífi þeir munu hleypa í hana. Hún gæti staðið eitthvað fram eftir degi og aldrei að vita með það.

Ég vil biðja forsetann að beita sér fyrir því að sá stjórnmálamaður sem ber ábyrgð á því að verið er að innleiða skólagjöld í ríkisháskólana á Íslandi, hæstv. menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, verði beðin um að koma í þingsalinn, taka þátt í umræðunni og gera grein fyrir afstöðu sinni, gera grein fyrir því hvaða ástæður búa að baki því að umræðulaust sé svo blauðlega staðið að málum að verið sé að innleiða skólagjöld í grunnnám í ríkisháskólana þrjá án þess að um það hafi farið fram heildstæð umræða þar sem kostir og gallar skólagjalda eru dregnir fram, gerð sé grein fyrir því hvernig tryggja eigi áfram jafnrétti til náms því það óhæfuverk sem verið er að vinna á íslenska skólakerfinu mun hafa alvarlegar afleiðingar og hæstv. menntamálaráðherra getur ekki þagað þær af sér. Henni ber skylda til að mæta í þingsali, standa undir ábyrgð sinni, gera grein fyrir afstöðu sinni, gera grein fyrir því hvað olli því og hvað veldur því að það skref sé stigið í dag, það stóra skref í þá átt að há skólagjöld séu innheimt við ríkisháskólana íslensku. Auk þess, eins og margoft hefur verið bent á, er verið að einkavæða eina grunnnámsgrein á háskólastigi, tæknifræðina, án þess að nokkur umræða hafi farið fram um það að Lánasjóður íslenskra námsmanna eigi hér eftir að standa að verulegu leyti undir kostnaði við þá námsgrein í grunnnámi á háskólastigi, eina umfram aðrar.

Því skora ég á hæstv. forseta að beita alefli sínu til þess að hæstv. ráðherra verði við umræðuna og standi undir ábyrgð sinni en velti henni ekki eingöngu yfir á aðra félaga sína í stjórnarmeirihlutanum.

(Forseti (JBjart): Forseti hefur þegar gert ráðstafanir til að koma ósk hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar til hæstv. menntamálaráðherra.)