131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[15:14]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Gunnar Birgisson) (S):

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða skrásetningargjöld í ríkisháskólunum. Það er búið að fara yfir þessa umræðu fram og til baka, við höfum fengið rökstuðning bæði frá háskólunum, rektorunum, og frá stúdentunum þannig að þetta liggur allt ljóst fyrir. Fólk er bara ekki sammála. Það er náttúrlega skiljanlegt að stúdentar séu á móti hækkunum, það er alveg eðlilegt, og eðlilegt að hinir vilji fá meira í kassann. Það er líka eðlilegt að menn deili um hvað er kennslukostnaður og hvað er þjónusta við stúdenta og allt það, þetta er allt eðlilegt. (Gripið fram í: … menntamálaráðherra … flótta í málinu.) (Gripið fram í.)

Ég ætla að fara hérna yfir nokkur atriði varðandi hv. þm. Mörð Árnason. Í minnihlutaáliti hv. menntamálanefndar fara þeir sem undir það skrifa, hv. þm. Björgvin Sigurðsson, Kolbrún Halldórsdóttir og Mörður Árnason, með rangt mál. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Starfsmaður menntamálaráðherra, Valur Árnason, kom á fund menntamálanefndar. Hann sagði þá m.a. að hækkun gjaldsins væri ein af forsendum fjárveitingartillagna í fjárlagafrumvarpinu.“

Þetta er alrangt, hann sagði það ekki. Hann sagði að aukningin af skrásetningargjaldinu mundi renna óskipt til skólanna þannig að það er bara eins og að hv. þingmenn hagræði hér sannleikanum hvað eftir annað. Svona á náttúrlega ekki að líðast.

Síðan kemur að ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar þar sem hann kvartar mjög yfir starfi menntamálanefndar og minni stjórnun á henni. Það kann vel að vera að hann sé ekki ánægður með hana. Ég ætla rétt að fara yfir nokkur atriði og kannski byrja á málinu sem var rætt hér, heimsókn rektoranna til menntamálanefndar á þriðjudaginn þar sem framkoma fulltrúa Samfylkingarinnar tók langt út yfir allan þjófabálk í ókurteisi gagnvart gestum nefndarinnar, sérstaklega hv. þm. Marðar Árnasonar. Hann var sjálfum sér til skammar og þinginu líka með það hvernig hann hagaði orðum sínum gagnvart gestunum.

Í framhaldi af þessu var fundur í nefndinni í morgun þar sem beðið var um að fá gesti í nefndina. Þessi fundur hefði verið haldinn í gær ef annar gesturinn hefði komist þá en hann komst ekki. Þá sagði ég við hv. þingmann að ef slík framkoma og ókurteisi kæmi aftur upp í nefndinni mundi ég slíta fundi. Ég hafði orð á því við hæstv. forseta þingsins að svona gengi þetta ekki og á eftir að ræða við formann Samfylkingarinnar um þetta mál líka. Svona ganga málin ekki fyrir sig hérna í þinginu, ekki með svona ruddahætti, virðulegi forseti. Það er lágmarkskrafa að þeir sem setjast inn á Alþingi kunni almenna mannasiði en svo er greinilega ekki í þessu tilfelli hér. Og ég get beitt mér fyrir því við forseta, ef hv. þingmaður vill, að honum standi til boða að fara á námskeið í slíku.

Það voru ásakanir um að menntamálanefnd væri afgreiðslunefnd fyrir framkvæmdarvaldið. Auðvitað eru nefndirnar afgreiðslunefndir fyrir þingmál ríkisstjórnarinnar, það er alveg ljóst, og þær eru líka fyrir þingmennina. Ég man ekki betur en að á vorþingi hafi ég afgreitt eitt þingmannamál frá hv. þingmanni. Auðvitað snýst þetta um meiri hluta og minni hluta, sérstaklega þegar kemur að svona málum. Stjórnarandstaðan er á móti, það er bara skiljanlegt og ekkert að því.

Þessi mál sem við vorum að ræða um, sem sagt Lánasjóður íslenskra námsmanna og skrásetningargjöld í ríkisháskólunum, höfðum við afar stuttan tíma til að fara með í gegnum nefndina ef við ætlum að ljúka þinginu á þessum degi. Ég hef ekki neitað hv. þingmanni um ein eða nein gögn í málinu, alls ekki. Þau gögn sem hann bað um eru á netinu og fáanleg þar.

Hann kvartaði undan afgreiðslu á heiðurslaunum listamanna. Ég fór í atkvæðaskýringu hér en það er bara svo að lýðræði hv. þingmanns er þannig að ef hann ræður er það lýðræði, ef hann ræður ekki eru allir ómögulegir og formaðurinn verstur.

Hv. þingmaður talaði um að taka vinnuna í menntamálanefnd inn í þingsalinn. Það er allt í lagi mín vegna. Við munum reyna að vinna áfram í nefndinni eins og við höfum gert og ég kannast ekki við eina eða neina kúgun meiri hlutans yfir minni hlutanum í þessu máli.

Það er svo sem nóg komið að sinni í þessu en í nefndum þingsins gagnvart gestum finnst mér almennt að við megum aðeins líta öll í eigin barm og sýna gestunum okkar kurteisi. Þótt við séum ekki sammála þeim þurfum við ekki að viðhafa dónaskap gagnvart gestunum.