131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[15:23]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Gunnar Birgisson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi rökstuðninginn fyrir þessum skrásetningargjöldum voru rökin góð, bæði sem voru með og á móti, og voru mjög skýr. Það kom fram í máli fulltrúa frá Háskóla íslands að þau væru of lág, þetta væru ársgamlir útreikningar. Þetta voru sömu skrásetningargjöld fyrir alla skólana, 32.500 kr., og það var ákveðið að hækka á þá alla jafnt að þeirra ósk.

Ég sit í nokkrum nefndum þingsins og sé lítinn mun á starfsháttum menntamálanefndar og annarra nefnda. Ég er búinn að vera æðilengi í félagsmálum og hef verið í nefndum og öðru slíku án þess að fá svona gagnrýni á mig. Ég er bara að vinna í mínum málum en endurtek boð mitt til hv. þingmanns um þetta úrræði sem ég nefndi áðan.