131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:11]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þessi ræða hæstv. menntamálaráðherra, sem er nú ein hin merkilegasta sem ég hef heyrt ráðherra flytja á þessu ári, skýrir allt. Hæstv. ráðherra er ánægð með stöðuna eins og hún er núna. Hún er ánægð með niðurstöður PISA-könnunarinnar. Hún er ánægð með stöðuna í háskólamálunum. Við getum bara dregið saman í eitt orð kjarnann í máli hæstv. ráðherra, en það er sorglegur kjarni: Metnaðarleysi.

Hæstv. ráðherra kemur hingað og vandar um við okkur sem erum foreldrar dætra og spyr hvern fjandann við viljum upp á dekk eftir niðurstöðu PISA-könnunarinnar. Hvers eiga þá foreldrar drengja að gjalda? Ég spyr hæstv. ráðherra: Er það sérstakt fagnaðarefni að Íslendingar skuli hafa tapað getu í lestri t.d. í alþjóðlegum könnunum? Það finnst hæstv. ráðherra.

Varðandi spurninguna til hennar um skólagjöldin þá liggur það bara fyrir að hún hefur enga stefnu um skólagjöld. Það á að ræða um það seinna. (Forseti hringir.) En það var fyrsta málið sem átti að ræða samkvæmt viðtalinu mikla í Fréttablaðinu.