131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:14]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Bara orðbragð hæstv. ráðherra segir allt um það viðhorf og ástand sem bersýnilega ríkir hjá hæstv. ráðherra til málaflokksins sem henni er trúað fyrir.

Ég talaði ekki um það að ekki mætti ræða þann kynjamun sem kom fram í PISA-könnuninni. Þvert á móti undraðist ég að hæstv. ráðherra skyldi lýsa yfir þessari miklu ánægju með niðurstöðu PISA-könnunarinnar einmitt vegna þess að kynjamunurinn er áhyggjuefni. Hann sýnir að eitthvað er að í þessum efnum.

Frú forseti. Hér eru skrásetningargjöldin undir. Námsmenn eiga að greiða 45 þús. kr. í skrásetningargjöld. Þeir fá ekki lánað fyrir því. En ef hæstv. ráðherra gengi bara hreint til verks og segði að þetta væru skólagjöld, eins og þetta auðvitað er, þá mundu námsmenn fá lánað fyrir því. Þá mundi námsmannamassinn fá lán sem svaraði til þessara 140 millj. kr. og það skiptir máli. En námsmenn eru að gjalda fyrir það að ráðherrann er stefnulaus varðandi þennan mikilvæga þátt málaflokksins.