131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:18]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Það er ámælisvert að setningin skuli vera með þeim hætti sem hún er hér í upphafi athugasemdanna við lagafrumvarpið þegar skilningurinn er greinilega allur annar. Fyrir það ber að gagnrýna hæstv. ráðherra.

Hæstv. forseti. Mér þykir miður að hæstv. ráðherra skuli hafa misst af ræðu minni fyrr í dag en hún segir í ræðu sinni — ég kom inn á ákveðna þætti sem hún var að ræða um í ræðu sinni — að fjárframlög hafi aukist umtalsvert til háskólanna, um 54% frá árinu 2000. Sannleikurinn er sá að fjármunir til háskólanna hafa ekki aukist í réttu hlutfalli við nemendafjölda þeirra. Þegar ákveðið var á háskólaráðsfundi 25. mars að fela rektor að taka málið upp við menntamálaráðherra, þ.e. þessi fjármál háskólanna, og fara þess eindregið á leit að hætt verði að draga skrásetningargjaldið frá fjárveitingu til háskólans á fjárlögum segist hann bara hafa haft upp úr krafsinu hækkun á skrásetningargjöldunum.