131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:23]

Frsm. minni hluta menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Lítið kom frá hæstv. ráðherra annað en skætingur í allar áttir. Ég spurði hana einnar einfaldrar spurningar: Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að lánað verði fyrir þessum skólagjöldum í ríkisháskólunum þremur líkt og skólagjöldum í aðra skóla og væntanlega skólagjöldum í væntanlegan sameinaðan háskóla Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík þar sem er verið að leggja af á vegum ríkisins nám í tæknifræðum og færa þangað einungis gegn gjaldi? Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að það verði lánað fyrir þessum skólagjöldum? Svo einföld var þessi spurning þó að hæstv. ráðherra kysi greinilega að heyra hana ekki og tala um allt annað.

Ég spurði hana einnig annarrar einfaldrar spurningar sem hún getur svarað með jái eða neii. Mun hún beita sér fyrir því að ríkisháskólarnir þrír fái þá fjármuni sem upp á vantar þannig að þeir geti staðið undir rekstri sínum og þurfi ekki að beita fyrir sig botnlausum frávísunum í stórum stíl til að geta starfað eðlilega?