131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:24]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Síðan var það ein spurning í viðbót sem ég náði því miður ekki að svara í mínu fyrra andsvari en hún tengist umræðunni um skólagjöldin og hvort við ætlum að fara út í umræðu um kosti og galla skólagjalda. Mig minnir að sú spurning hafi líka komið upp í hinu fyrra andsvari.

Að sjálfsögðu mun ég beita mér fyrir því. Sér í lagi eru þetta í rauninni afar spennandi tímar fram undan. Ef þeir hv. þingmenn sem hafa, a.m.k. í orði, mikinn áhuga á háskólamálum hafa verið á þeim fjölmörgu málþingum sem háskólarnir, í gær Háskóli Íslands og Félag prófessora í fyrradag, Kennaraháskóli Íslands, (Gripið fram í.) þar sem menn eru einmitt að ræða hvaða leiðir beri að fara við stjórnun háskóla, (Gripið fram í.) þá sér í lagi opinberra háskóla, vita þeir að það er einmitt kjarninn í öllu þessu máli. Þegar við ræðum skólagjöld og framtíð háskólanna verðum við að reyna að gera það á málefnalegan hátt. Ég efast um að það sé hægt í þessum sal með þessa ágætu þingmenn mér á vinstri hönd.