131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:28]

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Herra forseti. Ég ætla hér í stuttu máli að gera grein fyrir afstöðu minni til þessara þriggja mála sem eru til umræðu nú um hækkun á skráningargjöldum við þrjá háskóla í eigu ríkisins.

Þetta mál er ekki nýtt af nálinni og hefur verið svo lengi í þingsölum sem ég hef setið hér. Ég minnist þess fyrst árið 1993 að hér voru harðar deilur um það mál eins og hér voru rifjaðar upp fyrr í umræðunni, á milli þáverandi stjórnarflokka, Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Þær deilur voru reyndar það harðar að málið var strand um tíma vegna þess að það komst ekki í gegnum þingflokk Alþýðuflokksins. Fjarverandi var einn ráðherra Alþýðuflokksins og hafði varamann sem breytti stöðunni innan þingflokksins þannig að málið var stopp um tíma þar til hlutföllin höfðu breyst aftur, ráðherra tekið sæti á þingi og varamaðurinn horfinn aftur til síns heima.

Það nefni ég nú bara til marks um að málið hefur alla tíð verið mjög umdeilt og breytingin sem er gerð á þeim tíma var auðvitað sú að breyta dálítið um eðli á því gjaldi sem menn höfðu lengi innheimt og lengi hafði verið við lýði og kallað var innritunargjald eða skrásetningargjald. Þarna voru menn að gera gat, stækka rifuna sem hafði verið, hækka gjaldið meira en nam eðlilegum verðlagsbreytingum og láta gjaldið standa undir stærri kostnaði og öðrum þáttum en áður hafði verið.

Önnur rimma var um málið árið 2001 og þá voru líka töluverð átök um það milli þáverandi og núverandi stjórnarflokka. Ég kom að málinu á þeim tíma og stóð að þeirri niðurstöðu sem þá varð. Þá varð hækkunin minni en áform voru um og dregið var úr tölunni og hún lækkuð niður í það sem menn þekkja, 32.500, með þeirri formúleringu að ekki væri verið að stækka rifuna enn frekar í átt til skólagjalda og menn gátu reiknað út að hækkunin var innan verðlagsbreytinga frá fyrri tíð. Ég ætla því ekki að standa gegn þeim frumvörpum sem eru hér vegna þess að ég hef átt aðild að málinu og tekið þátt í málamiðlunum um það og ætla að standa við þær af minni hálfu, er tilbúinn að standa að þessu máli að svo miklu leyti sem það er í samræmi við þá niðurstöðu sem varð árið 2001.

Hins vegar er það svo núna að hækkunin er meiri en nemur verðlagsbreytingum frá 2001. Þess vegna ætla ég ekki að standa að henni vegna þess að hækkunin gerir það að verkum að hún sýnir inn í þann heim, inn í þá vegferð sem menn eru í raun og veru að fara, vitandi eða óafvitandi. Menn eru stöðugt að stækka rifuna á þeirri vörn sem menn hafa dregið utan um ríkisháskólana og reynt að verja þá fyrir því að tekin verði upp almenn skólagjöld. Með því að hækka gjaldið nú töluvert meira en sem nemur verðlagsbreytingum er verið að víkka þetta gat og færa í raun fleiri kostnaðarliði undir það gjald og ég ætla ekki að standa að því svo það liggi alveg ljóst fyrir.

Ég er ekki tilbúinn til að ganga lengra á þeirri vegferð, að taka upp almenn skólagjöld í háskólum á Íslandi eftir þeirri vegferð. Menn eiga þá, eins og hæstv. menntamálaráðherra sagði réttilega áðan, að taka umræðuna um skólagjöld undir réttum og eðlilegum formerkjum en ekki þeim að menn séu að hækka skráningargjöld eða innritunargjöld reglulega langt umfram verðlagsbreytingar og stækka þann hlut sem þær tekjur standa undir af rekstrarkostnaði skólanna og ekki með því að leggja niður ríkisháskóla og breyta þeim í einkaháskóla og taka upp skólagjald að námi með þeim hætti því að það er líka skólagjaldavæðing í menntakerfinu. Þess vegna stend ég heldur ekki að frumvarpinu um afnám laga um Tækniháskóla Íslands. (Gripið fram í: Þá áttu að segja nei.) Það kemur í ljós, hv. þingmaður, hvað ég segi við því frumvarpi þegar þar að kemur. En ég er búinn að útskýra afstöðu mína í þessu máli um skráningargjöld og innritunargjöld og ég vænti þess að það sé gert með þeim hætti að menn átti sig á því og skilji rökin á bak við það hvers vegna niðurstaða mín er sú að standa ekki að þessari hækkun af því að hún er umfram þær verðlagsbreytingar sem orðið hafa síðan 2001.

Ég vil, virðulegi forseti, í raun bara vara við því að menn reki áfram menntapólitík á Íslandi og umræðu um menntamál á þessum forsendum því við erum í raun að takast á við það að hve miklu leyti eða hvort við ætlum að taka upp skólagjöld í grunnnámi í háskólum á Íslandi. Umræðan snýst um það og ekkert annað hvort sem við erum að tala um þetta þingmál eða afnám laga um Tækniháskóla Íslands. Því eigum við að taka þá umræðu á réttum forsendum og fara í gegnum það mál.

Ég er andvígur því að taka upp skólagjöld, ég segi það bara alveg eins og er, en það þýðir ekki endilega að menn geti ekki farið í umræðuna vegna þess að fyrirframniðurstaða sé gefin. Ég áskil mér allan rétt til þess í umræðu um málið að hafa aðra skoðun að lokum en ég hef í dag. En mér finnst menn ekki geta breytt stefnunni hægt og bítandi án þess beinlínis að takast á við hina pólitísku umræðu sem felst í raun í málinu. Það hljóta allir að átta sig á því að það er gjörólíkt að takast á við umræðu um skólagjöld í umhverfi þar sem stærstur hluti nemenda er í skólum sem ekki taka skólagjöld eða aðstæður þar sem t.d. meiri hluti nemenda er kominn í háskóla þar sem tekin eru skólagjöld. Það gefur augaleið að þeir sem tala fyrir skólagjöldum geta gert sér miklu betri vonir um að niðurstaðan úr þeirri pólitísku umræðu verði þeim að skapi þegar búið er að breyta svo og svo stórum hluta af háskólamenntuninni yfir í menntun sem skólagjöld eru tekin fyrir. Mér finnst því ekki eðlilegt að fara þannig í hlutina, virðulegi forseti, eins og menn eru að gera hér. Þess vegna stend ég ekki að því, ég stend ekki að þessari vegferð. Hún er ekki í samræmi við skoðanir mínar, hún er ekki í samræmi við skoðanir míns flokks eða samþykktir míns flokks og þess vegna finnst mér ekki eðlilegt að dragast áfram stig af stigi á vegferð eins og verið er að tosa menn áfram hér.

Það er augljóst mál að það er heilmikið til í þeim rökum sem hér hafa komið fram að eftir tvö ár hækki þetta gjald upp í 80 eða 90 þúsund. Hvenær ætla menn þá að stíga næsta skref sem verður væntanlega að gera það lánshæft?

Þau rök hafa komið fram að það skipti máli hvernig tekjunum yrði varið sem kæmu inn af þessum gjöldum og að fram til þessa hefði það verið þannig að tekjur af skólagjöldum sem rynnu til skólanna væru dregnar frá öðrum fjárveitingum til skólanna, frá hlut ríkisins. Mér finnst það í raun ekki skipta miklu máli nema kannski því að eðli gjaldsins er ekki alveg það sama. Ef það er svo að tekjur af innritunargjöldum eru dregnar frá framlögum ríkisins virka innritunargjöldin í raun og veru nákvæmlega eins og skattur, þá eru þau bara eins og hvert annað skattfé til ríkissjóðs. Ef tekjurnar renna hins vegar til skólanna til viðbótar við framlög ríkisins þannig að ríkisframlagið er ekkert lækkað þrátt fyrir að skólinn hafi auknar tekjur af gjöldunum þá eru þetta í raun og veru bara skólagjöld og í mínum huga er það hið sama, ég geri ekki greinarmun á því. Þetta er í raun og veru það sama fyrir þann sem greiðir, fyrir nemandann, þetta eru gjöld og hluti hans af því að kosta það nám sem hann stundar og því er afstaða mín sú sama til þess hvort um er að ræða skattheimtu eða skólagjöld í þessum skilningi þannig að þau rök duga ekki til að breyta afstöðu minni í málinu, virðulegi forseti.

Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um þetta, ég held að ég hafi komið því skýrt á framfæri hver afstaða mín er í þessum málum og vil bara leggja áherslu á það að menn ræði skólagjaldaumræðuna á réttum forsendum. Hún er ekki í samræmi við skoðanir mínar, hún er ekki í samræmi við samþykktir flokksins og hún er heldur ekki í stjórnarsáttmálanum. Ég hef því ekki skuldbundið mig til að standa að því að taka upp skólagjöld með beinum eða óbeinum hætti þannig að ég legg auðvitað áherslu á að þingmenn eigi ekki að láta handjárna sig umfram það sem þeir undirgangast sjálfir af fúsum og frjálsum vilja. Ég hef gengist undir stjórnarsáttmálann og stend við það sem í honum er en þetta er ekki að finna í honum og ég hef engar yfirlýsingar eða skuldbindingar gefið um stuðning við að taka upp skólagjöld. Mér finnst út af fyrir sig mikils um vert að spila í liði en er ekki betra að spila í því liði sem stendur að þeim samþykktum sem maður starfar eftir fremur en að starfa með einhverju öðru liði?