131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:46]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, lífið er nú einu sinni þannig að maður þarf að gera margt sem er ekki í manns eigin þágu. Þannig er það og oft ganga stjórnmálin út á einmitt þessa hluti.

Ég held að við verðum að reyna að stíga aðeins út úr því fari sem við erum búin að vera í varðandi málið sem hv. þingmaður kom inn á. Við erum með ákveðið fyrirkomulag í gangi. Við erum með kennslusamning við Háskóla Íslands, svo við tökum hann sem dæmi. Við erum með rannsóknarsamning við Háskóla Íslands og algjörlega skilgreindir þættir sem falla innan ramma þess samnings. Síðan eru önnur tilvik sem leiða til útgjalda fyrir Háskóla Íslands og þeir þættir eru ekki í þeim samningi. Þá þætti höfum við viðurkennt með ákveðnu formi sem heitir skrásetningargjald, innritunargjald, þannig hafa menn viðurkennt kerfið. Við búum við þetta kerfi í dag og eftir því verðum við að vinna.

Þess vegna segi ég að ef við tökum upp — og við munum gera það — háskólamálin í stærra samhengi, m.a. með umræðu um skólagjöld verður að sjálfsögðu allt kerfið endurskoðað. En meðan fyrirkomulagið er þannig að við erum með kennslusamning, rannsóknarsamning og ákveðna skilgreinda þætti sem báðir aðilar hafa samþykkt sem falla undir rannsóknarsamningana eru líka fyrir utan þá samninga ákveðnir þættir og ákveðin tilvik sem háskólinn leggur út fyrir og þarf að standa undir sem þjónustustofnun við nemendur. Þannig er málið. Við verðum einfaldlega að horfast í augu við það að háskólarnir standa frammi fyrir ákveðnum útgjöldum og að sjálfsögðu er óeðlilegt að þeir taki þá fjármuni af kennslu- eða rannsóknarsamningum.