131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:57]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get fagnað því með hæstv. ráðherra að það skuli vera yfirstandandi stjórnsýsluúttekt á Háskóla Íslands og verður forvitnilegt að fylgjast með því hvað kemur út úr henni. Það þarf samt sem áður ekki stjórnsýsluúttekt frá Ríkisendurskoðun til þess að sjá hvernig Háskóli Íslands er staddur fjárhagslega. Það er nóg að hlusta á þær raddir sem ég hef vitnað til í ræðum mínum í dag og nú síðast rétt áðan í orð forseta raunvísindadeildar Háskóla Íslands. Ég sé því ekki að stjórnsýsluúttektin sé alfa og omega í því máli að sjá hvernig háskólinn er staddur fjárhagslega.

Hæstv. menntamálaráðherra klifar á því að fjárveitingar til háskólastigsins hafi verið hækkaðar. Það er alveg rétt, enginn í þessum sal hefur borið á móti því en þær hækkanir hafa ekki komið í hlut opinberu háskólanna til jafns við aðra háskóla í landinu, það er bara þannig. Opinberu háskólarnir hafa því ekki notið þess velvilja sem mér fyndist eðlilegt að þeir nytu af hálfu stjórnvaldanna.

Í lok andsvars míns vil ég ítreka það sem ég sagði við 2. umr. málsins, ég vil vitna til orða hæstv. fyrrv. menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Ólafs G. Einarssonar, sem sagði aðspurður um skoðun sína á innheimtu þjónustugjaldanna á Alþingi 11. september 1992 að kjarni málsins væri sá að þjónustugjöldin væru lögð á til þess að mæta skertum framlögum ríkisins þannig að sem minnst þyrfti að draga úr þjónustu.

Nákvæmlega sama er upp á teningnum í dag. Skráningargjöld eru hækkuð til að mæta skertum fjárframlögum ríkisins til háskólanna.