131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[17:02]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég hef fullan skilning á því að hæstv. menntamálaráðherra þurfi að fara núna. Mér skilst að hún hafi erindum að sinna og verður hún ekki gagnrýnd fyrir það. Það breytir því ekki að ég tel að hæstv. menntamálaráðherra hefði átt að vera við alla umræðuna frá því í morgun. Um er að ræða mikilvægt mál í málaflokki hennar og þótt það sé að forminu þannig að við 2. og 3. umr. standi framsögumenn nefndanna fyrir svörum þá hefur þessi umræða ekki haft réttan hljómbotn þar sem hæstv. menntamálaráðherra vantaði. Umræðan tók kipp þegar hæstv. menntamálaráðherra mætti en bar þó nokkurn keim þess að ráðherrann hefði ekki hlýtt á ræður þeirra sem áður höfðu talað.

Menntamálaráðherra kom þó af hálfu ríkisstjórnarinnar með nýja hluti fyrir utan fráneyga sýn um allt menntakerfið og hinn mikla bata þess undanfarin ár sem við fengum að heyra um í 25. skiptið eða svo á tiltölulega skömmum tíma, nokkrum vikum. Menntamálaráðherra svarar yfirleitt með þeirri ræðu. En þegar menntamálaráðherra skýrir út fyrir okkur að við háskóla séu gerðir tvenns konar samningar, rannsóknarsamningar og kennslusamningar, og síðan sé þriðji samningurinn leyfi sem Alþingi á að veita háskólunum til að innheimta skráningargjöld þá er það út af fyrir sig fögur mynd. Það er að sjálfsögðu jákvætt skref sem hefur verið stigið síðan í árdaga, að hafa rannsóknarsamninga og kennslusamninga við háskólana.

Það hefur hins vegar gerst hjá hæstv. menntamálaráðherra og forverum hennar nokkrum að kennslusamningurinn dugir ekki og rannsóknarsamningurinn dugir ekki fyrir því sem hann á að gera. Það er hægt að skera niður að einhverju leyti rannsóknir en það er erfitt að skera niður hið venjulega starf háskólans nema vísa nemendum frá. Það hefur Háskóli Íslands að vísu gert í nokkrum mæli. Hann kemst upp með það á einum stað. En þetta er þjóðskóli og menn eiga að komast inn í þennan skóla og hafa heimtingu á því. En skólinn kemst upp með takmarkanir á einum stað og hefur notfært sér það af nokkurri grimmd. Manni kann að finnast það eðlilegt vegna þess að það er eini möguleikinn til þess að spara en grimmdin kemur fram í því sem snýr að fólki sem ekki hefur stúdentspróf, hópi sem við erum að öðru leyti sammála um, eða höfum verið í orði, að hjálpa til frekara náms, gefa annað tækifæri til að afla sér menntunar á háskólastigi. Sá hópur hefur verið útilokaður.

Hinn möguleikinn er sá, eins og saga þessa máls hefur sýnt, að rukka meira af stúdentum. Það er ósköp einfaldlega það sem hér hefur gerst, að þar sem samningum ríkisins við háskólana sleppir í niðurstöðutölum fjárlaga hefur skólunum að þessu sinni verið leyft að rukka heldur meira af stúdentum, 140 millj. kr. samtals. Því miður svaraði hæstv. menntamálaráðherra ekki spurningu minni um hvaðan stúdentar ættu að taka þessa peninga. Hún kaus að svara því ekki, vegna þess að hún vissi að í því felst hið eitraða peð sem menntamálaráðherra sjálf hefur leikið fram, að ekki er hægt að taka lán fyrir þeirri upphæð. Stúdentar þurfa því að greiða þennan nýja skatt af því ráðstöfunarfé sem þeir hafa.

Ég tek eftir því, forseti, að í salnum er hafinn annar þingfundur. Það eru hv. þingmenn í suðvesturhluta salarins sem til hans hafa stofnað og ég tel rétt að sá þingfundur haldi áfram í friði og ró og lýk máli mínu.