131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

330. mál
[17:23]

Frsm. menntmn. (Gunnar Birgisson) (S):

Virðulegi forseti. Hérna er verið að afgreiða enn eitt gott mál á þessu haustþingi, breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, þ.e. lækkun endurgreiðsluhlutfalls. Fleiri góð atriði eru í þessu frumvarpi. Ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir jákvæð viðbrögð við þessu. Þetta þýða aukin útgjöld fyrir ríkissjóð um a.m.k. 300 milljónir kr. og verulega kjarabót fyrir námsmenn sem greiða af lánum sínum. Þetta er eitt af þessum góðu málum sem ríkisstjórnin er að koma með á þessu haustþingi enn og aftur og er góð jólagjöf til námsmanna og þeirra sem hafa lokið námi. (Gripið fram í.)