131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Úrvinnslugjald.

394. mál
[17:45]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er afskaplega ánægjulegt mál. Hér erum við að lækka úrvinnslugjöld um 125 millj. kr. hvorki meira né minna. Við erum á sama hátt að hækka skilagjald til bifreiða þannig að þeir sem skila sinni bifreið inn til endurnýtingar, virðulegi forseti, fá núna um 50% meira en þeir höfðu fyrir gildistöku laganna.

Á sama hátt erum við hér að taka inn eldri bíla en áður, taka allt að 25 ára bíla en ekki einungis upp að 15 ára aldri og er það að sönnu líka til bóta þannig að hér er um mjög gott mál að ræða. Ég efast ekki um að sumir hv. þingmenn hljóti að fagna þessu eða allur þingheimur. En kannski hljóta sumir sérstaklega að fagna því að hér erum við enn og aftur að lækka gjöld.