131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[18:05]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Enn á ný kemur þetta mál til umræðu hér og ekki í fyrsta skipti og mér finnst miður til þess að vita að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hugsa aðallega um fortíðina í þessu máli. Þeir virðast eiga afskaplega erfitt með að horfa til framtíðar og horfa til þess hvað nú er að gerast í Írak og hvernig við getum best stutt við bakið á því fólki sem þar er að berjast fyrir lýðræði og framtíð sinni.

Í þessari umræðu hafa menn fyrst og fremst viljað ræða um aðdraganda þess að Ísland lýsti yfir pólitískum stuðningi við það að koma Saddam Hussein frá völdum og menn hafa talað hér oft og tíðum með þeim hætti að þetta hafi lítið sem ekkert verið rætt á Alþingi. Ég vil minna á að síðast var málið rætt á hv. Alþingi þann 12. mars og ef ég man rétt var fundum Alþingis frestað vegna alþingiskosninga eða slitið þann 14. mars. Það vill svo til að þá var tekin sú ákvörðun í hv. utanríkismálanefnd að tillaga til þingsályktunar frá þingmönnum Vinstri grænna ,,um að ríkisstjórnin beiti sér gegn áformum um innrás í Írak og að Ísland standi utan við hvers kyns hernaðaraðgerðir gegn Írak“ var felld í utanríkismálanefnd eða hún kom ekki til afgreiðslu þingsins, en umræður um málið voru á Alþingi þann sama dag og vil ég vitna í það sem ég sagði m.a. þá sem þáverandi utanríkisráðherra, með leyfi forseta:

„Nú liggur fyrir að meiri hluti þingsins útilokar það ekki að valdi verði beitt í þessum málum. … En það liggur alveg ljóst fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar að það er ekki hægt að ná friði og friðsamlegri lausn varðandi Írak nema að baki liggi alvarleg hótun. Það er í þessu andrúmslofti sem reyna verður að ná friðsamlegri lausn í þessu máli.“

Þetta tókst því miður ekki og það tókst ekki að ná niðurstöðu í öryggisráðinu, fyrst og fremst vegna þess að Frakkland sagði sem svo að þeir mundu beita neitunarvaldi í öllum málum sem þetta varðaði og voru ekki tilbúnir til neins konar málamiðlunar í málinu. Þetta var staða málsins.

Nú liggur ljóst fyrir að í þessari stöðu höfðu bandarísk stjórnvöld samband við Ísland og margar aðrar þjóðir. Við ákváðum að lýsa yfir pólitískum stuðningi í þessu máli sem ég ætla að koma að síðar.

Að morgni þriðjudagsins 18. mars var ríkisstjórnarfundur og þetta mál var fyrsta mál á dagskrá og var rætt á þeim fundi. Sá fundur var undir stjórn minni vegna veikinda þáverandi forsætisráðherra. Þessi fundur varð til þess að ákveðið var að styðja nauðsynlegar aðgerðir undir forustu Bandaríkjanna og Bretlands um að afvopna Saddam Hussein og sendiherra Bandaríkjanna var þá þegar tilkynnt um það.

Það var alveg ljóst að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti ekki aðra ályktun um Íraksmálið. Ég hafði marglýst því yfir að ég vildi sjá að önnur ályktun yrði samþykkt en það tókst því miður ekki.

Í hverju fólst svo stuðningur okkar? Hann fólst fyrst og fremst í því að við styddum það pólitískt að Saddam Hussein væri komið frá. Við studdum það jafnframt að Keflavíkurflugvöllur gæti verið til afnota í þessu sambandi og í þriðja lagi studdum við það að við værum tilbúnir að standa fyrir stuðningi við uppbyggingu í Írak.

Hverjir fleiri studdu þessa hluti, að sumu leyti með sambærilegum hætti en margir ákváðu að senda lið og búnað til þess að aðstoða í þessu máli? Það voru 18 af 26 þjóðum Atlantshafsbandalagsins.

Íslendingar hafa skipað sér nánast alveg frá upphafi Atlantshafsbandalagsins í hóp þeirra þjóða sem eru oft kölluð Atlantshafsríki. Það eru ríki eins og Danmörk, Holland, Spánn, Portúgal og Noregur. Þessi ríki studdu öll þessa tilhögun nema Noregur sem var tvístígandi í málinu. Hins vegar lögðu Norðmenn fram stuðning með margvíslegum hætti og nú hefur Noregur ákveðið að vera í hópi þeirra þjóða sem stendur að þjálfun öryggissveita í Írak.

Með sambærilegum hætti studdum við aðgerðir í Bosníu, í Kosovo, í Rúanda, en í þeim tilvikum tókst ekki að fá niðurstöðu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og sama má segja um Afganistan. Það hefði að mínu mati verið meiri háttar breyting á utanríkispólitískri stefnu Íslands ef við hefðum ekki staðið með þessum þjóðum. Við höfum gert það í gegnum tíðina og þar hafa hinir svokölluðu lýðræðisflokkar á Alþingi staðið í stafni hvort sem utanríkisráðherrar hafa komið frá Alþýðuflokki, sem var forveri Samfylkingarinnar, frá Sjálfstæðisflokki eða Framsóknarflokki. En nú virðist að Samfylkingin hafi ákveðið að yfirgefa þá samstöðu.

Þessi fortíð er margrædd og aðalatriðið er nú: Hvað vilja menn gera? Hv. þm. Össur Skarphéðinsson upplýsti það í fyrsta skipti í þessari umræðu svo ég muni eftir að Samfylkingin styðji það sem nú er að gerast í Írak. Ég vil biðja hann um að leiðrétta mig ef það er ekki rétt. Ég heyrði ekki betur en að hann styðji ályktun 1546, en á grundvelli hennar er nú unnið í Írak, ályktun sem gefur fjölþjóðahernum umboð til að starfa þar, ályktun sem gefur bráðabirgðastjórn Íraks fullt umboð til að vinna að uppbyggingu og sjálfstæði í landinu og ályktun sem gerir ráð fyrir því að kosningar fari fram í landinu helst fyrir árslok en í síðasta lagi í janúar næstkomandi.

Það er mjög mikilvægt að þetta sé alveg ljóst af hálfu Samfylkingarinnar. Nýlega var atkvæðagreiðsla í danska þinginu þar sem voru greidd atkvæði um það hvort danskir hermenn ættu að vera áfram í Írak. Mikill meiri hluti danska þingsins samþykkti það, þar á meðal stjórnarandstaðan, jafnaðarmenn í Danmörku og róttæki vinstri flokkurinn.

Hins vegar er oft látið í það skína að vegna þess að menn styðji ályktun 1546 beri menn jafnframt ábyrgð á því sem er að gerast í Írak þessa dagana, beri ábyrgð á þeim hræðilegu atburðum sem þar eiga sér stað. Við erum að sjálfsögðu enginn beinn þátttakandi í málinu. Við höfum hins vegar lofað því að standa að uppbyggingu, (Gripið fram í.) höfum þegar varið um 200 millj. kr. af 300 millj. til þessa verks og hvert hafa þeir peningar farið? Þeir hafa farið í gegnum Rauða krossinn, þeir hafa farið í gegnum Hjálparstarf kirkjunnar, þeir hafa farið í gegnum Barnaheill og þeir hafa farið í gegnum stofnanir Sameinuðu þjóðanna.

Ég fæ ekki betur séð en að ef tillagan væri samþykkt væri verið að ákveða að hætta þessu. Samfylkingin talar oft um að taka eigi Ísland af einhverjum lista, sem er svo kallaður. Aðalatriðið er sá stuðningur sem við höfum lofað. Innrásinni er lokið, fluginu um Keflavíkurflugvöll er lokið, og ég spyr: Hefði Samfylkingin neitað því ef hún hefði verið í ríkisstjórn? Það hefði verið í fyrsta skipti í utanríkispólitískri sögu Íslands sem slíku hefði verið neitað af hinum svokölluðu lýðræðisflokkum á Íslandi. Eða á að skilja það svo að Samfylkingin hafi algjörlega breytt um stefnu í málinu? Hvert á að beina því? Á að beina því til Sameinuðu þjóðanna eða á að beina því til Bandaríkjastjórnar? Þetta er náttúrlega hreinn skrípaleikur og hefur verið frá upphafi af hálfu stjórnarandstöðunnar. (Gripið fram í: … skrípaleik.)

Auðvitað er þetta mál erfitt pólitískt mál vegna þess að allir vilja leysa mál með friði. (ÖJ: Það er ekki rétt.) En það hefur ekki alltaf tekist. Það tókst ekki í Bosníu. Hv. þm. Ögmundur Jónasson sem hér kallar fram í var á móti því að fara í aðgerðir þar. Það tókst ekki í Kosovo. Hann hefur líka verið á móti því. Það tókst ekki í Rúanda og það tókst ekki í Afganistan. Það tókst heldur ekki í seinni heimsstyrjöldinni og það tókst því miður ekki í Írak.

Nú er þessi hrjáða þjóð að berjast fyrir tilveru sinni í baráttu við hryðjuverkamenn, berjast fyrir því að koma þar upp lýðræði með sama hætti og þjóðin í Afganistan er að berjast fyrir því líka — með okkar stuðningi. Ég man vel að hv. þingmenn Vinstri grænna voru algjörlega á móti aðgerðum í Afganistan og mátti skilja á þeim að þeir vildu að talibanar væru þar áfram. (Gripið fram í: Útúrsnúningur.) Ég man vel að hv. þingmenn Vinstri grænna voru líka á móti viðskiptaþvingunum Sameinuðu þjóðanna í Írak (Gripið fram í.) og það mátti ekki beita þeim.

Þetta er eins og oft áður að hv. þingmenn vilja ekki axla ábyrgð í alvarlegum málum, vilja ekki horfast í augu við veruleikann. Það var hins vegar skylda ríkisstjórnar Íslands í þessu máli sem öðrum og við öxluðum þá ábyrgð eins og okkur bar skylda til og fylgir því að gegna því embætti sem við gegnum í ríkisstjórn.