131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[18:21]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

„Ja, miklir menn erum við, Hrólfur minn“, var einhvern tíma sagt. Það er von að hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson sé stoltur af því að hafa dregið nafn Íslands og orðstír á alþjóðavettvangi í hvert stríðið á fætur öðru með þeim hörmulegu afleiðingum sem það hefur haft.

Hvað alvarlegast í máli forsætisráðherra áðan tel ég vera að hann notar sem afsökun fyrir viðsnúningi sínum í málinu og að hverfa frá yfirlýstri stefnu sinni og íslensku ríkisstjórnarinnar í janúar, febrúar og allt fram til 17. mars 2003, sem var að gefa vopnaeftirlitinu meiri tíma og að það þyrfti nýja ályktun í öryggisráðinu. Forsætisráðherrann notar nú sem afsökun fyrir þessum viðsnúningi að öryggisráðið hafi ekki náð saman um nýja ályktun, með öðrum orðum samþykkir hann að ganga fram hjá því. Þetta er forsætisráðherrann sem ætlar að standa að undirbúningi fyrir framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna næstu árin, forsætisráðherra sem notar sem réttlætingu fyrir sinnaskiptum sínum það að ganga fram hjá stjórnkerfi Sameinuðu þjóðanna og niðurlægja Sameinuðu þjóðirnar og grafa undan þeim.

Reyndar er ákaflega erfitt að átta sig á málflutningi hæstv. ráðherra hvað varðar aðdraganda þessara atburða. Hér talar hann um ríkisstjórnarfund 18. mars en í Kastljóssþætti fyrir skemmstu sagði hæstv. forsætisráðherra að engin ríkisstjórnarsamþykkt hefði verið gerð. Hvað er hið rétta? Ég held að utanríkismálanefnd verði að fá fundargerðir þessa stjórnarfunda.

Varðandi Noreg vil ég mótmæla því að Norðmenn hafi verið eitthvað tvístígandi í málinu. Á fundi Norðurlandaráðs á dögunum bar þetta mál á góma og Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, kom sérstaklega til mín og sagði við mig að Noregur hefði þrátt fyrir mikinn þrýsting frá Bandaríkjamönnum og fleiri NATO-þjóðum staðið það af sér og hann hefði aldrei lýst yfir stuðningi við þessar aðgerðir. Svíþjóð gerði það ekki heldur, Finnland ekki heldur, Þýskaland ekki heldur og Frakkland ekki heldur, þannig að þegar hæstv. ráðherra kemur með bandamannarökin má snúa þeim við og spyrja: Af hverju völdum við ekki að fylgja þeim meiri hluta Norðurlandanna sem ekki studdi þetta ólögmæta árásarstríð.

Herra forseti. Því miður er saga Íraks eða þess landsvæðis sem forðum var kallað „landið milli fljótanna“ dapurleg hina síðari áratugi. Bretar bera höfuðábyrgð á því að landið varð til innan nokkurn veginn núverandi landamæra og landið hefur síðan bæði goldið og notið þess að eiga aðrar mestu olíulindir í heimi. Eftir að stjórn heittrúarklerka náði völdum í Íran naut Saddam Hussein, sem af mikilli grimmd hafði sölsað undir sig og Baath-flokk sinn öll völd í Írak, sérstakrar velvildar Vesturlanda, einkum Bandaríkjamanna og Breta. Þeir studdu hann með ráðum og dáð og lögðu honum til fjármuni og vopn í hinu grimmilega stríði milli Írans og Íraks þar sem báðir aðilar gerðu sig seka um alvarlega stríðsglæpi og notuðu þar á meðal efnavopn. Á þeim tíma fór lítið fyrir gagnrýni á framferði Saddams Husseins í Bandaríkjunum og á Bretlandi.

Það var svo aftur eftir innrás Íraka í Kúveit, sem sumir telja reyndar að þeir hafi ráðist í í þeirri trú að Bandaríkjamenn mundu láta það afskiptalaust, sem þeir sneru við blaðinu og Flóabardagi skall á og meira en áratugar langt viðskiptabann sem hæstv. forsætisráðherra minnti réttilega á að við reyndum ítrekað að fá Ísland til að falla frá stuðningi við eða beita sér gegn, viðskiptabann sem kostaði 1–1,5 millj. mannslífa, þar af yfir 500 þús. börn að mati viðurkenndra alþjóðastofnana, viðskiptabann sem var svo grimmilegt í mannúðlegu tilliti að allir helstu yfirmenn mannúðar- og líknarmála á vettvangi af hálfu Sameinuðu þjóðanna sögðu af sér embætti. Yfirmenn með áratuga starfsreynslu þoldu ekki að horfa upp á hörmungarnar sem viðskiptabannið hafði og þær miklu mannfórnir sem það tók og að það hjálpaði Saddam Hussein til að halda völdum. Það er sagan á bak við viðskiptabannið og við skulum rifja hana upp við betra tækifæri, hæstv. forsætisráðherra, þegar ég hef meiri ræðutíma. Ég held að ég kunni þá hluti þokkalega og er ófeiminn til þeirrar umræðu. Það er einhver ljótasti bletturinn á grimmilegri utanríkispólitík Bandaríkjanna á einmitt seinni áratugum, sá ískyggilegi tvískinnungur sem sýndur var m.a. þarna.

Innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak 20. mars 2003 var ólögmætt árásarstríð á upplognum forsendum, það liggur nú fyrir. Engin gereyðingarvopn reyndust í Írak. Engin tengsl hafa fundist milli Íraksstjórnar og al Kaída. Sögur af því að Írakar hafi reynt að kaupa auðgað úran í Afríku reyndust upplognar, röng gögn voru reidd fram í sjálfu öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Sá ágæti maður Colin Powell, nokkurn veginn eini maðurinn sem mark hefur verið á takandi í bandarísku ríkisstjórninni, fer því miður frá embætti með þann blett á bakinu.

Í ljós hefur komið að vopnaeftirlit Sameinuðu þjóðanna skilaði miklum árangri, náði tilgangi sínum, og það var réttmæt beiðni Hans Blix og El Baradei um að fá meiri tíma til að ljúka störfum. Þeir fóru fram á það en því miður féll Ísland frá stuðningi við það þegar Halldór Ásgrímsson sneri við blaðinu eða Davíð Oddsson skipaði honum að gera það og við studdum alveg gagnstæða niðurstöðu.

Það sem tillaga okkar í stjórnarandstöðunni snýst um er aðdragandi þess dæmalausa atburðar að vestur í Washington birtist nafn Íslands á lista yfir hinar vígfúsu eða viljugu þjóðir. Þannig frétta menn af því heima á Íslandi að aðdragandi þessa dæmalausa, ólýðræðislega og ólögmæta atburðar verði upplýstur. Hann var ólögmætur vegna þess að lögboðinni samráðsskyldu við utanríkismálanefnd Alþingis var ekki sinnt. Það er borðleggjandi og við skulum létta trúnaði af fundargerðum utanríkismálanefndar og leggja þau spil á borðið um leið og við fáum tæmandi lista yfir símtöl, samtöl, fundi og orðsendingar sem fóru úr íslenska stjórnarráðinu til Bandaríkjanna eða annarra aðila dagana 17.–20. mars 2003.

Það er auðvitað með öllu ólíðandi að hæstv. ráðherrar, Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson, skuli í fullkominni óþökk þjóðarinnar og án þess að virða lögbundnar leikreglur fara þannig með nafn og orðstír Íslands sem hér hefur verið gert og það er sár á þjóðinni. Menn taka þetta inn á sig. Það er veruleikinn og það eru ekki gamanmál þegar mönnum líður allt í einu illa yfir því hvernig farið hefur verið með nafn og orðstír þjóðar þeirra í heimi annarra þjóða. Þegar íslenskir ríkisborgarar sem sinna hjálparstarfi í þessum heimshluta þurfa að fara í felur með það að þeir séu Íslendingar er ástæða til að hugsa sinn gang en það hafa íslenskir ríkisborgarar sem þarna hafa verið við störf upplýst.

Það er algerlega nauðsynlegt að koma Bandaríkjamönnum og Bretum, innrásarherjunum, út úr Írak og að þar taki við friðargæslulið í nafni Sameinuðu þjóðanna, Arababandalagsins eða annarra slíkra aðila. Þá fyrst verður hægt að hefja þar uppbyggingarstarf sem Ísland (Forseti hringir.) á að sjálfsögðu að taka fullan og myndugan þátt í. En það (Forseti hringir.) er ekki hægt á meðan styrjaldaraðilarnir leika þar enn lausum hala.