131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[18:29]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Því miður er staða okkar Íslendinga enn þá sú að við höfum ekki verið tekin af lista hinna viljugu og staðföstu. Við erum sem sagt aðilar að ólögmætri innrás og stríðsrekstri sem enn er haldið úti gagnvart íröksku þjóðinni. Við lifum með þeirri hrikalegu staðreynd að 100 þús. Írakar eru þegar fallnir í styrjöldinni og að ekki sér fyrir endann á ógnaröld og manndrápum, því miður. Íslendingar settu það sem skilyrði þegar þeir gengu í NATO að Ísland mundi aldrei taka beinan þátt í hernaðaraðgerðum, aldrei fara með ófriði á hendur öðrum þjóðum. Tvígengið í ríkisstjórninni þverbraut þetta skilyrði og grundvallaratriði í utanríkisstefnu Íslands með því að skipa Íslandi í bandalag hinna staðföstu þjóða sem stóðu að árásinni á Írak.

Forsætisráðherra og utanríkisráðherra tóku þessa afdrifaríku ákvörðun án minnsta samráðs við löggjafarþingið. Það staðfesti hæstv. forsætisráðherra nýlega í Kastljóssþætti þar sem hann sagði orðrétt, með leyfi forseta:

„Það var engin formleg samþykkt gerð um það í ríkisstjórninni“ er hann var spurður sérstaklega um hvernig staðið hefði verið að þeirri ákvörðun.

Því miður ríkir enn þá óöld í Írak og herir hinna staðföstu þjóða fara fram með þeim hætti sem engin þjóð vill kannast við að bera ábyrgð á. Þar eru framin ódæðisverk nánast daglega en forustumenn ríkisstjórnarinnar þverskallast enn við og neita að endurskoða afstöðu sína. Við þingmenn höfum hvað eftir annað bent á virðingarleysi æðstu embættismanna þjóðarinnar, forsætis- og utanríkisráðherra, gagnvart þinginu í þessu máli. Aldrei hefur lýðræðið verið sniðgengið með þeim hætti sem gert var með þátttöku okkar í innrásinni í Írak og það mál eiga stjórnarherrarnir óuppgert við þing og þjóð.

Hæstv. forseti. Við erum nú á síðasta degi fyrir jólaleyfi að ræða tillögu til þingsályktunar um að upplýst verði um forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak. Tillagan er flutt sameiginlega af okkur forustumönnum stjórnarandstöðunnar. Við förum þess á leit að Alþingi skipi nefnd sjö þingmanna til að rannsaka aðdraganda og ástæður þess að ríkisstjórnin lýsi yfir stuðningi við innrás Bandaríkjanna og Bretlands í Írak 20. mars 2003 án nokkurs samráðs við Alþingi, eins og áður hefur komið fram.

Til þess að vinna nefndarinnar verði markviss verður hún að fá aðgang að öll gögnum stjórnvalda, þar með töldum fundargerðum, minnisblöðum og greinargerðum sem varpað gætu ljósi á ferli og ákvarðanatöku málsins.

Forustumenn ríkisstjórnarinnar mega lýðræðisins vegna aldrei komast upp með það að þessi málsmeðferð verði ekki rannsökuð eins og frekast er unnt. Með öðrum þjóðum fer nú víða fram mikil umræða um forsendur og aðdraganda þessarar innrásar enda hefur Kofi Annan lýst því yfir að innrásin væri ekki í samræmi við samþykktir Sameinuðu þjóðanna. Í flokki forsætisráðherra liggja nú þegar fyrir yfirlýsingar tveggja þingmanna sem báðir hafa gegnt formennsku í þingflokki framsóknarmanna. Fyrrverandi og núverandi þingflokksformaður hafa báðir staðfest að engin ákvörðun að innrásinni hafi verið tekin til umræðu og samþykkt í þingflokki forsætisráðherra. Allt bendir til að ákvarðanatökunni hafi verið stýrt af fyrrverandi forsætisráðherra og að Halldór Ásgrímsson hafi samþykkt málið án samráðs og samþykktar í þingflokki sínum.

Engum kemur á óvart lengur þó að ákvarðanir í Sjálfstæðisflokki séu teknar einhliða af formanni flokksins. Langt virðist í að hilli undir nokkra lýðræðisþróun í Írak eins og málin hafa þróast þar með endalausum bardögum sem leiða til hörmunga og dauðsfalla íbúa landsins þar sem hver borgin á eftir annarri er lögð í rúst og börn og óbreyttir borgarar eru fórnarlömbin eins og sjá má í fréttum nánast daglega, því miður. Það er í raun og veru sorglegt að við skulum eiga aðild að þessum hörmungum sem nú ganga yfir íröksku þjóðina.

Flutningsmenn þessarar tillögu telja nauðsynlegt að upplýst verði

a. hvort sérstök beiðni hafi borist um þennan stuðning, hver beiðandinn hafi þá verið og að hverjum beiðnin beindist í íslenska stjórnkerfinu;

b. hvaða upplýsingar bárust ríkisstjórninni um forsendur innrásarinnar og hvaðan;

c. hvaða mat var lagt á þær upplýsingar af hálfu sérfræðinga á vegum ríkisstjórnarinnar og hverjir önnuðust það mat;

d. hvernig ákvörðunin var tekin innan ríkisstjórnarinnar og stuðningsflokka hennar;

e. hvers vegna ákveðið var að hafa ekki samráð við Alþingi samkvæmt landslögum, 24. gr. þingskapalaga, og hvaða ráðherra bar ábyrgð á því að það var ekki gert;

f. hvenær var horfið frá þeirri stefnu að gefa bæri vopnaeftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna meiri tíma til að ljúka störfum og að hernaðaraðgerðir gegn Írak kölluðu á nýja ályktun öryggisráðsins;

g. hvernig ákvörðun ríkisstjórnarinnar var komið á framfæri við umheiminn, hverjum voru send boð um þessa ákvörðun og með hvaða hætti;

h. af hverju sagt var frá ákvörðuninni í Washington en hún ekki kynnt íslensku þjóðinni með fréttatilkynningu, á blaðamannafundi eða eftir öðrum viðurkenndum samskiptaleiðum stjórnvalda og almennings.

Mikilvægt er að mál þetta verði útkljáð sem fyrst svo að Alþingi geti rætt niðurstöður rannsóknarinnar og ákveðið næstu skref sem m.a. kynnu að felast í að kalla þá til ábyrgðar sem teldust hafa vanrækt skyldur sínar í embætti. Því telja flutningsmenn hæfilegt að nefndin ljúki störfum eigi síðar en í byrjun maí árið 2005.

Vonandi ber Alþingi gæfu til þess að samþykkja þessa tillögu svo að ferli málsins og ákvarðanataka stjórnvalda sem ég tel að tekin hafi verið af tveim mönnum, forsætis- og utanríkisráðherra, verði þjóðinni ljós.

Við í Frjálslynda flokknum erum hlynnt því að starfa að uppbyggingar- og friðarstarfi með það að markmiði að koma að störfum og aðstoð til eflingar friði í heiminum. Undan því munum við ekki víkjast.