131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[18:36]

Sólveig Pétursdóttir (S):

Hæstv. forseti. Þessum furðulegu umræðum um málefni Íraks er nú haldið áfram á Alþingi hér í kvöld. Ég vonast til þess að með þessum umræðum núna verði bundinn endir á endalausar umræður um fortíðina.

Í tillögunni sem hér er til umræðu fara flutningsmenn fram á að Ísland dragi til baka stuðning sinn við innrásina á Írak og taki sig af lista viljugra þjóða, eins og þeir nefna svo. Þá fara þeir fram á rannsókn á ástæðum þess að íslensk stjórnvöld lýstu yfir stuðningi við aðgerðirnar.

Ég vil minna hv. þingmenn á þá ræðu er ég flutti hér á Alþingi þann 16. nóvember sl. og minna á það að utanríkismálanefnd hefur þegar tekið þetta mál fyrir, Íraksmálið, að beiðni hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þannig að málið er þegar til meðferðar í nefndinni. Það hefur verið lagt í töluverða vinnu við að útvega gögn og upplýsingar sem beðið hefur verið um. Þá hafa gestir verið kvaddir fyrir nefndina til að ræða málið. Athugun nefndarinnar er ekki lokið enn þá og því erfitt að ræða einstök efnisatriði Íraksmálsins hérna. En nefndin mun fá þessa tillögu til meðferðar eftir þessa umræðu og væntanlega verða þessi mál skoðuð í samhengi.

Hæstv. forseti. Uppbygging lýðræðis og breyting á stjórnarháttum í Írak er nauðsynleg til að tryggja framtíð írakskra borgara í samfélagi þjóðanna. Endurreisnarstarfið í Írak byggir á ályktun öryggisráðsins, því verður að halda áfram og er langt frá því lokið.

Um ástæður þess að bandamenn ákváðu að ráðast inn í Írak þarf ekki að fjölyrða hér. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafði gefið Írak tækifæri til að sýna fram á að öllum gereyðingarvopnum hefði verið eytt en Írak virti það að vettugi. Ályktanir Sameinuðu þjóðanna um afvopnun Íraks voru í fullu gildi fyrir innrásina og það mátti öllum vera ljóst að aðgerðum var hótað ef ekki yrði orðið við þeim ályktunum. En Saddam Hussein þráaðist við í áraraðir og varð ekki við ályktunum öryggisráðsins varðandi gereyðingarvopn. Mótstaða hans varð til þess að mjög erfitt var að treysta nokkrum upplýsingum sem frá írökskum stjórnvöldum komu.

Á þessum tíma var einnig ljóst að samstaða mundi ekki nást í öryggisráðinu, m.a. vegna andstöðu Frakklands. Þannig var líklegt að þjáningar íröksku þjóðarinnar undir járnhæl Saddams Husseins yrðu enn dregnar á langinn og óvissuástandið fyrir heimsbyggðina alla fór hríðversnandi.

Ég held að allir geti verið sammála um að Sameinuðu þjóðirnar eru rétti vettvangurinn til að taka svo afdrifaríkar ákvarðanir sem hernaðaríhlutun er. (Gripið fram í.) Hins vegar birtust veikleikar stofnunarinnar í sinni verstu mynd þegar þarna var komið sögu. Írak hafði komist upp með að brjóta gegn ályktunum öryggisráðsins í 12 ár (ÖJ: … 40 sinnum.) og þannig gat harðstjórinn gert grín að alþjóðasamfélaginu svo árum skipti. Trúverðugleiki Sameinuðu þjóðanna var í hættu. Öryggisráðið var þarna komið í úlfakreppu og eitthvað varð að gera.

Bandamenn tóku ákvörðun um að beita hernaðaríhlutun í Írak á grundvelli gildandi ályktunar öryggisráðsins nr. 1441. Rökstuddur grunur um að gereyðingarvopn væru til staðar í Írak og að harðstjórinn mundi beita þeim fengi hann tækifæri til þess lá fyrir. Það var mat bandamanna okkar að ekki væri unnt að bíða frekar enda fyriséð að Saddam Hussein mundi aldrei starfa með alþjóðasamfélaginu heldur þvert á móti halda áfram að vera ógn við þjóðir heims.

Hæstv. forseti. Sérstök nefnd sérfræðinga hefur nú skilað Kofi Annan, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, skýrslu um hvernig megi gera samtökin betur í stakk búin til að takast á við þær hættur sem steðja að öryggi þjóða heims. Það er því alveg ljóst að Sameinuðu þjóðirnar gera sér nú grein fyrir að einhverju þarf að breyta til að þau geti náð tilgangi sínum.

Mörgum hv. þingmönnum hefur orðið tíðrætt hér um að ákvörðun íslenskra stjórnvalda í mars 2003 hafi verið eitthvað gölluð. Hæstv. forsætisráðherra, sem var utanríkisráðherra á sínum tíma, hefur gert ítarlega grein fyrir sjónarmiðum sínum og afstöðu, bæði hér í þingsal, á fundum utanríkismálanefndar og opinberlega. Ég tel það vera farsælast að hætta að velta sér stöðugt upp úr ákvörðunum sem teknar voru fyrir hartnær tveimur árum. Núna er einmitt hvað mest áríðandi að horfa fram á veginn, styðja uppbyggingarstarfið í Írak og kanna með hvaða hætti við getum t.d. lagt þeim lið við þróun lýðræðis.

Ég ítreka það hér að löngu áður hafði það komið fram að íslensk stjórnvöld útilokuðu ekki að valdbeiting kæmi til greina gegn Írak með eða án atbeina Sameinuðu þjóðanna. Ég vitna hér beint í ræðu hæstv. utanríkisráðherra Davíðs Oddssonar sem var forsætisráðherra á þessum tíma en hann sagði í stefnuræðu þann 2. október 2002, með leyfi forseta:

„Takist öryggisráðinu ekki að fást við svo hættulega ógn sem þá er stafar frá Íraksstjórn og brölti hennar má ekki útiloka að farnar verði aðrar leiðir.“

Hæstv. forseti. Getur þetta verið skýrara um afstöðu íslenskra stjórnvalda? (Gripið fram í.) Málið hafði margsinnis verið rætt fyrir innrásina í Írak og þá lá ljóst fyrir hvert stefndi. Ég hef áður vísað til umræðna í utanríkismálanefnd í febrúar og mars 2003, enn fremur til skýrslu utanríkisráðherra og ræðu fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í febrúar það ár. Það er því algjörlega fráleitt að halda því fram að lýðræðið hafi verið sniðgengið.

Það kom á daginn sem margir höfðu óttast en margir vonað að mundi aldrei gerast, m.a. íslensk stjórnvöld, að öryggisráðinu tókst ekki að fást við þá ógn sem stafaði af Írak, því miður. (Gripið fram í.) Frá stefnuræðu forsætisráðherra varð, eins og ég hef áður greint frá, engin stefnubreyting af hálfu íslenskra stjórnvalda í afstöðu til hættunnar sem stafaði af ógnarstjórninni í Írak.

Hvaða þýðingu hefur svo stuðningur íslenskra stjórnvalda við aðgerðirnar gegn Írak? Ég tel líklegt að þjóðir sem studdu innrásina beri kannski meiri siðferðilega ábyrgð á að leggja uppbyggingarstarfinu lið. Við stöndum við skuldbindingar okkar. Strax eftir innrásina í Írak 2003 ákváðu íslensk stjórnvöld að verja sem svarar um 300 millj. kr. til uppbyggingarstarfsins.

Bráðabirgðastjórnarinnar í Írak bíður erfitt verkefni við að koma á lýðræðislegri stjórnskipun í landinu og fyrirhugað er að halda þingkosningar á næstunni. Til þess þarf bráðabirgðastjórnin í Írak fullan stuðning alþjóðasamfélagsins. Í janúar á næsta ári verða væntanlega haldnar lýðræðislegar þingkosningar í landinu og af fréttum má ráða að mikill áhugi sé á kosningunum en 55 framboðslistum mun hafa verið skilað til yfirkjörstjórnar í Írak. (Forseti hringir.) Fram undan er einnig að leita leiða til að treysta stoðir Sameinuðu þjóðanna, (Forseti hringir.) einkum öryggisráðsins, þannig að það þarf að tryggja að ráðið geti brugðist við (Forseti hringir.) aðsteðjandi ógn með trúverðugum og skilvirkum hætti.