131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[19:11]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er eitthvað gruggugt í þessu máli. Þetta er málum blandið. Það er tilfinningin sem lifir eftir þessa umræðu.

Ég spurði hæstv. forsætisráðherra tveggja spurninga og hann kom sér undan því að svara báðum. Ég ætla að endurtaka þær.

Lítur hæstv. forsætisráðherra svo á að sú yfirlýsing sem hann segir nú að hafi verið gefin bandarískum stjórnvöldum 18. mars hafi ekki falið í sér stuðning við innrásina?

Í öðru lagi segir hæstv. forsætisráðherra að það hafi áður komið fram að þessi yfirlýsing hafi verið gefin gagnvart Bandaríkjamönnum 18. mars. Má ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvenær þetta kom áður fram? Má ég líka spyrja hann um það aftur: Fengu íslensk stjórnvöld upplýsingar um að innrásin stæði til tveimur sólarhringum áður en hún hófst? Spurningin er rökrétt því að ella hefði ekki verið hægt að ræða þetta á ríkisstjórnarfundi að morgni 18. mars.

Þetta sýnir að við þurfum að skoða málið betur en ég bíð í ofvæni eftir svörum við báðum þessum spurningum.